24. jan 2013

Árni Páll er leiðtogi með skýra sýn

Nú þegar við Íslendingar erum óðum að vinna okkur út úr erfiðleikum síðustu ára, stöndum við frammi fyrir mörgum grundvallar verkefnum sem munu hafa afgerandi áhrif á framtíð okkar. Mikilvægt er að samfélagið byggi á réttlæti, jöfnuði og samábyrgð. Velferðarsamfélag þar sem öflugt heilbrigðiskerfi og menntun fyrir alla er sjálfsagður hlutur. Þar sem langtímasjónarmið eru sett ofar skammtímagróða.

Til þess að standa undir slíku þjóðfélagi þurfum við dýnamískt samspil einkaframtaks og ríkisvalds. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á kraftmiklu, ábyrgu einstaklingsframtaki og víðsýnu ríkisvaldi, sem styður við verðmætasköpun atvinnulífsins en setur þó skýrar leikreglur. Síðast en ekki síst þurfum við að vinna áfram ötullega að inngöngu í ESB með upptöku Evru sem gjaldmiðil að leiðarljósi. Öllu skiptir að Samfylkingin leiki lykilhlutverk í þessari vinnu á næstu árum. Til þess að svo megi verða þurfum við meðal annars að velja okkur öfluga forystu.

Stjórnmálaleiðtogi sem ætlar sér að stýra þessari þróun þarf að hafa skýra sýn á framtíðina, hæfileika til að miðla henni og þann eiginleika að geta laðað nýja liðsmenn til fylgis við sig. Þá þarf hann að eiga auðvelt með að greina hismið frá kjarnanum og vera reiðubúinn til að taka djarfar ákvarðanir. Hann verður þó að vera opinn fyrir skoðunum annarra og búa yfir ríkum samstarfsvilja.

Ég er sannfærður um að Árni Páll býr yfir þessum kostum og því styð ég hann til formennsku í Samfylkingunni.

Logi Einarsson arkitekt og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri.