24. jan 2013

Árni Páll er traustsins verður

Það var mér mikið fagnaðarefni þegar Árni Páll Árnason gaf kost á sér til að leiða Samfylkinguna. Frá því að ég kynntist Árna Páli í starfi mínu með Samfylkingunni á Seltjarnarnesi hef ég verið þess fullviss að þar væri leiðtogaefni á ferð. Hann hefur þroskast sem stjórnmálamaður og lært af sigrum jafnt sem ósigrum á liðnu kjörtímabili. Árni Páll hefur verið ötull að rækta samskipti við félaga sína og kjósendur í kjördæminu og hann er einn af fáum sem leggur sig fram um að hlusta á sjónarmið annarra.

Árni Páll hefur alla burði til að verða farsæll leiðtogi jafnaðarmanna og forystumaður þjóðarinnar á þeim viðkvæmu tímum sem eru framundan. Hann hefur sterka framtíðarsýn sem byggist jöfnum höndum á raunsæju stöðumati og þrá eftir réttlátara samfélagi. Hann er jákvæður, kjarkmikill og baráttuglaður og blæs með því félögum sínum eld í brjóst. Samtímis hefur hann einnig sýnt með störfum sínum að hann er tilbúinn að leita lausna sem sætta ólík sjónarmið.

Það er sannfæring mín að Samfylkingin þurfi að ná góðum árangri í næstu kosningum og verða burðarflokkur í næstu ríkisstjórn. Við blasa vandasöm viðfangsefni á sviði efnahags- og atvinnumála. Þau þarf að leysa með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi ef okkur á að auðnast að hafa hér efnahagslega sjálfstætt, opið og réttlátt velferðarsamfélag með sambærilegum lífskjörum og bjóðast í nálægum löndum.

Ég treysti engum betur en Árna Páli til að leiða þá vegferð og afla henni víðtæks stuðnings.

Höfundur er fyrrv. formaður Samfylkingar á Seltjarnarnesi