24. jan 2013

Árni Páll, ESB og framtíðin

Ekki þótti mér það stórhuga ákvörðun, þegar ríkisstjórnin tilkynnti að setja ætti aðildarviðræðurnar við ESB á ís, þótt eflaust hafi það verið óhjákvæmilegt, miðað við það hvernig ríkisstjórnarflokkurinn VG hafði þjösnast á málinu. Það er slagsíða á þessari ríkisstjórn. Það hallar á stærri flokkinn. Með þessari ákvörðun var eitt helsta baráttumál Samfylkingarinnar blásið af. Ef fram heldur sem horfir í skoðanakönnunum verður því jafnframt slegið á frest að leggja nýjan grunn að bættri velferð almennings á Íslandi.

Snjóhengjan vofir yfir
Við erum einstaklega lagnir við það Íslendingar að skjóta sjálfa okkur í fótinn. Við viljum frekar láta lægst launuðu hópa samfélagsins berast í bökkum, en taka af manndómi á þeim meinsemdum sem hrjá þjóðfélagið.  Áfram skal búið við viðvarandi þróttmikla verðbólgu, sem borguð er að mestu leyti af  skuldugum íbúðaeigendum. Áfram skal búa við gjaldmiðil sem ekki er hægt að koma stöðugleika á og veldur stöðugum flótta fyrirtækja af landinu. „Snjóhengjan“ svokallaða vofir yfir þjóðinni án þess að við megnum að minnka hana. Áfram skal illa settur almenningur greiða meira fyrir landbúnaðarvörur en á nokkru öðru byggðu bóli, þrátt fyrir ógnar stuðning skattgreiðenda í formi niðurgreiðslna. Áfram skal meirihluti bænda hýrast við þröngan kost án hvetjandi framtíðarsýnar.

Samfylkingin standi í lappirnar
Þetta er kjarni þeirra vandamála sem næsta ríkisstjórn þarf að leysa. Þeir sem eru hreinskilnir gagnvart sjálfum sér vita, að aflandskrónuvandinn (snjóhengjan) verður ekki leystur nema í samstarfi við Evrópska Seðlabankann. Hér þarf  því styrkar hendur og fumlausa hugsun, ef vel á að fara. Með þetta í huga er það afar mikilvægt að Samfylkingin, sem verið hefur eini óskipti stuðningsflokkur aðildar, standi  í lappirnar og velji sér formann sem veit hve mikilvæg aðild okkar að ESB er fyrir velferð almennings og sjálfstæði þjóðarinnar í bráð og lengd. Þar má hvergi hvika.

Við þurfum forystumann
Sérhver ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar verður að vera skilyrt framgangi þessa máls. Reynsla Alþýðuflokksins undir forystu Jóns Baldvins, sem skilyrti ríkisstjórnarmyndun við framgang EES málsins, var bæði árangursrík og lærdómsrík. Það skipti meira máli að koma því stórmáli heilu í höfn en láta blekkjast af fagurgala. Þetta veit Árni Páll mæta vel. Þeir sem fylgst hafa með Árna Páli frá því hann hóf stjórnmálaferil sinn, hafa tekið eftir breytingum til meiri stjórnmálaþroska  og víðtækari þekkingar. Hann er ekki gallalaus frekar en aðrir en hann hefur lært af mistökum, bæði annarra og sjálf síns. Blaðaskrif hans undanfarna mánuði bera þess vott. Hann hefur auk þess einn mikinn kost, sem stjórnmálaforingi verður að hafa.  Hann er ófeiminn við að taka ákvarðanir, jafnvel svo að manni fannst stundum nóg um.  Á okkar erfiðu og viðsjárverðu tímum þurfum við á forystumanni eins og Árna Páli að halda. Sýn hans á framtíð þjóðarinnar vekur vonir.

Þess vegna styð ég hann til formanns Samfylkingarinnar.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur.