07. jan 2013

Bláir og rauðir boxhanskar

Lítill leiðarvísir upp úr þriðju skotgröf til vinstri - bréf til Hallgríms Helgasonar.


Kæri Hallgrímur.

Ég var að lesa greinina þína „Valdfrekjumeðvirkni“ í helgarblaði DV og það brast eitthvað innra með mér. Of margir eru að gefast upp, einstaklingar sem eiga ríkt erindi í pólitík stíga ekki fram, sterkar konur hrekjast út, ferskar raddir kafna. „Salurinn er ónýtur“ segir þú um þingið. Vonbrigði þín eru smitandi - það finn ég á fólki sem les þig alltaf. Ég vel að bregðast við. Pólitíkin er ekki dauð fyrr en fólk hættir að segja hvað því býr í brjósti, gefur skít í draslið, hættir að gera sitt besta.

Vandi okkar er að stjórnmál gærdagsins héldu áfram eftir 2008. Vonbrigði dagsins í dag eru ekki áfellisdómur yfir verkum vinstri stjórnar. Þau eru birtingarmynd þess sama óþols og einkenndi búsáhaldabyltinguna: Þreyta valdsviptrar þjóðar með stjórnvöld sem gefa hátimbraðar yfirlýsingar um eigið ágæti: Fréttatilkynningar í stjórnlyndum stíl um hvað stjórnin hafi þegar gert og hvernig hún hafi ákveðið að verja skattfénu okkar.

Og kannski er ástæða til að örvænta. Valkosturinn er sannarlega skelfilegur, eins og þú rekur vel: Ekkert verður betra ef vinir gamla góða Villa geta tekið upp Eirarhætti við stjórn efnahagsmála.  

Það eru komin tíu ár síðan þú skrifaðir grein sem hét „Bláa höndin“. Hún lýsti mjög vel megineinkennum íslensks stjórnmálalífs á þeim tíma: Klíkuveldinu, hættulegri einsleitni í ákvarðanatöku, ofríki og hrikalegri meðvirkni. Kannski er stjórnmálalífi Íslands rúmum 10 árum síðar best lýst sem bardaga blárra og rauðra boxhanska.

Veikleiki okkar vinstri manna er að við höfum ekki greint Hrunið af sömu skarpskyggni og þú gerðir í Bláu höndinni. Okkur skortir að skilja að hvaða leyti það var afleiðing misráðinna innlendra stjórnarhátta, að hvaða leyti glæpsamlegrar hegðunar og að hvaða leyti óumflýjanleg afleiðing hrikalegrar fjármálakreppu á mjög skuldsett hagkerfi með fáránlega lítinn gjaldmiðil í opnu og hindrunarlausu hagkerfi. Ef stjórnarhættirnir og glæpamennskan voru allsráðandi ástæður ætti til dæmis að vera vandalaust að afnema gjaldeyrishöft, nú þegar gott fólk stjórnar og meintir glæpamenn eru ekki í lykilstöðum. En hvað blasir þá við? Jú, þverpólitísk samstaða um ótímabundin höft. Kann vandi okkar kannski að vera flóknari en við hugðum í upphafi og það dugi ekki bara að skipta um fólk? Er vonleysið kannski afleiðing þessarar vangetu okkar – fórnarlamba fákeppninnar - til að skilja flækjurnar og hætturnar sem eru því samfara að búa við valddreift samfélag og frjálsan markað í opnu hagkerfi?

Við tölum oft meira um Hrunið en það hvernig Ísland á að líta út árið 2017, hvað þá 2021. Fyrir vikið eiga kyrrstöðuöfl í stjórnarandstöðu þann auðvelda leik að segja ekkert um framtíðina. Jafnaðarmenn um alla norður-Evrópu byggðu hugmyndafræði sína á líkingunni um Þjóðarheimilið – undir forystu jafnaðarmanna ættu sér allir rétt til þátttöku og virðingar, jafnt eigendur fyrirtækja og launamenn. Hvar er hugsun íslenskra jafnaðarmanna um þjóðarheimili Íslands stödd í upphafi árs 2013?

Skipbrot stjórnarhátta genginna tíma kallar á alveg nýja stjórnarhætti, ekki andlitslyftingu eða mjúkmálli fulltrúa. Íslensk stjórnmál minna um sumt á á sápuóperuna Leiðarljós. Það er alltaf sama fólkið á sviðinu og enginn veit um hvað er rifist. Þeir sem deyja, vakna á ný til lífs nokkrum þáttum seinna. Við getum ekki látið stjórnmálin líða áfram endalaust í hægum endursýningum á ástum og hatri eldri kynslóðar íslenskra stjórnmálaforinga. Við verðum að fá til leiks nýja kynslóð stjórnmálamanna sem er tilbúin að kalla fram alla bestu eiginleika samfélagsins, menntun, vit og ábyrgð til að fá aldrei aftur Hrun. Efnahagsmál, utanríkismál og velferðarmál eru samtvinnuð sem aldrei fyrr og í reynd eitt og sama verkefnið. Það er pólitískt lífsspursmál Íslands núna að fá til starfa fólk sem notar bæði heilahvelin, sameinar andstæður, þekkir menningu annarra, hlustar á aðra og kryddar matinn sinn.

Ég hef farið um allt land og hitt að máli ólíkustu Íslendinga undanfarið og vil bjóða fram nýja stjórn undir forystu Samfylkingar sem skilur og skynjar hlutverk sitt sem burðarflokks jafnréttis, félagslegs réttlætis og frjálsrar samkeppni. Eftir 12 ára tilvist getur Samfylkingin sýnt að hún sé komin til manndómsára og ráði við það hlutverk sem henni var ætlað: Að vera breiðfylking á miðju og vinstri væng íslenskra stjórnmála, laus undan oki þess ofríkis og mannhaturs sem einkennt hefur íslensk flokkastjórnmál um áratugi. Við höfum alltaf verið dregin í dilka, nauðug viljug. Við þurfum að losna við köfnunartilfinninguna sem greinin þín lýsir. Stjórn undir forystu jafnaðarmanna má ekki standa í lok kjörtímabils eins og úrvinda bardagamaður með rauða boxhanska sem á þá ósk heitasta að dómarinn flauti bardagann af.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að vera full baráttuþreks og brjótast til nýrrar framtíðar, geta faðmað þjóðina og fundið öllum rúm á Þjóðarheimilinu. Hún er ekki stefnulaus, tekur almannahagsmuni ávallt fram yfir sérhagsmuni og leitar leiða úr erfiðum aðstæðum með samræðuna að vopni. Og henni eru allir vegir færir.

Kær kveðja,

Árni Páll.