28. nóv 2008

Burt með verðtrygginguna

Verðtrygging langtímalána er óaðskiljanlegur fylgifiskur íslensku krónunni. Smæð krónunnar og sveiflur hennar valda því að ef engrar verðtryggingar nyti við, væri enginn möguleiki til að taka langtímalán á föstum vöxtum á Íslandi. Verðtryggingunni er ætlað að bæta lánveitanda tjón það sem hann getur orðið fyrir vegna rýrnunar á fé hans vegna verðlagshækkana. Jafnframt hefur verðtrygging gert samfélaginu kleift að dreifa kostnaði af verðbólguskotum yfir allan lánstímann, í stað þess að aukinnar verðbólgu sjái strax stað í vaxtakjörum. Sem dæmi má nefna að ef húsnæðisvextir væru óverðtryggðir í dag væru þeir væntanlega upp undir 30%. Við þær aðstæður væru enn fleiri að komast í greiðsluþrot en raun ber vitni og enn fleiri að missa heimili sín en búast má þó við ef allt fer á versta veg á næstu árum. 

Ókostir verðtryggingarinnar 

Vandinn við verðtrygginguna er að hún er deyfilyf. Þegar vel árar og verðbólga er hófleg gerir verðtryggingin stjórnvöldum kleift að losna undan gagnrýni á lausatök í efnahagsmálum. Þetta var t.d. staðan árin 2005-2006. Við vöruðum mörg við ofþenslu og skuldsetningu en almenningur fann ekki mikið fyrir afleiðingum efnahagsklúðursins, þar sem verðbætur lögðust einungis við höfuðstól og afborganir hækkuðu óverulega. 

En nú undanfarna mánuði og misseri hefur íslenskur almenningur fengið að kenna á því að fullu hversu ómöguleg verðtryggingin er í raun. Við höfum líka fengið óþyrmilega að finna fyrir því að verðtrygging getur ekki gengið upp með mikilli verðbólgu. Þess vegna er ábyrgð þeirra mikil sem forðuðust efnahagslegan stöðugleika eins og heitan eldinn á uppgangsárunum og lugu því að sjálfum sér og öðrum að íslensk króna gæti gengið sem framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. 

Ófyrirséð kerfishrun 

Eftir hrunið mikla hefur þörf fyrir aðgerðir orðið brýnni en fyrr. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til aðgerða til að taka á brýnasta vanda heimila sem standa frammi fyrir mikilli hækkun á greiðslubyrði vegna hækkunar verðtryggðra lána á næsta ári. Ný greiðslujöfnunarvísitala gerir lántakendum kleift að lækka greiðslubyrði milli 10-20% á næstu tveimur árum, þegar búast má við að kaupmáttur verði í lágmarki og atvinnuleysi sem mest. Greiðslubyrðin frestast þá þar til síðar á lánstímanum, þegar efnahagslegar aðstæður hafa batnað og atvinnuleysi minnkað. 

Við kerfishrunið hafa gríðarlegar eignir í samfélaginu orðið að engu. Þetta hrun er að öllu leyti ófyrirséð og ekki lántakendum að kenna að nokkru leyti. Þrír fjórðu hlutar skulda heimilanna eru verðtryggðar. Við þessar aðstæður er ófært að stór hluti þjóðarinnar verði að bera skuldbindingar sínar að fullu, til þess eins að hlífa lánveitendunum og fjármagnseigendunum einum við tjóni. Skiptir þá engu þótt endanlegir lánveitendur séu að stærstum hluta lífeyrissjóðir eða ríkið, í gegnum hina nýju ríkisbanka. Þeir þurfa eftir sem áður að bera tjónið a.m.k. að hluta á móti lántakendunum, þegar hamfarir af þessum toga ríða yfir þjóðina. 

Varanleg lausn er framundan
 
Við getum hins vegar ekki hummað fram af okkur lengur að fá varanlega lausn á þessu vandamáli og losa almenning undan verðtryggingunni. Eina leiðin til þess er með aðild að Evrópusambandinu og notkun betri gjaldmiðils. En breytingin þarf ekki að vera langt undan, því þetta verkefni þarf ekki að bíða upptöku evru. Nægjanlegt er að stöðugleiki verði kominn í gengi krónunnar gagnvart evrunni og Ísland verði komið inn í myntsamstarf aðildarríkja ESB innan ERM II. Aðferðin yrði sú að beita skiptiútboði þar sem útistandandi skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og annarra lánveitenda yrði skipt fyrir evrubréf með föstum vöxtum án verðtryggingar. Í kjölfarið væri hægt að breyta lánskjörum almennings til samræmis. Það eru því horfur á að hægt að losa lántakendur við verðtrygginguna strax á fyrsta ári ESB-aðildar. 

Okkur liggur á, því það er mikilvægt að aftengja vítahring verðtryggingarinnar. Við vitum að það sem bíður okkar þegar við komum út úr kreppunni eru hækkandi laun, hækkandi húsnæðisverð og hækkandi neysluvörur. Allt mun þetta að óbreyttu leiða til hækkunar lánanna okkar, samkvæmt þeirri séríslensku vitleysislausn sem við höfum búið til með verðtryggingunni. Verðtryggingin er að fara langt með að eyða eignum heimilanna á leiðinni inn í kreppuna. Við verðum að hafa hraðar hendur til að forða því að því hengingarólin herðist enn um háls þeirra sem lifa munu kreppuna af, vegna vísitöluhækkana sem munu óhjákvæmilega fylgja hækkun verðlags í kjölfar kreppunnar. 

Þríþætt aðgerðaáætlun 

Í reynd er því um þríþætta aðgerðaáætlun að ræða. 

Í fyrsta lagi mun greiðslujöfnunarvísitalan lækka greiðslubyrði verðtryggðra lána á næstu tveimur árum um allt að 20%. Sú breyting mun forða mörgum heimilum frá miklum erfiðleikum og fresta byrðum til seinni tíma, þegar betur árar. 

Í öðru lagi þarf að finna sanngjarna leið til að leysa lántakendur undan hluta þess kostnaðar sem þeir ella verða fyrir af hækkun lánskjaravísitölu á næstu mánuðum. Það verður einungis gert með almennri skattlagningu ríkisins á alla og þannig tryggt að sá kostnaður verði borinn af samfélaginu í heild en ekki einungis af þeim sem eru að bera lánin nú. 

Í þriðja lagi þarf að losa lántakendur við verðtryggingarkerfið svo fljótt sem auðið er áður en efnahagslífið tekur að glæðast á ný, með aðild að Evrópusambandinu. 

Við þurfum að taka hratt og skilmerkilega á þeim vanda sem verðtryggingin skapar á næstu mánuðum. Við getum gripið til ýmissa tímabundinna aðgerða sem létta byrðarnar, flutt þær til í tíma eða dreift þeim að hluta með jafnari hætti en ella væri. En einhver hópur Íslendinga þarf alltaf að borga fyrir verðtrygginguna á meðan íslenska krónan er til. Undan því verður ekki vikist. Því fyrr sem við náum í gegn aðild að Evrópusambandinu, því fyrr getum við kvatt verðtrygginguna. Við megum einfaldlega engan tíma missa. 

Birt í Morgunblaðinu 28. nóvember 2008.