24. jan 2013

Einbeittur og staðfastur

Forystufólk stjórnmálaflokka ber þunga og mikla ábyrgð, ekki síst þegar kemur að því að móta stefnu og vinna henni fylgi. Þar er auðvitað að mörgu að hyggja því stjórnmálin umlykja daglegt líf okkar og skapa það samfélag sem við byggjum saman.

Það skiptir máli hverjir stjórna
Kosningar til Alþingis eru í nánd. Þá vega og meta kjósendur menn og málefni, flokka og stefnuskrár. Útkoma kosninga er oftast ófyrirsjáanleg, ekki bara úrslitin sjálf heldur sá málefnakokteill sem verður hristur saman í nýrri ríkisstjórn. Þá reynir á þá sem hafa verið valdir til forystu í flokkunum. Þá þarf að ná sínu fram og hnýta alla lausa enda.
Íslandi er best borgið með aðild að Evrópusambandinu í bráð og lengd. Þar gildir einu hvort litið er til lífskjara, starfsskilyrða atvinnulífsins, öryggis- og varnarmála eða menningarmála. Það er bjargföst skoðun mín og margra annarra.

Efnahagslegur stöðugleiki tryggður
Samfylkingin er að velja sér formann. Hann verður að vinna ötullega að því að tryggja efnahagslegan stöðugleika og búa í haginn fyrir öflugan útflutning. Það er forsenda góðra lífskjara. Með haftakrónu, hárri verðbólgu, gengissveiflum og annarri óáran sem fylgir okkar sjálfstæðu peningamálastefnu tekst það ekki. Aðild að Evrópusambandinu er auðveldasta og raunhæfasta leiðin til varanlegs árangurs.

Einbeittur og stefnufastur
Nýr formaður þarf að hafa skýra sýn í þessu stóra hagsmunamáli. Hann þarf að þekkja vel til allra þátta þess og hafa getu til þess að leiða saman alla þá sem hafa sömu sýn á vettvangi stjórnmálanna. Hann þarf að vera einbeittur og stefnufastur í verkum sínum, sannkallaður málafylgjumaður. Það er ekki auðvelt að rísa undir þessum kröfum, auk annarra mannkosta sem formaður stjórnmálaflokks þarf til að bera.

Árni Páll er rétti maðurinn.

Jón Steindór Valdimarsson lögfræðingur og formaður Já Ísland