07. maí 2007

Einn af hverjum sex

Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika 2007 kemur fram að um 16% af fasteignaveðlánum móðurfélaga bankanna í árslok 2006 sé með veðhlutfalli yfir 90%. Þetta þýðir á mæltu máli að uppreiknaður höfuðstóll 16% húsnæðislána bankanna nemi meira en 90% af verðmæti þeirra eigna sem að baki standa. Smávægilegar hræringar á fasteignamarkaði geta nægt til að þetta hlutfall verði neikvætt. Með öðrum orðum: Einn af hverjum sex íbúðareigendum, sem eru með húsnæðislán í bönkum, á ekkert sem heitið getur í húseign sinni.

Fátt sýnir betur en þetta hversu hættuleg hin metnaðarlausa efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar er. Verðbólga hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í fimm af síðustu sex árum. Ríkisstjórnin hefur ítrekað hellt olíu á verðbólgubálið og uppskorið gagnrýni allra sem vit hafa á – OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, innlendra sem erlendra greiningardeilda og aðila vinnumarkaðarins. Seðlabankinn hefur ítrekað gagnrýnt efnahagsstjórnina á undanförnum árum og kallað eftir auknu aðhaldi. Við því hefur ekki verið orðið. Þess vegna hefur Seðlabankinn þurft að beina brunaslöngunum af fullu afli á verðbólgubálið með stýrivaxtahækkunum. Afleiðingarnar eru alvarlegastar fyrir þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og bera verðtryggðan skuldabagga.

Getuleysi og hugleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hefur sett ríkissjóð í vanda og skapað gríðarlega hættu fyrir heimilin í landinu. Skuldsetning heimila hefur aukist mjög á kjörtímabilinu. Látlaus verðbólga étur upp eign fólks í íbúðarhúsnæði og gerir það að leiguliðum bankakerfisins, ef ekki verður brugðist við af festu. Kaupmáttaraukning má sín lítils þegar verðbólgan brennir ávinninginn jafnharðan upp.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini óábyrgi stjórnmálaflokkurinn í landinu. Hann lofar útgjaldaauka upp á hundruð milljóna og frekari stóriðjuframkvæmdum í 8% verðbólgu og 14% stýrivöxtum. Hann lofar skattalækkunum á sama tíma og fyrirséð er að halli verður á ríkissjóði næstu tvö ár. Ein fjölskylda af hverjum sex á ekkert eftir í íbúðinni sinni vegna þessarar efnahagsstjórnar. Ef farið verður að uppskrift Sjálfstæðisflokksins mun óstöðugleiki verða viðvarandi og hlutfall þeirra sem ekkert eiga í íbúðarhúsnæði hækka. Við þurfum ekki óábyrga verðbólgustjórn. Við þurfum efnahagslegan stöðugleika til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.
Birt í Morgunblaðinu 7. maí 2007.