12. des 2007

Er einhliða upptaka evru fýsileg?

Í grein minni hér í síðustu viku komst ég að þeirri niðurstöðu að upptaka evru væri eina raunhæfa langtímalausnin í efnahagsstjórninni, ef ekki kæmi til úrsögn úr EES og afturhvarf til einangrunarstefnu. Hvernig er hægt að taka upp evru? Beinast liggur við að taka upp evru í kjölfar formlegrar aðildar að ESB. En er hægt að taka evru upp einhliða, án atbeina ESB?

Aðferð við einhliða upptöku annars gjaldmiðils er í sjálfu sér einföld. Ísland myndi verja gjaldeyrisvarasjóði sínum til að kaupa evrur og nota þær til að skipta út íslenskum krónum. Krónunni yrði skipt út sem reiknieiningu í bankakerfinu og öðrum greiðslukerfum og evran notuð í staðinn. Dæmi eru um að smærri Ameríkuríki hafi tekið upp dollar með þessari aðferð, en bandaríski seðlabankinn leggst ekki gegn upptöku annara ríkja á dollara sem gjaldmiðli og aðstoðar jafnvel við upptökuna.

Evrópski seðlabankinn er hins vegar beinlínis andvígur upptöku annarra ríkja á evrunni, án aðildar að efnahags- og myntbandalaginu og þar með ESB. Þeir Friðrik Már Baldursson og Richard Portes velta upp þeirri spurningu í nýlegri skýrslu sinni hvort afstaða Evrópska seðlabankans yrði sú sama varðandi upptöku Íslands á evrunni, í ljósi þess að Ísland er ekki aðildarríki ESB? Ég tel ótvírætt að svo yrði.

Fyrir það fyrsta byggir andstaða stofnana ESB við einhliða upptöku ríkja á evru bæði á efnahagslegum og pólitískum forsendum. Skilyrðin um aðild að efnahags- og myntbandalaginu eiga að tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins. Aðeins eitt af þeim 12 ríkjum sem gengið hafa í ESB frá 2004, Slóvenía, hefur náð að uppfylla þessi skilyrði og tók upp evru í byrjun þessa árs. Önnur ný aðildarríki bíða. Það er alveg ljóst að Evrópski seðlabankinn mun ekki við þessar aðstæður taka vel í að Ísland taki upp evru án aðildar að efnahags- og myntbandalaginu. Þau dæmi sem eru um upptöku evru án aðildar að ESB eru fá og alls ósambærileg við stöðu Íslands. Þar er annars vegar um að ræða evrópsk hálfríki á borð við Andorra, Mónakó, Vatíkanið og San Marínó og hins vegar Kósóvó og Svartfjallaland, sem eru vegna ótryggs öryggisástands í gjörgæslu ESB. Þar við bætist að samþykki ESB við sérmeðferð Íslandi til handa myndi hafa fordæmisgildi gagnvart öðrum EES-ríkjum og mögulega öðrum ríkjum sem ekki eru umsóknarríki, svo sem Úkraínu og Georgíu.

En getur Ísland tekið upp evru í beinni óþökk ESB? Ísland er að sönnu ekki aðildarríki að ESB en það er aðili að sameiginlegum innri markaði sambandsins og á stærstan hluta af útflutningstekjum undir útflutningi á hinn sameiginlega markað. Í 46. gr. EES er kveðið á um að samningsaðilar skuli „skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samnings þessa og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum.“ Í þessu felst skuldbinding Íslands um að upplýsa ESB um fyrirætlanir sínar í efnahags- og peningamálum. Í 3. gr. samningsins er enn fremur að finna almennt ákvæði um að samningsaðilar skuli gera allar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiða, varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samningsins verði náð og auðvelda samvinnu innan ramma samningsins.

Það er því ljóst að Ísland getur ekki tekið upp evru einhliða án þess að eiga um það samráð og skoðanaskipti við ESB. Ganga má út frá því að ESB leggist gegn því. Þar sem samráðið er skyldubundið samkvæmt EES vaknar sú spurning hvort einhliða upptaka Íslands á evru gæti kallað á formlegar gagnaðgerðir ESB, sem jafnvel geti falist í að EES-samningurinn yrði felldur úr gildi að hluta gagnvart Íslandi. Slíkt er ekki útilokað. Jafnvel þótt ekki kæmi til formlegra gagnaðgerða af hálfu ESB fer það ekki fram hjá neinum sem til þekkir að möguleikar ESB til að draga lappirnar í framkvæmd EES-samningsins og gera hann þannig óframkvæmanlegan, eru nokkurn veginn ótæmandi.

Síðan er það kostnaðurinn. Hvers vegna vilja menn sólunda gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar – tugum milljarða – til að kaupa evrur sem þeir myndu fá ókeypis með fullri aðild að ESB? Hvað bissnessvit er í því? Niðurstaða Evrópunefndarinnar frá því fyrr á árinu bendir til að kostnaður við aðild að ESB sé hóflegur og réttlæti alls ekki slíkan fórnarkostnað.

Þegar þetta er allt skoðað verður ljóst að þótt einhliða upptaka evru kunni að vera tæknilega möguleg er hún pólitískt óhugsandi og efnahagslegt glapræði. Friðrik Már og Portes hitta naglann á höfuðið þegar þeir benda á það sé tvíbent fyrir Ísland að velja sér sama gjaldeyrisfyrirkomulag og Kósóvó og Svartfjallaland. 

Efnahagslegar framfarir í landinu frá um 1990 hafa fyrst og fremst byggst á því að við höfum snúið baki við séríslenskum lausnum og skapað íslensku efnahagslífi sömu umgjörð og í samkeppnislöndum okkar. Friðrik Már og Portes benda á að enn eru fyrir hendi séríslenskar reglur og viðskiptahættir sem valda áhættuálagi á fjármögnun íslenskra fyrirtækja á alþjóðamarkaði. Verkefni íslenskra stjórnmálamanna á sviði efnahagsmála er að reyna að draga úr þessum séríslensku furðufyrirbærum, en ekki að reyna að búa til nýjar sérlausnir sem eiga sér hvergi hliðstæðu nema í bláfátækum ríkjum á barmi borgarastyrjaldar.

Með nokkurri einföldun má líkja aðstöðu íslenskra fyrirtækja og heimila við að keppa í hundraðmetrahlaupi á gúmmískóm. Við getum annað hvort keypt okkur almennilega skó – eða keypt teiknibólur til að líma undir gúmmískóna. Um brýnustu verkefnin framundan mun ég fjalla í næstu grein. 

Birt í Viðskiptablaðinu 13. desember 2007.