24. jan 2013

Evrópumálið þarf nýja forystu

Nú eru liðin ríflega tíu ár frá því að Samfylkingin gaf út metnaðarfullt rit margra höfunda um Evrópumál, skipulagði fundahöld og samræðu um landið allt og loks allsherjaratkvæðagreiðslu til að ákvarða stefnu flokksins í Evrópumálum. Síðan þá hefur Samfylkingin ein flokka í landinu staðið heilsteypt að baki þeirri sýn að Ísland skuli tryggja hagsmuni sína með virkri þátttöku í Evrópusamstarfi og leysa gjaldmiðilsvanda sinn með upptöku evru.

Tafir samstarfsflokksins
Þegar þetta er skrifað er ljóst að þetta höfuðverkefni Samfylkingar og lykilhagsmunamál landsins verður að fá nýjan kraft til að knýja fram nýja pólitíska stöðu. Stuðningsfólki Samfylkingarinnar brá í brún að morgni mánudags þegar ríkisstjórn Íslands birti yfirlýsingu um að Ísland ætlaði að hægja á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hvernig er það hægt? spurðum við mörg enda ljóst að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hefur tafið málið og spillt með ljósum og leyndum hætti á kjörtímabilinu. Og nú þetta. Samt nægir aldrei að benda á aðra heldur verðum við að taka okkur sjálf saman í Evrópuandliti flokksins. Þess vegna er það svo mikilvægt hver veitir flokknum og þar með Evrópumálinu forystu á komandi misserum. Samfylkingin verður að kjósa sér leiðtoga sem hefur burði til að veita Evrópumálinu þá forystu sem það þarf nauðsynlega á að halda nú.

Enginn flokkur má skila auðu
Ísland á enga þjóðarhagsmuni stærri en fulla þátttöku í innri markaði Evrópu þangað sem nær 80 prósent útflutningsviðskipta okkar fara. Staða okkar á innri markaðnum er í uppnámi vegna hafta, vegna breytinga á EES-samstarfinu og vegna þess að við höfum ekki enn ákveðið hvernig fjármálakerfi né tengingar við umheiminn við viljum. Þessar ákvarðanir þola enga bið. Hver svo sem verður forsætisráðherra á Íslandi næsta sumar kemst ekki hjá því að taka þær. Þess vegna getur enginn stjórnmálaflokkur skilað auðu.

Krónuhagkerfið búið
Það er löngu tímabært að Samfylkingin snúi vörn í sókn í baráttu fyrir aðildarferlinu hér heima og samningsstöðu Íslands á erlendri grundu. Allir Íslendingar eru sammála um að krónuhagkerfið, með sínum verðtryggðu skuldum og stöðuga óstöðugleika, veitir enga lausn, en færri virðast enn skilja hina einu rökréttu leið út úr ógöngunum. Ný staða evrusvæðisins og nýtt bankasamband Evrópu breytir stöðu Íslands. ESB hefur gengið í gegnum mikla kreppu eins og Ísland en nú efast enginn lengur um að Evrusvæðið lifi og styrkist með nýjum hætti. Í mótun er nýr veruleiki samstarfs Evrópuþjóða rétt eins og var 1989 þegar EES var ýtt úr vör og gaf Íslandi tækifæri sem landinu auðnaðist að nýta.

Úr vörn í sókn
Nú þarf sóknarstefnu, þekkinguna og útsjónarsemi til að grípa tækifærin í þróun og deiglu Evrópu og tryggja bestu mögulegu stöðu Íslands. Samfylkingunni tókst að tryggja að Ísland fór í samstarf við AGS  þrátt fyrir stálharða andstöðu sem kom í senn yst frá hægri og yst frá vinstri og lauk því til meiri farsældar fyrir landið en flestir þorðu að vona. Evróputengslin nú – innri markaðurinn, full aðild, upptaka Evru, bankasamband og gjörbreytt EES er sams konar áskorun sem við verðum að taka og leiða til farsælla lykta.

Árni Páll þekkir alþjóða- og efnahagsmál
Og til þess þurfum við nýjan formann með burði til að leiða bæði alþjóðamál og heimamál. Árni Páll Árnason er slíkt formannsefni. Hann bar sem ráðherra ábyrgð á samskiptunum við AGS og hefur flestum öðrum fremur lagt sig fram um að greina efnahagslega og alþjóðapólitíska stöðu Íslands og efnt til opinnar umræðu þar um með greinaskrifum.
Samfylkingin getur valið mann sem gjörþekkir Evróputengsl Íslands, samningaviðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið og þá orrahríð sem þá gekk yfir íslensk stjórnmál. Þegar Samfylkingin efndi til atkvæðagreiðslunnar 2002 var hann einn höfunda skýrslunnar sem lagði grundvöllinn að umræðunni og sáttinni í flokknum. Árni Páll hefur langa reynslu af samstarfi á alþjóðavettvangi, af samningum við erlend ríki og starfi innan alþjóðastofnana eftir margvísleg störf fyrir íslensku utanríkisþjónustuna.

Sem efnahagsráðherra hafði Árni Páll frumkvæði að því að fá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til formlegs samstarfs og ráðgjafar um afnám hafta. Honum tókst líka að sameina öll lið af Icesave-vígvellinum innanlands í samstillta og sterka málsvörn fyrir Íslands hönd í dómsmálinu gagnvart EFTA.

Framundan er bæði sókn og vörn fyrir mikilvægasta hagsmunamál Íslands. Við veljum Árna Pál til formanns vegna Evrópumálsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrv. þingmaður og ráðherra