24. jan 2013

Formann sem leiðir íslenska þjóð undan ónýtri mynt

Allir flokksmenn Samfylkingarinnar fá það tækifæri að kjósa formann á næstu dögum.  Kjörkatlar nýaldar eru rafrænir og við höfum tíu daga til að velja. En sá á kvölina sem á völina. Því lái ég það engum sem velkist í vafa um að velja með einum músarsmelli á  milli þeirra tveggja frábæru frambjóðenda sem í boði eru til að leiða Samfylkinguna næstu fjögur árin. Samfylkingin sýnir hér og sannar enn og aftur þá lýðræðislegu yfirburði sem hún hefur umfram aðra flokka. Allir flokksmenn fá að kjósa sinn leiðtoga á eins auðveldan hátt og hægt þ.e. í gegnum tölvuna heima hjá sér. Hér birtast á borði en ekki aðeins í orði grunngildin um lýðræði og jöfn tækifæri.

Nýr gjaldmiðill – stærsta hagsmunamál þjóðarinnar
Ég tók þá ákvörðun að kjósa formann sem ég hef trú á að leysi eitt af stærstu verkefnum íslensk samfélags. Stöðugleiki í efnahagsmálum landsins og nýr gjaldmiðill eru brýnustu verkefnin sem liggja á borði stjórnmálamanna í dag. Ég fyrir mitt leyti hef séð ljósið og veit að íslenskri flotgengiskrónu fylgja stór mein sem verða aldrei leyst – heldur aðeins plástruð. Má þar nefna fjármagnskostnað almennings við lántöku sem birtist í háum óverðtryggðum vöxtum og verðtryggingu neytendalána sem veldur vöxtum ofan á samningsvexti lánsins. Þá er fjármagnskostnaður fyrirtækja sem skipta í ónýtri krónu gríðarlega hár eða ríflega 10% sem skilar sér aftur út í verðlagið og við sem neytendur borgum að endingu fyrir. Loks er ónefnd gengisfelling krónunnar sem hefur valdið gríðarlegri kaupmáttarskerðingu sem við almenningur í landinu borgum fyrir á hverjum degi, beint í vasa útflutningsfyrirtækja sem hagnast á auðlindum þjóðarinnar. Krónan er eins og undirstaða trésins, rótin sjálf, sem allt hagkerfið byggir á og verðtrygging lána birtist sem ein af greinum þess – sprottin af rótinni. Raunhæf lausn á gjaldmiðilsvanda þjóðarinnar er stærsta hagsmunamál Íslendinga.

Formaður sem hlustar
Ég kýs Árna Pál vegna þess að ég hef trú á því að hann geti ráðist í þann vanda sem krónan er og veitt því verkefni pólitíska forystu. Hann er áræðinn, býr yfir þekkingu og hæfni í efnahags- og utanríkismálum sem er afar dýrmætt. Þess vegna treysti ég honum til að taka slaginn við hagsmunaaðila íslenskrar krónu. Hann hefur sjálfsöryggi, bæði til að hlusta og leita bestu sérfræðiþekkingar, en líka til að taka ákvörðun þegar það þarf og standa fast á henni. Ég treysti Árna Pál til að leiða íslensku þjóðina í ljósið.

Árni Páll mun leiða breiðfylkingu jafnaðarmanna
Árni Páll heldur fast í hugsjónina um Samfylkinguna sem breiðfylkingu jafnaðarmanna. Það er mín bjargfasta trú að í því felst styrkur okkar. Við fáum ætíð bestu útkomuna ef við leiðum mörg sjónarmið saman og mætum öðrum skoðunum fordæmalaust, en höfum jafnframt þekkinguna til að greina hismið frá kjarnanum.
Loks treysti ég Árna Páli til að leiða áfram það verk sem hafið er, að byggja samfélag á grunngildum jafnaðarmennskunnar – að Íslendingar búi við sterkt velferðarkerfi, jöfn tækifæri til menntunar og byrðum sé jafnt dreift í gegnum skatt- og almannatryggingakerfið. Árni Páll skilur ennfremur að til þess að við getum byggt slíkt samfélag þurfum við öflugt atvinnulíf, til að stuðla að verðmætasköpun svo við eigum fyrir velferðinni og getum boðið vinnandi höndum fjölbreytt atvinnutækifæri. Í því verkefni þarf að byggja brýr og snúa bökum saman.

Þar er Árni Páll rétti maðurinn til verksins.

Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur