27. apr 2007

Frjálshyggjuliðið stígur fram

Sigurður Kári Kristjánsson skrifar grein hér í blaðið sl. mánudag og lýsir þar sérkennilegri könnun Capacent Gallup á viðhorfi fólks til skattamála sem rothöggi á meinta „skattastefnu“ vinstri flokkanna. Klappstýrur kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins á ritstjórn Morgunblaðsins höfðu í forystugrein á laugardag og í Reykjavíkurbréfi á sunnudag einnig dregið víðtækar ályktanir af þessari könnun, án nokkurra skynsamlegra forsendna.

Könnun Capacent segir nefnilega nokkurn veginn ekki neitt. Hún sýndi að 74% þjóðarinnar taldi tekjuskatt of háan. Það segir í sjálfu sér ekkert – ætli okkur finnist ekki öllum óþarfi að borga meira en við nauðsynlega þurfum í skatt. Á hinn bóginn vill mikill meiri hluti þjóðarinnar betri velferðarþjónustu. Faglega boðleg skoðanakönnun hefði því spurt annarar spurningar í kjölfarið, sem er sú hvort afstaða fólks væri önnur ef ljóst væri að lægri skattur hefði í för með sér lakari velferðarþjónustu.

Helsta afrek Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum undanfarin kjörtímabil felst í víðtækri biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar. Bið eftir hjartaþræðingu er hálft ár, lengri eftir heyrnartækjum og liðskiptaaðgerðum, eitt og hálft ár eftir plássi á BUGL. Engu að síður er helsta markmið heittrúarmanna í Sjálfstæðisflokknum að bæta enn í þegar loforð um skattalækkanir eru annars vegar.

Staðreynd málsins er sú að bætt staða ríkissjóðs undanfarin ár stafar fyrst og fremst af auknum skatttekjum vegna ofþenslunnar, en ekki af hagræðingaraðgerðum eða aðhaldi í ríkisútgjöldum. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa ýtt undir verðbólgu og grafið undan tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Þess vegna er spáð halla á ríkissjóði strax á næsta ári – beint í kjölfar mesta uppgripaskeiðs Íslandssögunnar. Sú staðreynd er óbrotgjarn minnisvarði um efnahagsklúður Sjálfstæðisflokksins.

Frjálshyggjumódel Sjálfstæðisflokksins er einfalt: Endalaus ofþensla og eignasala til að fjármagna skattalækkanir. Þessi efnahagsstefna hefur verið reynd áður – í tíð Reagans og Thatchers. Árangursleysi hennar hefur verið staðfest með eftirminnilegum hætti í stjórnartíð Clintons og Blairs. Það kom í hlut jafnaðarmanna að endurreisa velferðarkerfið í Bretlandi eftir að ofsatrúarmenn skattalækkana höfðu unnið á því óbætanlegan skaða. Spurningin er hversu lengi íslenskir kjósendur ætla að láta innlenda trúbræður þeirra leika lausum hala.

Birt í Morgunblaðinu 27. apríl 2007.