24. jan 2013

Gengistryggð laun á ný?

Við vitum öll hvert tjón verðtryggð lán valda okkur. Vandinn við verðtrygginguna er bara einn: Lán eru verðtryggð en laun ekki. Það er nefnilega ekki þannig að lánin hækki: Þau halda verðgildi, en krónan er þynnt út og launin okkar rýrð. Lánin eru ekki að hækka, heldur launin að lækka. Þetta finnst flestum stjórnmálaflokkum á Íslandi mjög sniðugt.

Skuldum í krónum en fáum borgað í ótryggðum krónum
Vegna gríðarlegs veikleika íslensku krónunnar vill enginn lána í íslenskum krónum til langs tíma nema með tryggingu. Gengistrygging var prófuð hér síðustu ár og hefur verið dæmd ólögmæt. En verðtrygging er ekkert annað en óbein gengistrygging. Innlent verðlag ræðst að langmestu leyti af gengi krónunnar, því við flytjum inn allar helstu neysluvörur. Vandi okkar felst í því einu að við skuldum í hálfgengistryggðum krónum en fáum borgað í ótryggðum krónum.

Mannréttindi að fá greitt í peningum
Fyrir rúmum hundrað árum var samþykkt á Alþingi frumvarp Skúla Thoroddsen, þingmanns Ísfirðinga, um greiðslu verkkaups í gjaldgengum peningum. Fram til þess tíma höfðu lausamenn í kaupstöðum fengið greitt í inneignarnótum frá kaupmönnum, en ekki í peningum. Kaupmennirnir réðu því frá degi til dags hversu mikið var hægt var að fá fyrir inneignarnóturnar og höfðu margfalt verð: Algengt var að það magn sem kostaði 20 aura með peningum kostaði 25-30 aura með inneignarnótu.

Hörmungarsaga hefst
Samþykkt laganna frá 1901 hefur allt til þessa dags verið talin til stærstu sigra íslenskrar verkalýðshreyfingar. Færri hafa hins vegar hnotið um þá staðreynd að hér var um skammgóðan vermi að ræða. Íslenska krónan árið 1901 var nefnilega gjaldgengur gjaldmiðill. Henni var að hægt að skipta á jafngildi við danska krónu eða sænska eða fyrir andvirði hvorrar myntar um sig í gulli. Íslenskir framleiðendur og atvinnurekendur þurftu því að verða sér úti um alvöru gjaldmiðil til að standa skil á launum. Við vorum hluti af heimshagkerfinu. Árið 1920 breyttist þetta. Það ár var íslenska krónan aftengd þeirri dönsku og tekin af gullfæti. Þar með hófst sú hörmungarsaga heimatilbúinna efnahagssveiflna, hafta og gengisfellinga sem staðið hefur sleitulítið fram á þennan dag og leitt hefur til þess að íslenska krónan hefur rýrnað um 99,95% gagnvart þeirri dönsku á þessum tíma.

Krónan líkt og inneignarnótur fortíðar
Allt frá 1920 höfum við því verið í sömu stöðu og íslenskur verkalýður var fram til 1901. Við höfum ekki fengið greitt í gjaldgengum peningum, heldur í peningum sem eru líkari inneignarnótum fyrri tíma. Peningum sem eru rýrðir að verðgildi eftir því sem innlendum framleiðendum hefur þóknast, eða viðskiptakjör á erlendum mörkuðum hafa kallað eftir. Ákvörðun um kaupgjald hefur í reynd verið flutt til þeirra sem stjórna landinu og vina þeirra. Í krónuhagkerfinu er ekki samið í reynd um laun heldur um uppbætur. Raunverulegar launaákvarðanir eru teknar með breytingum á gengisskráningu.

Hentar hvorki launafólki né fyrirtækjum
Þessi efnahagsumgjörð hentar ekki launafólki. Hún hentar ekki heldur samkeppnisgreinum sem byggja á hugviti og keppa um markaði við fyrirtæki í öðrum löndum, þar sem rekstrarforsendur eru stöðugar og framtíðin ljós. Einu atvinnugreinarnar sem hingað til hafa þolað þetta umhverfi eru greinar sem njóta ókeypis aðgangs að aðstöðu eða auðlindum, sem geta niðurgreitt kostnaðinn af óstöðugum gjaldmiðli. En þau líða líka fyrir óstöðugleika og ofurvexti.

Að fá greitt í gjaldgengum peningum
Stærsta hagsmunamál íslensks launafólks og verðmætaskapandi fyrirtækja er nú að koma okkur aftur á þann stað sem við þó komumst á 1901: Að fá greitt í gjaldgengum peningum með raunverulegt virði. Við getum ekki skuldað og borið kostnað af rekstri heimilis í einum gjaldmiðli en fengið borgað í inneignarnótum. Afturförin er svo augljós: Meira að segja í árdaga verkalýðshreyfingar, þegar verkföll voru bönnuð og verkalýðsfélög ekki með samningsrétt skulduðum við þó og fengum laun í sama gengistryggða gjaldmiðlinum.

Gjaldgengur gjaldmiðill – eða ekki
Í engu öðru þróuðu ríki býr launafólk og verðmætaskapandi fyrirtæki við sambærilegt ofríki. Þess vegna snýst spurningin um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru um svo allt annað og meira hér á landi en í nokkru nágrannalandanna. Þau búa við gjaldgengan gjaldmiðil en við ekki. Þar er valið milli tveggja kosta sem báðir hafa kost og löst. Hér er valið um gjaldgengan gjaldmiðil – eða ekki.

Drápsklyfjar krónu
Alþjóðleg samkeppni með krónu er eins og að hlaupa 100 metra hlaup á Ólympíuleikum á vaðstígvélum með 20 kílóa lóð á bakinu. Þess vegna flýja fyrirtækin þetta góða land og fólkið ferðbýr sig. Það er sannkallað kraftaverk hverju íslensk þjóð og samkeppnishæf fyrirtæki hafa áorkað með þessar drápsklyfjar síðustu tæp 100 árin. Hugsið ykkur hvað við gætum, ef þessari byrði væri létt af okkur og við nytum sama öryggis og réttlætis og frjálsborið fólk í öðrum Evrópulöndum?

Árni Páll Árnason