10. apr 2007

Hagstjórnarklúður Geirs og Davíðs

Skynsamleg hagstjórn felst í að ríkisstjórn hagi efnahagsstefnu í samræmi við þróun hagsveiflunnar. Ríkið á að halda að sér höndum á uppgangstímum, til að auka ekki á verðbólguþrýsting og leitast við að draga úr opinberum framkvæmdum sem geta beðið. Á samdráttartímum skiptir með sama hætti miklu að ríkið hrindi í framkvæmd arðbærum verklegum framkvæmdum og hlutist til um kerfisbreytingar sem örvað geti hagkerfið. Þetta er grunnur hins blandaða hagkerfis sem jafnaðarmenn hafa þróað á Vesturlöndum á undanförnum áratugum. Þessi hugmyndafræði lá að baki þjóðarsáttinni á sínum tíma og var fylgt hér á landi allt fram á síðustu ár.
Undanfarna áratugi hefur verið samstaða meðal helstu stjórnmálaafla hér á landi um að stöðugleiki í efnahagsstjórn væri mikilvægasta markmiðið. Núverandi ríkisstjórn hefur horfið frá þeirri stefnumörkun. Það er þeim mun alvarlegra þegar haft er í huga að sú stefnubreyting verður á sama tíma og mjög reynir á í efnahagsstjórninni í kjölfar aukinnar alþjóðavæðingar íslensks atvinnulífs og óheftra fjármagnsflutninga.

Óvitar með eldfæri
Ríkisstjórnin hefur sýnt fádæma lausatök í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Allir vissu í upphafi kjörtímabilsins að fyrir dyrum væru stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar og því myndi reyna mjög á agaða stjórn á ríkisfjármálum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kynt undir þenslu með stórfelldri aukningu ríkisútgjalda og skattalækkunum, sem engin innistæða er fyrir. Að því leyti hafa Geir Haarde og Davíð Oddsson minnt á óvita með eldspýtur og bensínbrúsa.
Ríkisstjórnin hefur heykst á því að leggja í sjóð til seinni tíma. Við sölu Landssímans gafst ríkinu einstakt tækifæri til að draga úr þenslu með því að taka það fé úr umferð, til dæmis með því að nýta féð til að greiða inn á skuld ríkisins vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga. Það var ekki gert. Þvert á móti var lofað eyðsluveislu með fyrirheiti um framlög í ýmis misarðbær og misskynsamleg verkefni.

Kjaraskerðing er afleiðingin
Lausatök ríkisstjórnarinnar á efnahagsmálunum hafa verið mikið áhyggjuefni öllum þeim sem vit hafa á og fylgst hafa með. Sérfræðingar OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ítrekað gert athugasemdir við þessi lausatök árum sama. Sérfræðingar innlendra greiningardeilda hafa tekið í sama streng. Aðilar vinnumarkaðarins tóku fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar með endurnýjun kjarasamninga í upphafi síðasta árs og komu þannig í veg fyrir verðbólgubál – að sinni að minnsta kosti. Nú síðast lækkaði matsfyrirtækið Fitch lánshæfismat íslenska ríkisins og vísaði í niðurstöðu sinni til skorts á trúverðugleika í hagstjórn ríkisins.
Almenningur fær að finna fyrir afleiðingum þessara mistaka með rýrnandi kaupmætti vegna hækkandi verðtryggðra skulda og hækkandi íbúðaverðs. Einstöku góðæri hefur verið sólundað með agaleysi í efnahagsstjórn. Eftir standa heimilin skuldsettari en nokkru sinni fyrr og atvinnulíf í fjötrum ofurvaxta. Við eigum betra skilið.

Birt í DV 10. apríl 2007.