20. jan 2008

Heimildin þarf að vera rúm

Spurt er hvort rýmka beri heimildir fyrirtækja til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli

Þegar ákvæði voru sett í lög um ársreikninga árið 2002 sem heimiluðu fyrirtækjum að sækja um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli var markmiðið að rýmka og bæta starfsskilyrði fyrirtækja. Ætlun löggjafans var að ívilna með þessum hætti fyrirtækjum sem hefðu drýgstan hluta starfsemi sinnar í erlendum gjaldmiðli og hefðu meira tjón en ávinning af uppgjöri í íslensku krónunni.

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um synjun Ársreikningaskrár á erindum Landic Property og Kaupþings um heimild til uppgjörs í evru. Það sem einkennir báðar þessar umsóknir er að íslenska krónan er léttvæg í rekstri fyrirtækjanna beggja og vegur innan við 30%. Evran er hins vegar ekki sá gjaldmiðill sem vegur þyngst af erlendum gjaldmiðlum í rekstri félaganna og því leiðir túlkun laganna til þess að danskar eða sænskar krónur séu nærtækari kostur. Báðir eru þeir gjaldmiðlar hins vegar nátengdir evru og því eðlilegast út frá viðskiptaforsendum að fyrirtækin sækist eftir uppgjöri í sterkasta gjaldmiðlinum, enda ætla þau sér sókn á Evrópumarkaði.

Þessi bókstafsskýring kann að eiga stoð í lagatextanum en á sér enga stoð í raunveruleikanum og vinnur gegn markmiði laganna. Svíar eru skuldbundnir sem aðilar að ESB til að taka upp evru og því tjaldað til einnar nætur ef íslenskum fyrirtækjum er vísað í það geitarhús að leita ullar. Túlkun stjórnvalda tekur á sig mynd fáránleikans þegar því er haldið fram að danska krónan og evran séu tveir aðskildir gjaldmiðlar. Danska krónan er fasttengd evrunni með formlegu samkomulagi og það er því hrein hundalógík að túlka hlutdeild í evrum og dönskum krónum sem hlutdeild í tveimur ólíkum gjaldmiðlum.

Niðurstaða Ársreikningaskrár skapar óeðlilegan og ástæðulausan aðstöðumun milli þeirra fyrirtækja sem eiga viðskipti á einu gjaldmiðilssvæði , svo sem á evrusvæðinu eða í Bandaríkjunum, í samanburði við fyrirtæki sem starfa á neytendamarkaði í mörgum löndum Norður-Evrópu. Það er líka fáránlegt ef fyrirtækin þurfa að halda áfram að gera upp í krónum, sem vegur rétt um fjórðung í rekstri hvors um sig.

Við eigum auðvitað áfram að skilyrða heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðli því að fyrirtæki eigi höfuðstarfsemi sína utanlands. Við eigum hins vegar ekki að mismuna fyrirtækjum eftir því hvar í útlöndum þau stunda starfsemi og beita útúrsnúningum til að þvinga íslensk fyrirtæki til að nota krónuna. Ef stjórnvöld telja sig ekki geta veitt fyrirtækjum sem sannanlega hafa drýgstan hluta starfsemi sinnar erlendis eðlilegt svigrúm á grundvelli gildandi laga, þarf einfaldlega að skýra lagatextann til að skapa íslenskum fyrirtækjum eðlilegt starfsumhverfi.

Birt í Fréttablaðinu, 20. janúar 2008.