24. jan 2013

Hvað langar þig?

Það er hægt að byggja réttlátt þjóðfélag. Trúðu mér. Taktu þátt í því. Þá gerist það. Þannig gerist það. Komum og ræðum um framtíðina. Hverskonar þjóðfélagi langar okkur að búa í? Hvað getum við gert til að geta búið okkur slíkt þjóðfélag? Það eru margar leiðir til, sumar einfaldar, aðrar býsna flóknar, svo nokkrar sem virka ekki og enn aðrar sem við viljum ekki fara af því þær leiða ekki til réttláts þjóðfélags. Um þær allar skulum við ræða, en alltaf og inn á milli, til að minna okkur á af hverju við séum að ræða um þær, af hverju við séum að þessu: Hverskonar þjóðfélag viljum við!

Þorum að vona. Þorum að eiga okkur draumsýnir. Jú, jú, við þurfum raunhæfar aðferðir til að ná árangri. En, við þurfum ekki endilega að einskorða draumsýnir okkar við það sem við sjáum að við getum raunverulega fengið. Markmiðið er ekki að ná fullkomnun, markmiðið er að taka þátt í ferðinni í átt að fullkomnun. Ánægjan er að upplifa breytingarnar til hins betra. Ævintýrið er að glíma við öll viðfangsefnin sem á leið okkar verða. Áskorunin er að læra og reyna, mistakast, villast, snúa við, biðjast fyrirgefningar, standa upp aftur, fara framúr á ný. Af hverju? Af því við viljum réttlátt þjóðfélag og ætlum og skulum ná því.

Af með gasgrímurnar
„Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna,“ söng Björn Jörundur, á hittingi stuðningsfólks Árna Páls um daginn. Bætti því við að þetta væri of þunglyndislegt lag hjá svona baráttuglöðu fólki. En ég hugsaði: „Og þó?“ Voru þeir Árni Páll og Hallgrímur Helgason ekki einmitt að ljúka við að tala saman um einhverja köfnunartilfinningu sem fólk finnur til í pólitískri umræðu á Íslandi? Hallgrímur talaði um það hvernig fólki er skipað niður í skotgrafir hér og þar, skilur ekkert af hverju það lenti þar, langar ekki að vera þar, en þorir ekki uppúr þeim. Árni Páll talaði um að fólki yrði ómótt þegar póltík bæri á góma, en þegar því væri svo boðið upp á málefnalega og upplýsandi umræðu um pólitík, væri það eins og að hella vatni á þurrt torf sem drekkur endalaust í sig.

Hallgrímur skrifaði um Valdfrekjumeðvirkni á DV og Árni Páll skrifaði honum sendibréf á heimasíðu sinni af því tilefni um Bláa og rauða boxhanska og bauð upp á leiðarvísi upp úr þriðju skotgröf til vinstri. Þennan samræðuþráð röktu þeir félagar upp, í þessum góðra vina hópi, skiptust á skoðunum og prjónuðu úr honum nýjan leista: “Hjálpum okkur upp og hættum við að kafna!” Skiljum Sjálfstæðisflokkinn eftir í reyknum af reykbombum sínum. Skiljum Framsóknarflokkinn eftir í fnyknum af fýlubombum sínum. Förum upp úr skotgröfunum, vöðum út úr forinni, skiljum gaddavírinn eftir. Þetta er ekki sá vígvöllur sem við viljum berjast á, ekki sá vígvöllur sem er þess virði að fórna sér á.

Skoðum og þorum
Lærdómur er alltaf og aðeins dreginn af reynslu. Allt annað eru kenningar, sem eiga eftir að prófast í reynslu. Við þurfum að vera bæði námsfús og gagnrýnin til að læra af reynslu og óhrædd við að prófa okkur áfram með nýjar kenningar. Kenningarnar verða nefnilega ekki til úr engu, heldur sem hugmyndir eftir fengna reynslu. Þess vegna er nauðsynlegt að fá í forystusveit stjórnmálanna fólk sem hefur bæði sýnt tilraunir til að stúdera reynsluna og sett fram tillögur að leiðum og sem hefur opinn hug og vilja til að kalla eftir reynslu og hugmyndum annarra. Það er einmitt þetta sem mér finnst heillandi við að fá Árna Pál til forustu í Samfylkingunni, það að hann hefur lagst í einhverja stúderingu á reynslunni og lagt sig fram um að leiða út framtíðarsýn. Fögnum þeim sem segir „ég vil“ og „mér finnst“, því hann hefur þó fjandakornið eitthvað til málanna að leggja.

Sumir verða því miður foj út í Árna Pál fyrir að hann sé að gagnrýna hina í Samfylkingunni. Mér finnst hann vera að gagnrýna okkur, sig meðtalinn, mig meðtalda og við þurfum gagnrýni og sjálfsgagnrýni til að þróast áfram. Það er margt sem Samfylkingin sem stjórnmálaafl þarf að breyta og bæta í starfsháttum sínum. Þá breytingu framkvæmir enginn einn, ekki einu sinni þótt hann verði formaður. Við sem heild verðum að taka okkur á til að af breytingum verði. Þolum gagnrýni og þorum að treysta þeim sem gagnrýna, þeir eru bandamenn okkar.

Við þurfum, verðum og skulum, leggja okkur fram um að læra af reynslu og setja fram sýn og leiðsögn til framtíðar. Þetta á við á öllum sviðum, eigin innviðum svo sem starfsháttum og framkomu og í stjórnmálastefnu. Hvað höfum við lært, hvert viljum við stefna og hvernig viljum við vinna, í efnahagsmálum, í velferðarmálum, í utanríkismálum, í atvinnumálum, í umhverfismálum, í lýðræðismálum, í starfsháttum?

Bjóðum og þiggjum
Stjórnmál eru sameign samfélagsins, en allt of oft er farið með þau eins og þau séu einkamál einhverra, einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Lokaður hópur, „við“, gjarnan á forminu stjórnmálaflokkur, kemur sér saman um stefnu og „á“ hana síðan. Aðrir mega lýsa velþóknun sinni á stefnunni „okkar“ og kjósa frambjóðendur „okkar“. Til að „þið“ megið hafa áhrif á stefnu „okkar“ þá megið „þið“ verða hluti af „okkur“ með því að samþykkja þá stefnuskrá sem „við“ höfum samþykkt áður. (Svo getið „þið“ líka þusað eitthvað í návist „okkar“ í von um að „við“ hlustum á „ykkur“). Samt erum „við“ í öllu þessu stjórnmálastússi af óeigingirni til að vinna fyrir „ykkur“!

Ég er í Samfylkingunni af því ég vil taka þátt í hreyfingu (ekki bara flokki, heldur hreyfingu í andstæðri merkingu við kyrrstöðu) jafnaðarmanna sem vilja og ætla að breyta þjóðfélagi okkar í átt til aukins jöfnuðar, meira frelsis og betri samhygðar. Til þess að okkur megi takast þetta þurfum við öflugt stjórnmálaafl, án þess afls tekst þetta ekki. Afl þess felst ekki eingöngu í stærð þess sjálfs heldur í breidd þess, að það nái yfir breitt svið í skoðunum og fjölbreytni í þjóðfélagsstöðu liðsmanna sinna. Breidd þess ræðst ekki aðeins af innbyrðis breidd þess, heldur líka af hæfileika þess til að ná til nærlægra hreyfinga og mynda þannig með samtakamætti það hreyfiafl sem hefur bæði nægan kraft og nægan hljómgrunn til að geta hreyft heilt samfélag í samvinnu.

Leyfum okkur að koma til fólks
Sú stjórnmálahreyfing sem ætlar að leiða heila þjóð, þarf að geta samfylkt allnokkrum meirihluta þjóðarinnar að baki sér. Til þess þarf hún sjálf að búa yfir víðsýni og miklum vilja til þess að hlusta á, skilja og vinna með fjölda fólks með mismunandi þjóðfélagsstöðu og mismunandi þjóðfélagssýn, finna sameiginlega strenginn, virða það hvað fólk langar til. Samfylkingin þarf að bjóða fólki raunverulega að koma með sínar eigin hugmyndir, langanir og þarfir, en ekki bara til að sitja við fótskör okkar. Samfylkingin þarf að þiggja það sem fjöldi fólks hefur fram að færa, í skoðunum, tillögum, draumum og gagnrýni.

Förum upp úr skotgröfunum og tökum af okkur boxhanskana. Hættum að berja á andstæðingunum og förum að faðma samferðafólkið. Hættum að biðja fólk um að koma til okkar og komum til fólks. Hættum að biðja fólk um að styðja okkur og bjóðumst til að styðja fólk. Þiggjum það sem fjöldinn hefur fram að færa, aðeins þannig getum við orðið fjöldanum að liði við að láta drauma sína rætast. Lang flest fólk vill nefnilega það sama og við, frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Soffía Sigurðardóttir