02. maí 2007

Illugi í glerhúsinu

Illugi Gunnarsson skrifar skrýtna grein hér í blaðið á sunnudag og gerir Samfylkingunni upp tvíátta afstöðu til efnahagsmála. Ástæðan er sú að Jón Sigurðsson, fyrrum ráðherra, bendir í nýútkominni skýrslu á tvo lykilþætti sem hafa þarf í huga í efnahagsmálum eftir efnahagsklúður Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar er brýn þörf á aðhaldi í ríkisútgjöldum. Ástæða þess er sú að Sjálfstæðisflokkurinn er valdabandalag sérhagsmunahópa og ófær um að forgangsraða í ríkisrekstri á grundvelli almannahagsmuna. Hins vegar er brýn þörf á verulegu átaki í uppbyggingu velferðarþjónustu eftir víðtæka biðlistavæðingu og vanrækslu.

Í þessu felst engin þversögn. Samfylkingin hefur sagt skýrt að hún stefni ekki að því að hækka skatta heldur breyta forgangsröðun og hefja fjárfestingu í uppbyggingu grunngerðar samfélagsins eftir því sem svigrúm er til innan núverandi tekjuramma. Ummæli Jóns og áherslur eru því í fullu innbyrðis samræmi. Samfylkingin horfist í augu við staðreyndir og er tilbúin að takast á við uppbyggingu velferðarþjónustunnar, innan þess þrönga ramma sem hagstjórnarklúður íhaldsins hefur skapað.

Illugi gleymir hins vegar að geta þess að Sjálfstæðisflokkurinn er eini óábyrgi stjórnarandstöðuflokkurinn fyrir þessar kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hleypur frá eigin verkum og lofar nú að bæta úr vanrækslusyndum sem hann ber sjálfur ábyrgð á. Loforðaflóð íhaldsins er metið á allt að 400 milljarða. Í sólskinsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir hallarekstri á ríkissjóði næstu tvö ár. Sjálfstæðisflokkurinn lofar þó skattalækkunum til viðbótar við loforðasukkið. Ég hef spurt Illuga um það hvernig þessi hagstjórn eigi að ganga upp, en engin svör fengið. Flest bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn ætli áfram að vega að grunni velferðarkerfisins með innistæðulausum skattalækkunum og lengja biðlista í hinu sovéska velferðarskömmtunarkerfi, sem flokknum virðist svo kært.

Er ekki best að byrja á að taka til í eigin ranni áður en menn fara að segja öðrum til með hofmóðugum hætti?

Birt í Fréttablaðinu 2. maí 2007.