27. jan 2013

Kröftugur með framtíðarsýn

Í hönd fara spennandi tímar og krefjandi. Kosningar framundan og mikið rót er í samfélaginu. Þá er nauðsynlegt að í formannssæti Samfylkingarinnar sé einstaklingur sem hefur þá útgeislun og þann kraft sem getur laðað fólk að flokknum, áherslum hans og framtíðarsýn. Ég sé Árna Pál Árnason fyrir mér sem þennan einstakling og þess vegna styð ég hann í þeim formannskosningum sem nú standa yfir.

Slagkraftur Samfylkingarinnar
Eftir fimm ára ríkisstjórnarsetu á erfiðustu tímum sem þjóðin hefur lifað, á Samfylkingin undir högg að sækja. Framundan eru því átök, sem ég treysti Árna Páli best til að leiða flokkinn í gegnum. Öll viljum við byggja upp öflugt velferðarkerfi á Íslandi. Verða að fullu hluti af því sem kallað er norrænt velferðarkerfi. Við eigum þegar gott menntakerfi, gott heilbrigðiskerfi, hlúum vel að þeim sem minna mega sín og eiga í félagslegum erfiðleikum. En í öllum þessum greinum er þrátt fyrir það við erfiðleika að etja vegna ríkjandi ástands í kjölfar hrunsins. Aðeins Samfylkingin hefur það afl sem þarf til að koma ekki aðeins í veg fyrir að þetta kerfi verði eyðilagt í kjölfar komandi kosninga, heldur ekki síður til að efla það enn frekar þannig að þeir hópar sem vissulega hafa þurft að draga saman seglin undanfarin ár fái þá umbun sem þeir eiga skilið. Til að geta leitt það verkefni þarf sterkan formann, sem hrífur fólk með sér.

Árna Pál í forystu
Eitt grundvallaratriðið í framtíð okkar er að þjóðinni auðnist að verða þátttakandi í samstarfi Evrópuþjóða, í Evrópusambandinu. Árni Páll hefur til að bera þá framtíðarsýn, þá þekkingu, þann kraft og þann dugnað sem þarf til að leiða flokkinn og þjóðina í þeirri vegferð.

Þess vegna kýs ég Árna Pál Árnason til formanns Samfylkingarinnar.

Haukur Már Haraldsson framhaldsskólakennari