24. apr 2007

Leiftursókn eða tangarsókn?

Fyrir alþingiskosningarnar 1979 lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram stefnuskrá undir yfirskriftinni „Leiftursókn gegn verðbólgu“. Stefnuskráin fólst í efnahagsstefnu sem ættuð var frá Thatcher og Reagan. Skemmst er frá því að segja að kjósendur höfnuðu þeirri stefnumörkun með eftirminnilegum hætti og uppnefndu hana „Leiftursókn gegn lífskjörum“.

Felulitir Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn lærði af mistökunum 1979. Síðan þá hefur flokkurinn aldrei lagt fram heildstæða stefnuskrá, heldur látið duga almennt hjal um flest mál. En það er ekki þar með sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipt um stefnu. Þvert á móti virðist flest benda til að undir meinleysislegu og letilegu yfirborði flokksins fyrir þessar kosningar búi ígrunduð stefna um aukna misskiptingu í samfélaginu, þar sem verstu þættir efnahagsstefnu Margrétar Thatcher eru leiddir til öndvegis á Íslandi.
Helsta afrek Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum undanfarin kjörtímabil felst í víðtækri biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar. Bið eftir hjartaþræðingu er hálft ár, lengri eftir heyrnartækjum og liðskiptaaðgerðum, eitt og hálft ár eftir plássi á BUGL. Engu að síður er helsta markmið heittrúarmanna í Sjálfstæðisflokknum að bæta enn í þegar loforð um skattalækkanir eru annars vegar.

Hallarekstur blasir við
Staðreynd málsins er sú að bætt staða ríkissjóðs undanfarin ár stafar fyrst og fremst af auknum skatttekjum vegna ofþenslunnar, en ekki af hagræðingaraðgerðum eða aðhaldi í ríkisútgjöldum. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa ýtt undir verðbólgu og grafið undan tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Þess vegna er spáð halla á ríkissjóði strax á næsta ári – beint í kjölfar mesta uppgripaskeiðs Íslandssögunnar. Sjálfstæðisflokknum hefur þannig tekist að klúðra þessu mikla vaxtarskeiði og glata tækifærinu til að leggja með því grunn að efnahagslegri velferð þjóðarinnar til lengri tíma litið.
Frjálshyggjumódel Sjálfstæðisflokksins er einfalt: Endalaus ofþensla og eignasala til að fjármagna skattalækkanir. Þessi efnahagsstefna hefur verið reynd áður – í tíð Reagans og Thatchers. Árangursleysi hennar hefur verið staðfest með eftirminnilegum hætti í stjórnartíð Clintons og Blairs. Það kom í hlut jafnaðarmanna að endurreisa velferðarkerfið í Bretlandi eftir að ofsatrúarmenn skattalækkana höfðu unnið á því óbætanlegan skaða. Ef nú bætist við enn eitt kjörtímabil vanrækslu í velferðarmálum er hætt við að við stöndum eftir með enn meiri misskiptingu og enn stærri hópa sem lenda milli stafs og hurðar á biðlistum Sjálfstæðisflokksins.

Vanrækslusyndir íhaldsins
Það er ljóst að forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hugrekki í leiftursókn. En hún hefur með hjálp metnaðarlauss meðreiðarflokks unnið mikið tjón á almannaþjónustu í landinu. Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er sú hvort við viljum haga efnahagsstefnu okkar eftir úreltum kreddum um skattalækkanir sem aflgjafa efnahagslífsins eða byggja upp samfélag samstöðu um stöðugleika og tækifæri fyrir alla , sem byggir á sjálfbærum hagvexti og fjölbreyttu atvinnulífi.

Birt í DV 24. apríl 2007.