24. jan 2013

Nýir tímar - nýr formaður

Í vor velja kjósendur fólk og flokka til setu á Alþingi næstu fjögur ár og ný ríkisstjórn verður mynduð. Mikil umskipti hafa orðið frá því gengið var síðast til kosninga og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók að sér það vandasama verk að vinna okkur út úr afleiðingum allsherjarhruns. Við jafnaðarmenn getum verið stolt af því að okkar ríkisstjórn hefur haft jöfnuð og almannahagsmuni að leiðarljósi í öllum verkum sínum við þessar erfiðu og fordæmalausu aðstæður.

Öflugir formenn
Á líkingarmáli er hægt að segja að hús hafi hrunið og búið sé að hreinsa grunninn og gera klárt fyrir bygginguna. Gífurlega miklu máli skiptir hvernig hús verður byggt. Næsta ríkisstjórn mun stýra því verki og Samfylkingin á að leiða það verk. Þáttaskil verða líka í flokknum mínum þegar reyndasti stjórnmálamaður landsins víkur af vettvangi eftir vel unnin störf og við í Samfylkingunni veljum nýjan leiðtoga. Mjög öflugir einstaklingar hafa verið formenn í sögu Samfylkingarinnar;  Össur, Ingibjörg Sólrún og Jóhanna auk þess sem Margrét Frímannsdóttir leiddi fyrstu kosningabaráttuna en hún var fyrsta konan til að vera valin formaður í stjórnmálaflokki. I þessu formannskjöri veljum við forystumann til að leiða okkur inn í nýja framtíð og til að leiða uppbyggingu í landinu nú þegar rofar til -  fái Samfylkingin til þess umboð.

Velferðarsinninn Árni Páll
Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að horfa á þingflokkinn og meta hvern ég sjái sem þennan mikilvæga forystumann. Ég sannfærðist um að Árni Páll hefði þá eiginleika sem skipta máli núna. Árni Páll er víðsýnn og alþjóðasinnaður og segja má að hann sé öflugur diplómat  sem ítrekað  hefur unnið mikilvægar stöður í Evrópumálum bæði heima og erlendis. Hann er velferðarsinni sem vill samræðu um lausnir og hefur leitað nýrra leiða í mikilvægum hagsmunamálum. Og hann þorir í samvinnu þvert á flokka til að leysa snúin viðfangsefni og þau verða mörg framundan.

Réttlæti í samfélagi jafnaðarmanna
Á ferli mínum sem stjórnmálamaður í 30 ár, fyrst í meirihluta í Kópavogi í þrjú kjörtímabil og í kjölfarið sem alþingismaður í 18 ár - með millilendingum sem aðstoðarmaður ráðherra og um sinn félagsmálaráðherra  - hef ég að mestu beint kröftum mínum í velferðarmálin og þar slær mitt hjarta. Mín framtíðarsýn er að okkur takist að búa til réttlátt jafnaðarmannasamfélag þar sem börn og foreldrar sem búa við  ólíkar aðstæður geti blómstrað. Að þeir sem þurfi stuðning samfélagsins sökum fötlunar, veikinda eða annars, búi við öflugt öryggisnet. Að saman tryggjum við lífsgæði alls fólks.

Nýtt fordæmi
Á stuttum tíma sem félagsmálaráðherra réðst Árni Páll í mikilvægar umbætur. Í kjölfar hrunsins varð að skera niður alls staðar líka  í tryggingakerfinu. Í stað þess að fara í flatan niðurskurð valdi hann að fara í breytingar á bótakerfinu og tryggja með því hag þeirra sem lakast voru settir - sem skipti sköpum á örlagastundu. Með því var jöfnuður aukinn og velferðin varinn enda lýsti AGS því yfir árið 2011 að Ísland hafði m.a. með þessu, skapað nýtt fordæmi í viðbrögðum við kreppu. Félagsmálaráðherrann átti persónulegt frumkvæði að því að allir íslenskir unglingar á viðkvæmasta aldri voru kallaðir út strax árið 2009 í átakinu Ungt fólk til athafna. Bestu sérfræðingar voru kallaðir til og árangurinn var stórmerkilegur eins og Barnaheill hefur m.a. vakið athygli á í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuleysi ungs fólks minnkaði í kreppunni sem er einsdæmi.

Hjúkrunarheimilin að veruleika
Árni Páll opnaði líka á algerlega nýja leið til byggingar hjúkrunarheimila en æpandi þörf var orðin bæði fyrir ný rými og breytingar á þeim eldri heimilum þar sem tvíbýli viðgangast. Þess vegna eru byggingar hjúkrunarheimila nú  í gangi í mörgum sveitarfélögum sem annars hefðu ekki átt möguleika á úrræðum. Seinna var Árni Páll tímabundið efnahags- og viðskiptaráðherra og stofnaði til víðtækrar samvinnu  um leiðir til lausna í efnahags- og atvinnulífi. Ég varð þess vör hvað eftir annað að hann starfaði við góðan orðstír allra þeirra sem vildu vera með í að leggja hönd á plóg til lausna.

Uppbygging velferðarríkisins
Við Árni eigum það sameiginlegt að hafa unnið með norrænum sósíaldemókrötum. Við höfum átt langar samræður um þátt jafnaðarmanna alla síðustu öld í uppbyggingu velferðarríkja Norðurlandanna.  Hjá þeim vegur þungt áherslan á almannahagsmuni,  að réttindi og skyldur íbúanna fari saman og að enginn verði undir í lífsbaráttunni. Árni sagði nýverið í blaðagrein að efnahagsmál, utanríkismál, og velferðarmál væru samtvinnuð sem aldrei fyrr og í reynd eitt og sama verkefnið. Og hann sagði jafnframt:

„Ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að vera full baráttuþreks og brjótast til nýrrar framtíðar, geta faðmað þjóðina og fundið öllum rúm á þjóðarheimilinu. Hún er ekki stefnulaus, tekur almannahagsmuni ávallt fram yfir sérhagsmuni og leitar leiða úr erfiðum aðstæðum með samræðuna að vopni. Og henni eru allir vegir færir.“

Um þetta er ég Árna Páli algjörlega sammála og ég treysti honum best til að leiða slíka ríkisstjórn. Þess vegna skora ég á ykkur öll kjósa Árna Pál til formanns Samfylkingarinnar.

Rannveig Guðmundsdóttir fyrrv. alþingingismaður