08. nóv 2008

Réttlæti í eftirlaunum

Hrun efnahagskerfisins á undanförnum vikum hefur breytt sýn okkar flestra á forgangsverkefni í samfélaginu. Það hefur líka breytt því hvaða þolinmæði við höfum gagnvart töfum á brýnum réttlætismálum. Eitt slíkra mála er breyting á eftirlaunakjörum æðstu embættismanna ríkisins.

Það hefur lengi verið þyrnir í augum okkar margra að sérstakar reglur um rýmri eftirlaunaréttindi gildi um ýmsa æðstu embættismenn ríkisins og að þeir ávinni sér réttindi óháð inngreiðslum í lífeyrissjóði, öfugt við aðra borgara. Þessu hefur lengi verið tímabært að breyta. Nú, þegar við blasir að almennir launamenn muni þurfa að þola lækkun lífeyrisréttinda vegna efnahagshrunsins, skiptir miklu að við mætum þeim áföllum með breytingum á eftirlaunaréttindum æðstu embættismanna. Þeir eiga ekki að fá lífeyri sem er langt umfram það sem þeir greiddu fyrir, á sama tíma og fólk sem greiddi fyrir sinn lífeyri fær ekki einu sinni til baka það sem greitt var, með eðlilegri ávöxtun.

Undanfarin misseri hefur staðið í miklu lögfræðilegu stímabraki um það hvort og þá hvernig unnt sé að afnema þau réttindi sem þegar hafa verið veitt. Það álitamál hefur tafið aðgerðir í þessu efni. Ég tel að nú sé svo komið að tími lögfræðilegra þræta um þetta mál sé löngu liðinn.

Ekkert er annað að gera í stöðunni en að afnema þau forréttindi sem veitt voru í árslok 2003. Þau á að afnema skilyrðislaust og án bóta. Flestir þeirra sem réttindanna njóta vænti ég að séu sómamenn og muni una slíkri aðgerð þegjandi og hljóðalaust við þær erfiðu aðstæður sem við búum við. Fari svo hins vegar að einhverjir forréttindapésar telji að með því sé á þeim á sér brotið, er rétt að svæla slík smámenni út úr skúmaskotum lögfræðiþrætna og láta þá kalla eftir ósanngjörnum forréttindum sér til handa fyrir dómi. Þá vitum við nöfn þeirra síngjörnu einstaklinga sem ekki eru tilbúnir að axla sömu byrðar og almenningur í landinu og getum híað á þá á götu héðan í frá. Tjónið fyrir ríkið verður ekkert. Það eina sem ríkið kann að verða dæmt til að greiða eru þau allt of ríflegu eftirlaun sem við hefðum ella þurft að greiða þessum sömu aurapúkum til handa. Í gerningaviðrum undanfarinna vikna höfum við oft gengið á ystu nöf gagnvart stjórnskipulegu réttmæti laga. Því ekki nú, þegar býður þjóðarsómi og réttlætismál er annars vegar? Við höfum sem samfélag allt að vinna og engu að tapa. 

Birt í Morgunblaðinu 8. nóvember 2008.