03. apr 2007

Ríkisrekin kvennakúgun eða atvinnufrelsi?

Margrét Pála Ólafsdóttir, skólafrömuður, kom róti á huga margra í síðustu viku. Hún benti á að miðstýrð ríkisrekin stjórnkerfi velferðarþjónustunnar væru helsti Þrándur í götu raunverulegs kvenfrelsis. Fyrir nokkrum áratugum var hlutur kynjanna í störfum hjá hinu opinbera jafnari. Síðan hefur það gerst að fjölmörg verkefni sem áður voru í höndum opinberra aðila eru nú boðin út. Þeim verkefnum er í ríkari mæli sinnt af körlum. Hið opinbera kerfi hefur síðan orðið sífellt miðstýrðara. Konur eru nú í miklum meirihluta meðal starfsmanna í velferðarþjónustu, en karlarnir hlutfallslega fleiri í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera. Konurnar eru því „vinnukonur kerfisins“ og ráða litlu um sitt nánasta umhverfi.

Miðstýrt skólakerfi
Staðreyndin er sú að rekstrarkerfi velferðarþjónustunnar hér á landi er með því miðstýrðasta sem þekkist í lýðfrjálsu landi. Nær öll börn eru í skólum sem reknir eru af hinu opinbera. Skólastjórnendur og kennarar hafa sífellt minna ráð yfir tíma sínum og eru bundin af ósveigjanlegri aðalnámskrá. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft með höndum stjórn menntamála í 20 ár af síðustu 23 árum. Afraksturinn er einhæft menntakerfi, lítil fjölbreytni og fá tækifæri. Brottfall úr framhaldsskólum er meira en í nokkru öðru Evrópuríki. Með öflugri mótstöðu Samfylkingarinnar tókst að hrinda síðustu atlögu menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að sjálfstæðri hugsun í skólamálum: Samræmdum stúdentsprófum. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi stundum gefið undir fótinn með aukið frjálsræði í rekstri skóla hefur aldrei komið til mála af hálfu flokksins að létta hinni dauðu hönd miðstýringar af námsframboðinu.

Miðstýrt heilbrigðiskerfi
Í heilbrigðiskerfinu höfum við tekið upp miðstýringu sem á engan sinn líka í Vesturálfu. Ríkisspítalar eru óstjórnhæft bákn þar sem starfsánægja fólks mælist ótrúlega lág og valdleysi er algert. Tröllaukin stærð spítalans í þessu litla landi hefur sett annari heilbrigðisstarfsemi óeðlilegar skorður. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa enga framtíðarsýn um þróun heilbrigðisþjónustunnar, ef frá eru talin lítt hugsuð áform um nýtt „hátæknisjúkrahús“. Þau fela í sér enn frekari miðstýringu í heilbrigðiskerfinu.

Fjölbreytni er lykilorðið
Margrét Pála hitti naglann á höfuðið þegar hún tók sagði í Silfri Egils að hún væri ekki að tala fyrir einni lausn á þann veg að 99% barna væru í sjálfstæðum skólum. Hitt væri hins vegar jafn vitlaust að hafa 99% barna í ríkisreknum skólum, eins og nú er. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga þrjú grundvallaratriði. Almannaþjónusta á alltaf að standa öllum til boða án efnahagslegrar mismununar. Það á enginn að geta borgað sig fram fyrir. Í annan stað þarf kostnaður almennings að vera sambærilegur eða lægri en kostnaður af ríkisrekstri. Í þriðja lagi þarf eftirlit með rekstrinum að vera fullnægjandi. Ef þetta er í lagi er sjálfsagt mál að auka svigrúm fyrir sjálfstæðan rekstur í almannaþjónustu. Því við erum ekki öll eins.

Birt í DV 3. apríl 2007.