04. apr 2007

Samfylking gegn kyrrstöðu og valdhroka

Samfylkingin er höfuðmótvægið við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskum stjórnmálum. Hún berst í senn fyrir bættum kjörum þeirra sem lakar standa og fyrir þróttmiklu og alþjóðavæddu atvinnulífi. Hún er ein um að sameina kröfur ólíkra samfélagshópa um bættar aðstæður öflugri varðstöðu um almannahagsmuni.

Sjálfstæðisflokkurinn er nú sem aldrei fyrr stefnulaust hagsmunabandalag um völd. Hann getur hins vegar freistað þess að halda óbreyttu ástandi, fái hann til þess meðreiðarflokk. Spurningin er hvort VG ætli að verða hinn nýji Framsóknarflokkur?

Hróplegur munur á orðum og efndum einkennir stjórnarhætti VG í Mosfellsbæ. Sú harkalega gagnrýni sem þeir eru þekktir fyrir í stjórnarandstöðu og linnulítið gort þeirra um eigin ágæti og hugsjónafestu er í hróplegri andstöðu við það hugsjónaleysi sem þeir sýna þegar þeim er hleypt að meirihlutaákvörðunum í Mosfellsbæ. Þá er allt falt. Náttúran á að njóta vafans – alls staðar nema í Mosfellsbæ. Umhverfismat á ávallt að fara fram í vafatilfellum – nema í Mosfellsbæ.

Fullkomin samstaða er milli íhalds og VG um afturhald og einangrunarhyggju í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Þeir virðast líka frekar tilbúnir að hrekja öflug fyrirtæki úr landi, en að breyta hagstjórnaraðferðum í þá átt að samrýmist alþjóðavæddu atvinnulífi.

Stefna Samfylkingarinnar byggir á metnaðarfullri þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi, agaðri hagstjórn og aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópskum veruleika. Við skulum vinna þeirri stefnu fylgi og gera allt sem við getum til að Mosfellsbæjarmódelið verði ekki yfirfært á landsstjórnina eftir næstu kosningar. Það er eina afurð Mosfellsbæjar sem ekki er til útflutnings.

Birt í Mosfellingi, 4. apríl 2007.