01. des 2006

Stagbættur varnarsamningur

Íslendingar hafa í meira en hálfa öld átt náið samstarf við Bandaríkin í öryggis- og varnarmálum. Það samstarf skilaði umtalsverðum ávinningi á óvissutímum kalda stríðsins þegar nýfrjálst Ísland var að stíga sín fyrstu spor í sjálfstæðri utanríkispólitík. Oft var ágreiningur um þá stefnu en hún var alla tíð mörkuð fyrir opnum tjöldum og um hana urðu eðlileg skoðanaskipti meðal þjóðarinnar. Eftir því sem staða Íslands hefur breyst og dregið úr viðsjám í okkar heimshluta hafa aðstæður kallað á endurmat á þessu samstarfi. Það hefur því miður aldrei átt sér stað.
Viðræður um endurskoðun varnarsamningsins undanfarin ár hafa haft að markmiði að endurskoða varnarsamninginn í ljósi breyttra aðstæðna í öryggismálum í okkar heimshluta. Bandaríkjamenn ákváðu einhliða að kalla varnarliðið heim 15. mars sl. Eðli viðræðnanna hlaut að breytast í kjölfar þeirrar ákvörðunar, því varnarsamningurinn hefur mjög skýrt og afmarkað gildissvið. Hann felur í sér skuldbindingu Bandaríkjanna um varnir Íslands og skuldbindingu Íslands um að láta á móti í té aðstöðu til varna landsins. Þegar viðvera varnarliðs á Íslandi er ekki lengur fyrir hendi er ómögulegt að laga slíkan samning að nýjum aðstæðum af einhverju viti.
Niðurstaða varnarviðræðnanna nú vekur fleiri spurningar en hún svarar. Með samkomulaginu er efnissviði varnarsamningsins breytt í grundvallaratriðum og hann látinn taka til nýrra atriða sem varða innra öryggi landsins. Sem dæmi má nefna samvinnu í hryðjuverkavörnum, samvinnu sérsveita bandaríkjahers og sérsveita íslenskrar lögreglu og samvinnu stofnana sem koma að landamæravörslu.

Hvað eigum við að læra af Bandaríkjamönnum?
Á þessum sviðum er Ísland nú þegar hluti af víðtækri landamærasamvinnu við önnur Evrópuríki innan Schengen-samstarfsins. Orðspor bandarískra stjórnvalda í löggæslu, vörnum við hryðjuverkum og landamæravörslu er ekki með þeim hætti nú um stundir að sérlega eftirsóknarvert geti talist að leita þar fyrirmynda eða leiðbeiningar um þau efni. Bandarísk stjórnvöld hafa legið undir þungu ámæli undanfarin ár fyrir þær aðferðir sem þau hafa kosið að beita við varnir gegn hryðjuverkum og landamæravörslu. Er þar nokkuð sama hvort borið er niður í Guantanamo, leynilegum fangelsum í Mið- og Austur-Evrópu eða í víðtækari takmörkunum á almennum lýðréttindum í Bandaríkjunum sjálfum en nokkru sinni hafa áður sést. Ákvörðun um að hefja samvinnu við bandarísk stjórnvöld um ýmsa þætti löggæslu og landamæravörslu er stefnubreyting af Íslands hálfu og stórpólitísk í eðli sínu. Stjórnvöld skulda þjóðinni skýringar á því hvað það er sem íslensk lögregla á að læra í vinnubrögðum við hryðjuverkavarnir, landamæragæslu og almennu löggæslusamstarfi af bandarískum heryfirvöldum sem henni býðst ekki að læra hjá lögregluyfirvöldum í nágrannalöndum okkar innan Schengen.

Stefnulausar leyniviðræður
Stjórnvöld hafa kosið að halda varnarviðræðunum í fullkominni leynd undanfarna mánuði. Engin umræða hefur því farið fram um það hér á landi hver samningsmarkmið Íslands ættu að vera í þessum samningum og stjórnvöld hafa ekki skýrt samningsmarkmið sín. Þessi leynd var óþörf og óskiljanleg og ekki í nokkru samræmi við stjórnhætti í nágrannalöndunum. Þvert á móti má ætla að stjórnvöldum hefði átt að vera styrkur af því í samningunum að byggja á víðtækri samstöðu meðal þjóðarinnar um samningsumboð og stefnumörkun.
Vert er að hafa í huga að Bandaríkjamenn eru skuldbundnir til þátttöku í vörnum Íslands í krafti stofnsamnings Atlantshafsbandalagsins. Skemmst er einnig að minnast þess að bandarísk stjórnvöld kynntu ákvörðun sína um brottkall varnarliðsins í mars sl. með því fororði að Bandaríkin hygðust áfram tryggja varnir Íslands. Skuldbinding Bandaríkjanna að þessu leyti var því alltaf í boði af þeirra hálfu. Það er því ekkert sérstakt afrek af Íslands hálfu að hafa í viðræðunum fengið Bandaríkjamenn til að standa við það sem þeir ætluðu sér alltaf að standa við.
Þegar öllu er á botninn hvolft virðist þessi nýi samningur einungis henta hagsmunum Bandaríkjanna. Við fáum ekkert út úr honum sem ekki var í hendi 15. mars sl. Í krafti hans halda Bandaríkjamenn hins vegar rétti til aðstöðu til varna landsins og "til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til" eins og segir í 1. gr. varnarsamningsins. Þótt samningurinn geri ráð fyrir sameiginlegu mati þjóðanna tveggja á varnarþörfinni er ljóst af reynslu síðustu missera að Bandaríkjamenn telja sér heimilt að leggja einhliða mat á varnarþörfina og haga varnarviðbúnaði í samræmi við það mat. Hvaða afleiðingar hefur það fordæmi fyrir túlkun ákvæða varnarsamningsins til lengri tíma litið?
Við þurfum nýja stefnu í öryggismálum. Þá stefnu eigum við að móta að undangenginni upplýstri umræðu hér innanlands um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og í kjölfar ítarlegs samráðs við nágrannaríki okkar austan hafs og vestan. Tilviljanakenndur bútasaumur á úreltum samningi leysir okkur ekki undan því verki.

Birt í Morgunblaðinu 4. október 2006