28. jan 2013

Sterkar rætur Samfylkingar

Nú líður að lokum formannskjörs í Samfylkingunni. Það skiptir flokkinn miklu að þátttakan í kjörinu verði sem best. Ég vil hvetja þig til að kjósa í formannskjörinu og til að minna vini og ættingja sem skráðir eru í flokkinn á að taka þátt.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir samskiptin og samtalið við mikinn fjölda fólks undanfarna mánuði.

Ég heillaðist barn að aldri af hugmyndinni um þjóðfrelsi og rétt undirokaðs fólks um allan heim til sjálfsákvörðunar. Það hafa verið leiðarljós í stjórnmálastarfi mínu allt til þessa dags. Þess vegna vil ég að Ísland standi vörð um sjálfstæði sitt með fullgildri þátttöku í samfélagi þjóðanna og að íslenskt launafólk njóti afkomuöryggis og verndar gegn ofríki stjórnvalda með sama hætti og fólk í nálægum löndum. Þess vegna vil ég auka vald fólks yfir eigin lífi og tryggja góða velferðarþjónustu án tillits til efnahags, á þeim forsendum sem fólk kýs sjálft.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem byggir á svo sterkum rótum að geta með trúverðugum hætti ofið saman kvenfrelsi, verkalýðsbaráttu, velferðarsjónarmið, græn gildi, þjóðfrelsi, alþjóðahyggju og athafnafrelsi í óslítanlegan streng. Í þessari blöndu býr ótrúlegur kyngikraftur og á hennar grunni er auðvelt að veita svör við erfiðustu álitamálum okkar tíma. Spurningin er hvort við kjósum að nýta þetta hreyfiafl, rækta það og sækja fram með það sem höfuðvopn?

Ég hef notið mikils trausts, fengið tækifæri til að þjóna hreyfingu jafnaðarmanna og verið kallaður til verka í erfiðustu ráðuneytunum til að glíma við fordæmalaus verkefni í íslenskri sögu. Eftir þá reynslu hefur mér nú gefist færi á að þróa framtíðarsýn mína, byggða jafnt á hugsjónum bernskunnar og reynslu liðinna ára, og kynna ykkur hana. Samtöl mín við Samfylkingarfólk um allt land hafa þroskað þessar hugmyndir, stælt þær og bætt. Það er ekki sjálfsagt að njóta trausts félaga sinna með þessum hætti og ekki heldur að fá tækifæri til að þróa sýn á framtíðarverkefnin með þessum hætti. Ég lít því á undanfarin misseri sem eina langa uppskeruhátíð.

Fyrir þessi tækifæri þakka ég af alhug. Ég er reiðubúinn til að helga mig áfram því verki að finna hugsjónum okkar allra farveg í flóknum heimi. Nú er valið í höndum Samfylkingarfólks um land allt.

Árni Páll Árnason.