13. okt 2006

Stöðugur óstöðugleiki

Eftir efnahagslegan óstöðugleika undanfarinna missera er ljóst að eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna á næstu árum er að skapa stöðugt efnahagsumhverfi. Til þess að það megi takast verða stjórnmálamenn að horfast í augu við þá staðreynd að krónan er nú eitt stærsta efnahagsvandamál þjóðarinnar.

Óstöðugleiki undanfarinna ára
Eftir þenslutímabil undanfarinna ára blasir nú við erfitt aðlögunarferli. Seðlabankinn glímir við verðbólgu með því að hækka stýrivexti. Verðtryggingin gerir þennan þátt hagstjórnarinnar erfiðari og kemur í veg fyrir að stýrivaxtabreytingar skili sér beint út á markaðinn og hafi þar tilætluð áhrif. Margt bendir til að þrátt fyrir að stýrivaxtahækkanir hafi verið meiri en þekkist nokkurs staðar í löndum sem við viljum bera okkur saman við, hafi þær verið of litlar. Hin hættan er svo sú að stýrivextirnir verði of háir og leiði til harðari lendingar í fyllingu tímans.
Það er rétt sem margoft hefur komið fram að krónan er nauðsynlegt tæki til þess að jafna út sveiflur við núverandi efnahagsaðstæður. En það gleymist oft að þetta tæki hefur líka aukið á sveiflur undanfarinna ára og gert stjórnvöldum kleift að sýna lausatök í efnahagsstjórninni. Ef stjórnvöld byggju við skýrari aga með traustari og stöðugri gjaldmiðli þyrftu stjórnvöld líka að sýna meiri aga við efnahagsstjórnina til að koma í veg fyrir ofursveiflur. Ef menn vita að þeir þurfa ekki að sýna ábyrgð í hagstjórn og vita að þeir hafa gengi krónunnar sem hjálpartæki þegar illa fer er eðlilega lítill hvati til aga í hagstjórn. Það er vandi okkar í hnotskurn.

Ónýt króna
Síðasta sveifla var ekki bara heimatilbúin vegna þenslu á húsnæðismarkaði og stóriðjuframkvæmda. Hún varð meiri en hún hefði þurft að verða vegna þess að stýrivaxtaúrræði Seðlabankans virka ekki sem skyldi vegna verðtryggingarinnar. Krónan er með öðrum orðum svo veikur gjaldmiðill að hún er ekki nothæf í hagstjórn sem byggir á hefðbundnum lögmálum hagfræðinnar. Bestu hagfræðingar landsins klóra sér nú hausnum til að reyna að finna einhverja leið til að láta krónuna virka við nútímalega hagstjórn. Því miður er ólíklegt að sú leit beri mikinn árangur.
Hörmungarsagan heldur því áfram með sama hætti og hingað til. Gengi krónunnar spennist í of miklar hæðir á þenslutímum og lendingin verður of hörð. Útflutningsfyrirtæki hafa átt undir högg að sækja og framleiðslustarfsemi, sem ætti að eiga góða möguleika til arðsköpunar við eðlilegar aðstæður, hefur flust í auknum mæli úr landi. Öll íslensk fyrirtæki búa við búsifjar vegna krónunnar. Þyngst leggjast þessi ósköp þó á venjulegt fólk með verðtryggð húsnæðislán og yfirdráttarlán, sem á engrar undankomu auðið. Verðtryggingin er nefnilega líftrygging lélegrar efnahagsstjórnar. Hún gegnir því hlutverki að tryggja að almenningur greiði reikninginn fyrir hagstjórnarmistök og losaragang í efnahagslífinu. Og yfirdráttarvextir endurspegla stýrivextina og standa því nú í á þriðja tug prósenta. Á þetta að heita stöðugleiki?

Birt í Morgunblaðinu í september 2006.