10. maí 2007

Tækifæri fyrir alla

Samfylkingin vill leggja niður samræmd próf í núverandi mynd og auka faglegt sjálfstæði skóla, draga úr miðstýringu og auka valfrelsi nemenda. Við viljum líka bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum og fella niður innritunar- og efnisgjöld. Eftir 20 ára setu Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu er menntakerfið miðstýrðara, einhæfara og fábreyttara en í nágrannalöndunum. Brottfall úr framhaldsskólum er meira en í nokkru öðru Evrópuríki.

Ef nemandi er slakur í stærðfræði býður íslenska skólakerfið bara upp á eina lausn: Láta hann fá meiri stærðfræði. Á öllum góðum vinnustöðum er reynt að fela fólki verkefni sem það ræður við og hlífa því við verkefnum sem það getur alls ekki innt af hendi. En ekki í skólakerfinu.

Við þurfum frelsi í skólakerfinu. Við þurfum ekki frelsi skóla til að leggja á skólagjöld og mismuna þannig nemendum. Við þurfum frelsi skólastjórum og kennurum til handa til að bjóða upp á ólíkar tegundir náms sem henta ólíkum nemendum. Það er punkturinn.

Birt í Kraganum 11. maí 2007. Sjá nánar á www.kraginn.is.