27. jan 2013

Þróun stjórnmálahreyfingar

Á fundi í Kópavogi á miðvikudagskvöldið mættust formannsframbjóðendurnir Guðbjartur og Árni Páll.

Undir lok fundarins ítrekaði Guðbjartur að hann væri trúr grunngildum Samfylkingarinnar; réttlæti, jöfnuði og kvenfrelsi og varaði við því að flokkurinn kvikaði frá þeim.  Hann tók fram að í orðum hans fælist ekki ásökun í garð mótframbjóðandans.

Nýjar hugmyndir – mismunandi skoðanir
Á leiðinni heim fór ég hugsa um grunngildin og rifjaði upp í huganum tímann fyrir 13-14 árum þegar við Kvennalistakonur mættum fólki úr Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki, landið um kring, í verkefninu að búa til nýjan stjórnmálaflokk. Það var tekist á, stundum skellt hurðum en sameining okkar tókst að mestu, því hugsjónin um sameinaða fjöldahreyfingu fólks með svipaða lífsýn varð stærri og mikilvægari en sértækar áherslur hvers og eins.  Á þessum árum sem liðin eru hefur Samfylkingin verið sterkust þegar okkur hefur borið gæfa til að taka fagnandi á móti nýjum hugmyndum, leyft mismunandi skoðunum að flæða um æðakerfi flokksins og nýtt okkur þann kraft sem skapast þegar fólk með ólíkan bakgrunn og sýn, vinnur að sömu markmiðum. Sjaldan höfum við dottið í þá  gryfju að efast um heilindi hvers annars og trúverðugleika sem jafnaðarmenn eða kvenfrelsissinnar því það skiptir máli í keppni samherja að þeir virði hvor annan og takist á um hugmyndir, sýn og leiðir, af sanngirni og heiðarleika.

Klipið smjör
Þetta hefur þeim Árna og Guðbjarti tekist í heiðarlegri baráttu um formannsembættið.  Í slíkri baráttu er líka mikilvægt að helstu stuðningsmenn sýni varkárni í málflutningi og slysist ekki út í þann leiða leik að gera mönnum upp skoðanir.  Þetta er sérlega mikilvægt þegar forystufólk sem hefur verið kosið til ábyrgðarstarfa, á í hlut.  Því voru það vonbrigði þegar varaformaður flokksins, Dagur Eggertsson, sá ástæðu til að rifja upp rúmlega ársgamalt viðtal við Árna Pál um Landsvirkjun og hann og fleiri dylgjuðu í kjölfarið um löngun Árna til að selja fyrirtækið.   Hér er hinn auma smjörklípuaðferð á ferð; að sá fræjum um óheilindi Árna sem „jafnaðarmanns“ með því að slíta orð hans úr samhengi og búa til úr þeim nýjan skilning.  Og fjölmiðlarnir löptu upp smjörið.

Það er merki um veikleika að  draga upp víglínur í stjórnmálum út frá dylgjum og smjörklípum. Aumt  gagnvart andstæðingum, aumara gagnvart samherjum.

Það hefur enginn sjálfskipaðan rétt til að ákveða hver hinn „sanni“ jafnaðarmaður er.

Lifandi umræða
Skilninginn á því hvað felst í gildunum „réttlæti, jöfnuður, kvenfrelsi“ má aldrei meitla í stein.  Ef svo væri hefði stjórnmálahreyfingin Kvennalistinn aldrei orðið til, né náð árangri, hvað þá skráð sig á spjöld Íslandsögunnar sem aflið að baki stökkbreyttri umræðu um frelsi kvenna til athafna.  Það er aðeins í gegnum lifandi umræðu, stöðuga framþróun hugmynda, þor til að orða það sem eru fyrir sumum heilög vé; að grunngildi ganga í endurnýjun lífdaga, í opinni vegferð þar sem nýjar kynslóðir meðtaka þau og gera að sínum.  Jafn mikilvæg og sönn sem áður.

Árni Páll er á slíkri vegferð og vill fá okkur með sér.
Í ræðu og riti, greinum, fésbók og bloggi  – á samkomu eftir samkomu -  hefur hann sýnt fram á hvernig öflugt velferðarsamfélag, heilbrigt og sterkt mennta- og menningarsamfélag, samfélag náttúruverndar og nýrra atvinnutækifæra, byggir á því að  okkur takist að treysta efnahag okkar og frelsi til afhafna, án hafta, án arðráns, án blæðandi gjaldmiðils.

Árni Páll Árnason sér hina stóru mynd og þorir að setja hana í orð.  

Höfundur starfar í listum og skapandi greinum