05. 11 2006

Ágætu stuðningsmenn

Nú er niðurstaða fengin í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Þar náði ég fjórða sæti, með 1950 atkvæðum alls í fyrsta til fjórða sæti. Fyrir ofan mig á listanum eru gamall skólabróðir minn og félagi Gunnar Svavarsson forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og tveir sitjandi þingmenn, þær Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Markmið okkar allra er að ná fimmta manninum, Guðmundi Steingrímssyni, inn á Alþingi í kosningunum í vor.

Ég á ykkur öllum mikla skuld að gjalda. Ég tilkynnti um framboð mitt fyrir sex vikum og hef aldrei farið í prófkjör áður. Á sex vikum höfum við náð að byggja upp öflugt framboð sem skilaði þessari góðu niðurstöðu. Alls veittu tæplega 1000 kjósendur eða einn af hverjum fimm mér brautargengi í 1. sæti listans og alls veittu 2877 kjósendur mér atkvæði sitt í eitthvað sæti. Fyrir allan þennan stuðning þakka ég af heilum hug. Meðframbjóðendum mínum þakka ég líka heiðarlega, drengilega og uppbyggilega kosningabaráttu. Framundan er skemmtilegt verkefni - að skipta um ríkisstjórn í vor. Til þess geng ég glaður í hópi góðra félaga.

Bestu kveðjur,

Árni Páll Árnason