30. 07 2006

Að undanförnu hefur nokkur umræða farið fram um niðurstöðu svokallaðrar matvælanefndar sem falið var að fjalla um helstu orsakir hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur um lækkun þess. Sem kunnugt er náðist ekki samstaða í nefndinni um tillögur en formaðurinn gerði grein fyrir helstu niðurstöðum úr starfi hennar í skýrslu. Í skýrslunni er rakið með skýrum hætti að ein stærsta skýringin á háu matvælaverði á Íslandi sé það fyrirkomulag sem nú er haft á stuðningi við innlenda landbúnaðarframleiðslu með innflutningshöftum á erlendar landbúnaðarafurðir. Bent er á ýmsar leiðir til lækkunar matvælaverðs, svo sem almenna lækkun gjalda á matvæli, en sú aðferð hefur þann galla að þá lækkar mest óhollasta matvaran sem mest ástæða er til að skattleggja. Breyting á innflutningsvernd á búvörum er hins vegar áhrifamesta leiðin til breytinga og sú sem myndi skila bæði bændum og neytendum mestum ávinningi til lengri tíma.

Ókostir núverandi kerfis Það fyrirkomulag innflutningsverndar sem við búum við í dag hefur að markmiði að styðja við innlenda búvöruframleiðslu, tryggja bændum og afurðastöðvum tekjur og styðja við byggð í sveitum landsins. Þetta kerfi hefur skilað þeim árangri að landbúnaður hefur almennt búið við viðunandi starfsskilyrði undanfarin ár, þótt fáir telji að bændur hafi borið nægilega mikið úr býtum. Kerfið hefur stutt við afurðastöðvar og þannig einnig við störf í þjónustu við landbúnað í byggðum landsins. Það hefur hins vegar ekki megnað að vinna gegn fækkun starfa í hefðbundum landbúnaði. Það hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir neytendur með háu vöruverði og margt bendir til að sá kostnaður sé mun meiri en þörf er á til að ná settum markmiðum. Þannig bendir flest til að innflutningsverndin haldi ekki aðeins uppi verði á þeim búvörum sem henni er beint að, heldur sé einnig verðleiðandi á markaði og haldi þannig óbeint uppi verði á öðrum matvælum.

Reynslan sem fékkst með afnámi tollverndar á grænmeti árið 2002 og breytingum á stuðningi við grænmetisbændur í tengslum við hana, bendir til að innflutningsvernd á einu sviði leiði til hærra verðlags á öðrum vörum. Þannig leiddi breytingin ekki aðeins til lægra verðs á grænmeti, heldur lækkaði einnig verð á ávöxtum, því markaðsaðilar höfðu greinilega tamið sér að verðleggja ávexti í samhengi við grænmeti. Síðast en ekki síst er innflutningsverndin slæm fyrir hagsmuni bænda og heldur aftur af sköpunarmætti þeirra í atvinnurekstri. Kerfið beinlínis heldur aftur af nýsköpunartilraunum í landbúnaði, því um leið og bóndi færir sig úr hefðbundinni búvöruframleiðslu er hann berskjaldaður og sú aðstoð sem innflutningsverndin veitir nýtist honum ekki á nokkurn hátt.

Þörf fyrir þjóðarsátt
Í tengslum við starf matvælanefndarinnar setti Alþýðusamband Íslands fram tillögur um afnám innflutningsverndar búvara í áföngum, samfara verulega auknum beinum greiðslum sem rynnu til bænda til að auðvelda þeim aðlögun að breyttum aðstæðum. Þessar tillögur ASÍ marka tímamót í umræðu um landbúnaðarmál. Árum saman hefur gagnrýni á landbúnaðarstefnu stjórnvalda helst stafað frá þeim sem gagnrýnt hafa hversu miklu fé er varið úr ríkissjóði til landbúnaðarins. Nú eru hins vegar breyttir tímar í landinu og þjóðin hefur úr meiru að spila. Það sýnir nýja hugsun að ASÍ skuli ljá máls á því að samhliða afnámi innflutningsverndar komi verulega auknar beinar greiðslur til bænda. Það er enda grunnforsenda þess að þróa núverandi kerfi til betri vegar.
Fulltrúar fortíðarinnar hafa undanfarna daga reynt að mæla gegn breytingum á þessum tímapunkti og tínt ýmislegt til. Ein rökin eru þau að nú standi yfir viðræður um breytingar á markaðsaðgangi fyrir landbúnaðaraafurðir innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og því sé ótímabært að breyta kerfinu fyrr en þeim viðræðum lýkur. Því er til að svara að enginn veit hvort þessari viðræðuhrinu lýkur með samkomulagi eða ekki. Eitt er hins vegar ljóst og það er að stuðningskerfi sem byggir alfarið á innflutningsvernd fyrir búvörur, eins og það sem við búum við núna, er í beinni andstöðu við öll þau markmið sem unnið hefur verið eftir innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í áratugi í viðskiptum með búvörur. Það er því ljóst að hvort sem samkomulag næst núna, eftir 10 ár eða 20 ár, þá mun það lúta að minni innflutningsvernd. Ef við grípum til aðgerða strax tryggjum við íslenskum landbúnaði lengri tíma til aðlögunar að nýju kerfi og gerum hann betur í stakk búinn til að mæta þeirri alþjóðlegu samkeppni sem kemur fyrr eða síðar. Íslenskir bændur munu semsagt hafa lengri og betri reynslu af alþjóðlegu samkeppnisumhverfi framtíðarinnar en bændur annarra landa, þegar þar að kemur. Spurningin er því bara hvort við viljum halda lengur eða skemur í kerfi sem skemmir út frá sér, dregur úr afkomumöguleikum bænda og er dýrt fyrir neytendur. Ný landbúnaðarstefna þarf að auka frelsi bænda til að reka bú sín með þeim hætti sem þeir kjósa helst. Með beinum greiðslum eykst frelsi bænda til að leita nýrra leiða í vöruþróun og þeim gefst aðstaða og ráðrúm til að þróa framleiðslu sína í takt við breyttar þarfir markaðarins. Til að svo megi verða þarf samkomulag um auknar beingreiðslur að vera til langs tíma og jafnframt þarf að tryggja að slíkar beinar greiðslur verði tengdar ábúendum á lögbýlum, svo tryggt verði að stuðningurinn nýtist sem best þeim bændum sem í dag reka hefðbundin fjölskyldubú. Einnig þarf að gefa afurðastöðvum nauðsynlegt ráðrúm til vöruþróunar til að mæta erlendri samkeppni.
Fulltrúar gærdagsins hafa reynt að drepa umræðu um niðurstöðu matvælanefndarinnar á dreif með kunnuglegu orðagjálfri um að í hugmyndum ASÍ felist dauðadómur yfir innlendum landbúnaði. Þeir sem feta þessa stigu vanmeta ekki aðeins kraftinn í íslenskum landbúnaði, heldur bera þunga ábyrgð til framtíðar. Það er óumdeilt að innflutningsvernd er dýr og óhagkvæm leið til að ná markmiðum landbúnaðarstefnunnar um öflugan landbúnað og byggð um landið. Hún vinnur meira að segja gegn því markmiði, því hún skaðar samkeppnishæfni ferðaþjónustu sem á nóg með sitt að öðru leyti. Þjóðin er hins vegar almennt tilbúin til að leggja mikið á sig fyrir blómlegan landbúnað og búsetu um allt land. Verkefnið er því ekki flóknara er svo að framleiðendur og neytendur þurfa að þróa saman hentuga og hagkvæma leið til að ná þessu markmiði sem þjóðin er sátt um.

Einstakt tækifæri
Við stöndum nú frammi fyrir því einstæða tækifæri að skapa þjóðarsátt um íslenskan landbúnað til lengri tíma og leggja af linnulitlar og ófrjóar þrætur um landbúnaðarmál. Íslenskir bændur og starfsfólk afurðastöðva í landbúnaði eiga betra skilið en að þurfa að búa við að afkoma þeirra sé stöðugt þrætuepli á vettvangi stjórnmálanna. Það er eðlilegt að þeir sem telja hag sínum hafa verið best borgið með því að magna ágreining og togstreitu um áratugaskeið telji svo vera áfram. En það er verkefni okkar hinna að reyna að brjótast út úr þessu gamla fari. Er ekki nóg komið?

Birt í Morgunblaðinu í júlí 2006.