28. 01 2007

Eftir hamagang prófkjörsbaráttu, aðventu- og jólastúss og hefðbundnar áramótavangaveltur er nú komið að því að hefja á ný hina pólitísku hugmyndasókn. Ég hef breytt útliti vefsíðunnar og ætla mér að setja hér stuttar hugleiðingar og lengri greinar í bland. Kosningabaráttan er að hefjast og af mörgu að taka. Mest stingur í augun hugmyndaleysi og metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar, sem virðist halda að kosningavíxlar af gömlu sortinni séu til þess fallnir að fá kjósendur til fylgilags á síðustu metrum kjörtímabilsins. Ég trúi því hins vegar að kjósendur muni efnahagslegan glundroða, hækkanir á verðtryggðum skuldum og útlánsvöxtum, heimóttarskap á alþjóðavettvangi og hæsta matvælaverð í heimi. Það er verðugt verkefni að setja fram valkost við það dáðleysi, drunga og lífsleiða sem einkenna síðustu mánuði þessa blágræna bandalags. Vonandi tekst það vel hér á þessari síðu.
-áp

16. 01 2007

Í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu á gamlársdag lýsir Geir H. Haarde forsætisráðherra stöðu varnarmála á nýliðnu ári. Þar reynir formaður Sjálfstæðisflokksins sem fyrr að verja hrakfarir Sjálfstæðisflokksins í meðferð varnarmála á undanförnum árum og þann smánarsamning sem hann og Björn náðu að lokum að kreista úr vinum sínum vestra. Hins vegar gengur hann lengra og talar af nokkru steigurlæti við þjóð sína og segir: „Stærstu tímamótin eru þó e.t.v. þau að framvegis verða Íslendingar að gera ráð fyrir að vera sjálfir virkari þátttakendur í eigin öryggismálum og verja til þeirra mun meiri fjármunum en áður. Það er ekki lengur hægt að ætla skattgreiðendum í öðrum löndum að taka á sig allan kostnað af vörnum landsins.“


Þetta eru afar athyglisverð ummæli. Af þeim mætti ráða að stefna Geirs H. Haarde hefði alltaf verið sú að Íslendingar ættu að bera hluta af kostnaði af vörnum landsins. Rétt er að rifja upp að stefna ríkisstjórnarinnar, undir forystu Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde, gekk út á einmitt það að skattgreiðendur í Bandaríkjunum ættu að bera „allan kostnað af vörnum landsins.“ Íslensk stjórnvöld voru aldrei til viðræðu um neina þátttöku í þessum kostnaði.

Snjómokstur, malbikun og björgunarþyrlur
Í umræðum á Alþingi 16. mars 2006 lýsti Geir H. Haarde, skv. frásögn Mbl., því að „Íslendingar hefðu lagt til í viðræðum við Bandaríkjamenn að þeir greiddu allan kostnað vegna snjómoksturs og slökkviliðs á Keflavíkurflugvelli og búnaðar vegna flugumferðarstjórnar. Einnig að Íslendingar myndu greiða helming kostnaðar við viðhald á flugbrautum frá næsta hausti, allan kostnaðinn frá haustinu 2008 og loks að við myndum frá 2008 greiða allan kostnað við rekstur þyrlubjörgunarsveitarinnar.“

Með öðrum orðum: Eftir áralangt stapp voru sjálfstæðismenn tilbúnir að fallast á að Íslendingar ættu að greiða þann kostnað sem allir sanngjarnir menn vissu að þeir ættu fyrir löngu síðan að vera farnir að greiða að fullu, sem sé kostnað sem fælist í rekstri flugbrauta sem langmestu leyti gegna borgaralegu hlutverki og viðveru björgunarsveitar sem Íslendingar lögðu allt kapp á að halda. Ekkert í þessu tilboði fól hins vegar í sér þátttöku í kostnaði við varnir landsins. Ekkert.
Það var við þessar aðstæður sem Bandaríkin gripu til þess ráðs að kalla allt varnarliðið heim. Það er því sérkennilegt að lesa hofmóðugan pistil forsætisráðherrans um að þjóðin þurfi að forðast tilætlunarsemi í garð skattgreiðenda í öðrum löndum. Þann pistil þurftu aðrir að lesa yfir honum þannig að hann sjálfur skildi.

Enn skulu aðrir borga
En lengi skal manninn reyna. Eins og kunnugt er stendur nú í stappi með greiðslur Íslendinga og Norðmanna í Þróunarsjóð EFTA vegna aðildar Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu (ESB). Þessar greiðslur eiga að vera framlag okkar til þróunar og efnahagslegrar uppbyggingar hinnar nýju aðildarríkja, en að mörkuðum þeirra fáum við hindrunarlausan aðgang. Við stækkun ESB árið 2004 stóð í sams konar stappi. Þá leystist málið með því að Norðmenn öxluðu margfaldar byrðar á við Íslendinga, til að greiða fyrir samningum.

Menn geta endalaust deilt um hvort ESB hafi árið 2004 krafið EES-ríkin um of mikið fé. Allir sem til þekkja eru hins vegar sammála um að þar hafi Íslendingar ekki greitt sanngjarnan hlut af aðgangseyrinum að innri markaðnum. Á þeim tíma kom sem sé í hlut norskra skattborgara að borga aðgangseyrinn. Ef marka má fréttaflutning nú eru Norðmenn einfaldlega ekki tilbúnir aftur að borga margfaldan reikning á við Íslendinga. Þess vegna stendur málið fast.
Forysta Sjálfstæðisflokksins þreytist ekki á því að lýsa EES-samningnum sem gullinni fullnaðarlausn fyrir íslenska hagsmuni um ófyrirséða framtíð. Hann er að sönnu alger forsenda þeirrar efnahagslegu velgengni sem við höfum notið á undanförnum árum, en flest bendir til að til lengri tíma þurfum við betra og traustara samband við ESB, sem meðal annars tryggir okkur ávinninginn af upptöku evrunnar. Um ávinninginn af EES-samningnum fyrir íslenskt þjóðlíf er ekki deilt. En af hverju eiga þá skattgreiðendur í öðrum löndum að greiða kostnaðinn af aðild Íslands að innri markaðnum?

Við þurfum sjálfstæða utanríkisstefnu
Staðreyndin er sú að utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins byggist á fortíðarhugsun vanmetakenndar og heimóttarskapar. Við eigum, samkvæmt henni, að vera lítilþægir og rislágir þiggjendur í alþjóðasamstarfi. Við viljum láta aðra borga sanngjarnan hlut okkar í evrópskri samvinnu. Við þorum heldur ekki í samningaviðræður við ESB um aðild af því að við höfum tapað þeim fyrirfram, að mati Sjálfstæðisflokksins. En við erum ekki yfir það hafin að fórna heiðri okkar, eins og með skammarlegum stuðningi við Íraksstríðið, í von um að fá skattborgara í öðru landi til að kosta varnir okkar.

Það er komið kappnóg af þessu þýlyndi. Við þurfum sjálfstæða utanríkisstefnu sem sæmir stórhuga þjóð. Um mótun hennar þurfa jafnaðarmenn enn og aftur að hafa forystu.

Birt í Morgunblaðinu 16. janúar 2007.