24. 10 2007
Það er þjóðarósiður að gera andstæðingum upp skoðanir og ásaka þá svo fyrir að halda hinum meintu skoðunum fram.
Í þann leiðindafarveg er umræðan um frumvarp um afnám einkaréttar ríkisins á sölu á léttvíni og bjór komin. Í stað þess að ræða efnisatriði frumvarpsins klifa andstæðingar þess á því að með frumvarpinu verði aðgengi að áfengi aukið, með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenning í landinu vegna aukningar áfengistengdra sjúkdóma.
Þetta er alrangt. Ekkert í frumvarpinu kemur í veg fyrir að strangar reglur verði settar um aðgengi að áfengi, svo sem um afgreiðslutíma. Því til viðbótar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sett verði heimildarákvæði í áfengislög sem heimili sveitarstjórnum að setja annars konar skilyrði er lúta að aðgengi áfengi.
Á Íslandi er sala skotvopna í höndum einkaaðila. Sama á við í Bandaríkjunum. Er aðgengi að skotvopnum sambærilegt á Íslandi og í Bandaríkjunum? Auðvitað ekki, því hér höfum við valið að setja strangar reglur um sölu skotvopna. Sama getum við að sjálfsögðu gert um áfengi.
ÁTVR takmarkar ekki aðgengi að áfengi. ÁTVR hefur dembt áfengi inn á bensínstöðvar um allt Suðurland, þótt afskekktari búðir hafi hvívetna verið í boði. ÁTVR er með útsölur í fjölförnustu verslunarmiðstöðvum. Hvernig samrýmist það markmiði um takmörkun á aðgengi að áfengi? Fulltrúi Lýðheilsustöðvar mælti í útvarpinu í gærmorgun meira að segja með óbreyttu sölukerfi vegna þess að aðgengi að áfengi væri nú þegar mjög gott!?! Hver eru þá rökin fyrir óbreyttu ástandi?