08. 11 2007
Á Norðurlandaráðsþingi í Osló í síðustu viku var meðal annars fjallað um fyrirkomulag aðildar Færeyinga að Norðurlandaráði. Færeyingar hafa lýst vilja sínum til að fá fulla aðild en það er ekki mögulegt samkvæmt stofnsamningi Norðurlandaráðs, Helsingfors-samningnum frá 1952, á meðan Færeyjar eru hluti danska ríkisins. Þrátt fyrir það geta Færeyingar nú leitt nefndir Norðurlandaráðs, svarað þar fyrir mál sem þeir bera ábyrgð á og tekið að öðru leyti fullan þátt í starfi ráðsins. Þessi framkvæmd á hins vegar ekki stoð í stofnsamningnum og því eðlilegt að Færeyingar óski þess að alþjóðasamningurinn um norrænt samstarf, Helsingfors-samningurinn frá 1952, endurpegli stöðu þeirra innan danska ríkjasambandsins og innan norræns samstarfs.
Af Íslands hálfu hefur ávallt verið stutt við þessar óskir Færeyinga á norrænum vettvangi, þótt þess hafi jafnframt verið gætt af Íslands hálfu að forðast að hlutast til um mál er lúta að sambandi Færeyinga og Dana. Þau mál sem lúta að samningssambandinu milli landanna verða þessar vinaþjóðir okkar að leysa sín á milli.
Á þinginu nú urðu þau tímamót að Danir studdu tillögu um að beina því til ríkisstjórna Norðurlandanna að þær endurskoði Helsingfors-samninginn með það að markmiði að samningurinn endurspegli þá stöðu sem Færeyingar njóta nú í reynd innan norræns samstarfs. Þar með var einboðið að Íslandsdeild Norðurlandaráðs myndi einnig styðja tillöguna. Tillagan fékk 20 atkvæði en 37 greiddu óbreyttu ástandi atkvæði sitt.
Andstæðingar tillögunnar um endurskoðun Helsingfors-samningsins héldu einkum fram þeim rökum að ef hafist væri handa um endurskoðun samningsins kynni það að valda því að áhugi ríkjanna á norrænu samstarfi minnkaði og það liði jafnvel undir lok í núverandi mynd. Þá hefur því verið haldið fram að slík endurskoðun sé of flókin.
Það er alveg ljóst að engin slík vandkvæði eru á endurskoðun samningsins að það réttlæti að hann sé ekki aðlagaður breyttum tíma og látinn endurspegla aukið sjálfstæði og forræði norrænu sjálfstjórnarsvæðanna í eigin málum. Það er fyrirsláttur að skýla sér á bak við flókin framkvæmdaatriði í þessu máli. Samningar um samstarf og samskipti rótgróinna lýðræðisþjóða eiga að endurspegla raunveruleikann.

Birt í Morgunblaðinu, 8. nóvember 2007.