18. 02 2007

Davíð Oddsson minnti okkur á fyrir rúmri viku að hann hefur aldrei yfirgefið vettvang stjórnmálanna. Þá gagnrýndi hann tiltekið fyrirtæki, Straum-Burðarás, fyrir að hafa með meintum klækjum farið á svig við lagaákvæði um heimildir til upptöku evru. Í annan stað setti hann fram þá hótun í garð annarra fjármálastofnana að ekki hefði verið til þess ætlast að þær gætu nýtt sér lagaheimildir til að taka upp evru sem starfsrækslumynt. Í þriðja lagi lagði hann að jöfnu inngöngu í Evrópusambandið og afsal stjórnarfarslegs sjálfstæðis Íslands með því að þjóðin gerðist hluti Bandaríkjanna.

Fyrst hélt ég að hér væri um að ræða einmanalegt ýlfur frá stjórnmálamanni sem skilað hefur dagsverki sínu og ber, eins og alþjóð veit, hvorki skynbragð á alþjóðamál né efnahagsmál. En svo kom leynigesturinn Geir H. Haarde úr felum í Silfri Egils á sunnudag fyrir viku og endurtók flesta frasana. Geir talaði undan og ofan af því að Straumur-Burðarás hefði ekki mátt færa starfsemi sína yfir í evru. Jafnframt tók hann undir þá lögskýringu Davíðs að mögulegt væri að hindra önnur fjármálafyrirtæki í að nýta sér kosti evrunnar. Að síðustu fór hann með langa þulu sem ætlað var að ýta undir þá tilfinningu að við gætum allt eins tekið upp dollara og evru.

En allt er þá þrennt er. Á miðvikudaginn setti Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra reglugerð um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Þar eru þrengdar heimildir íslenskra fyrirtækja til að nýta sér hagræði af uppgjöri í erlendum gjaldmiðli. Og í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir: „Nú sækir fjármálafyrirtæki sem skilgreint er sem lánastofnun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki um heimild til bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli og skal þá ársreikningaskrá leita umsagnar Seðlabanka Íslands um umsóknina.“ Þetta ákvæði er í skýrri mótsögn við meginstefnu í löggjöf á undanförnum árum, þar sem þess hefur verið gætt að draga úr stjórnsýsluhlutverki Seðlabankans í samræmi við opinbera stefnumörkun um sjálfstæði hans. Í leiðara Fréttablaðsins í dag er þessari reglugerðarsmíð réttilega líkt við spastískar tilraunir til að halda aftur af eðlilegri þróun viðskiptalífsins í landinu.

Í öllu þessu brambolti og óðagoti felast skýr skilaboð Sjálfstæðisflokksins til fyrirtækjanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að viðhalda ofþenslu og verðbólguþrýstingi og forðast stöðugleika eins og heitan eldinn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar síðan að standa í vegi fyrirtækjanna þegar þau reyna að forðast þær búsifjar, sem þessi efnahagsóstjórn leiðir til, með því að gera upp í evrum. Til þess verða allir lagaklækir nýttir og nýjar reglur uppdiktaðar.

Stærstu fyrirtæki landsins skila nú tugum milljarða í skattgreiðslum til íslenska ríkisins. Sveigjanlegt rekstrarumhverfi hefur gert þeim kleift að halda höfuðstöðvum sínum hér á landi, til hagsbóta fyrir okkur öll. Hættan er sú að óbilgirni og veruleikafirring Sjálfstæðisflokksins verði til þess að íslensk fyrirtæki eigi þann eina kost í nauðvörn að flytja starfsemi sína úr landi. Þegar fortíðaraðferðir í hagstjórn eru farnar að valda metnaðarfullum fyrirtækjum óbærilegum kvölum er lausn Sjálfstæðisflokksins ekki að breyta hagstjórnaraðferðunum heldur hrekja fyrirtækin burt. Það er því greinilegt að efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins er eins og spegilmynd af efnahagsstefnu Ögmundar Jónassonar, sem lýst hefur áhuga á að auka jöfnuð í landinu með því að losna við þau fyrirtæki úr landi sem greiða hæstu launin. Samstaða um rekstrarumhverfi fortíðarinnar í helsi hafta og ómálefnalegra afskipta stjórnvalda af fyrirtækjum gæti því verið grunnstef í stjórnarsáttmála íhalds og vinstri grænna.

Þetta eru grafalvarlegt tíðindi fyrir fyrirtækin í landinu. Samband Geirs Haarde og forvera hans er svipað og samband Baldurs og Konna og það fer ekkert á milli mála hvor er hugsuðurinn og hvor er spýtudúkkan í því sambandi. Þegar Davíð hvarf af vettvangi jókst fylgi Sjálfstæðisflokksins, því þjóðin vildi trúa því að nú væri lokið heiftúðugri hefndarherferð flokksins á hendur þeim forystumönnum í atvinnulífinu sem höfðu neitað að lúta flokkslegri forskrift. Endurkoma dúettsins Baldurs og Konna á svið stjórnmálanna sýnir að það var röng ályktun. Nú ríður á að atvinnulífið styðji við framsækna efnahagsstefnu Samfylkingarinnar, sem byggir á virðingu fyrir grundvallarreglum réttarríkisins, stöðugleika, stóriðjuhléi og aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópskum veruleika. Fortíðarþrá Baldurs og Konna er ekki viðunandi valkostur.

-áp

17. 02 2007

Undanfarnar vikur hef ég bent hér á tvískinnung og stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins í stóriðjumálum. Ég hef bent á að flokkurinn gæti án tafar gert tvennt til að tryggja markaðsverð á orku og styðja við umhverfisvernd: Skilyrt heimildir orkufyrirtækja til eignarnáms við virkjanir í þágu almennings og skyldað orkufyrirtæki til að afla fjár á markaðskjörum til raforkuuppbyggingar vegna stóriðju.

Illugi Gunnarsson skrifaði grein hér í blaðið á sunnudag. Þar skýrði hann að þegar hann fitjar upp á að afnumdar verði heimildir orkufyrirtækjanna til eignarnáms vegna virkjana í þágu stóriðju er hann að túlka sínar eigin prívatskoðanir. Hann staðfesti að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur hefur enga stefnu um raunhæfar aðgerðir til að koma í veg fyrir ríkisaðstoð af þessum toga til stóriðjuuppbyggingar. Einnig virðist Illugi ekki vilja tjá sig um þann vanda sem felst í ótakmörkuðum aðgangi opinberra orkufyrirtækja að erlendu lánsfé með ríkisábyrgð. Sú aðstaða felur í sér gríðarlega ríkisaðstoð til orkufyrirtækjanna og gerir þeim kleift að selja raforkuna á útsöluverði.

Eins og niðurlæging Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum væri ekki næg lýsti svo Geir H. Haarde því yfir í Silfri Egils að Guðlaugur Þór Þórðarson og Illugi Gunnarsson væru vonarsprotar íhaldsins í umhverfismálum. Bittinú. Sama dag og Morgunblaðið krýnir Illuga sem hugmyndafræðing flokksins í umhverfismálum, setur formaðurinn hann í handlangarasæti hjá Guðlaugi Þór, stjórnarformanni Orkuveitunnar. Guðlaugur Þór hefur hins vegar enga umhverfisstefnu sett fram, aðra en hina sovéskættuðu stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins.

Í síðustu viku spurði ég hvort Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að hafa a.m.k. tvær stefnur í orkumálum – eina fyrir Illuga og aðra fyrir höfuðkommissar Orkuveitunnar Guðlaug Þór. Mér datt nú samt ekki í hug að Geir H. Haarde myndi fara að ómaka sig í sjónvarpssal til þess eins að svara þeirri spurningu játandi með jafn skýrum og ótvíræðum hætti og honum tókst í Silfrinu á sunnudag.

Birt í Fréttablaðinu 17. febrúar 2007.

17. 02 2007

Undanfarið hefur farið fram umræða um leyniviðauka við varnarsamninginn frá 1951, sem leynd var létt af nú nýverið. Í varnarsamningnum sjálfum var fullt jafnræði með samningsaðilum. Leynisamningarnir voru hins vegar annars eðlis og þar var í veigamiklum atriðum samið um ríkari réttindi Bandaríkjamönnum til handa en samrýmdust ákvæðum hins opinbera varnarsamnings og þar með landslögum. Með leyniviðaukunum sömdu íslensk stjórnvöld til dæmis um heimildir Bandaríkjamanna til að taka yfir stjórn almennrar flugstarfsemi, um að stjórnvöld myndu ekki nýta sér forrétt til lögsögu nema í sérstökum tilvikum og að Bandaríkjamönnum væri ekki skylt að skilja við varnarsvæðin í sama ástandi og þeir tóku við þeim.

Hrósa ber Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra fyrir hreinskiptni hennar í umræðu um þessi mál. Hún hefur viðurkennt að þessi samningsákvæði hafi skaðað samningsstöðu Íslands í samningum um nýjan viðbæti við varnarsamninginn í fyrra. Hún hefur einnig sagt að vera kunni að samningarnir hafi ekki staðist ákvæði stjórnarskrár og talið það lögfræðilegt úrlausnarefni. Málflutningur Geirs H. Haarde forsætisráðherra hefur verið töluvert öðruvísi. Hann hefur klifað á þeirri síðbúnu söguskýringu, sem mjög hefur verið notuð af sjálfstæðismönnum undanfarna mánuði, að slík skelfingarhætta hafi stafað af undirróðursöflum í landinu á kaldastríðstímanum að hún hafi réttlætt þessa löglausu samninga í blóra við ákvæði stjórnarskrár og leyndina yfir þeim allan þennan tíma. Þessi kenning hefur einnig verið notuð til að réttlæta ólögmætt persónueftirlit með pólitískum andstæðingum ráðandi afla um áratugaskeið.

Eftir stendur hins vegar að þetta mál er ekki eitthvert fortíðarmál, sem unnt er að sópa undir teppið með billegum skýringum. Ég fæ ekki betur séð en að viðaukinn sem þau Geir og Valgerður gengu frá í haust brjóti með sama hætti gegn 21. gr. stjórnarskrárinnar og gömlu samningarnir gerðu. Reyndar vekur athygli að texti þess samnings virðist einungis til á ensku. Jafnvel þegar menn töldu verulegt hættuástand yfirvofandi sem réttlætti komu varnarliðs, í maí 1951, gáfu menn sér tíma til að undirrita alla samninga – jafnt opinbera sem leynilega – á ensku og íslensku.

Með nýja samningnum er Bandaríkjamönnum veitt vald til að taka yfir stjórn borgaralegrar flugstarfsemi við „military contingency“, þ.e. þegar hernaðarlegar aðstæður krefjast þess. Og, þótt um samning milli tveggja fullvalda ríkja sé að ræða, eiga Bandaríkjamenn einir mat um það samkvæmt samnignum hvenær „military contingency“ er fyrir hendi. Það er rangt sem bæði Geir og Valgerður hafa haldið fram að samþykki Íslands þurfi til að Bandaríkin geti nýtt sér þetta ákvæði. Matið er skýrlega Bandaríkjamanna samkvæmt samningstextanum og Íslandi er hvergi ætlað neitt hlutverk í því mati. Ef Geir og Valgerður töldu sig vera að semja um eitthvað annað hefðu þau kannski betur spanderað í þýðingu á textanum fyrir undirritun.

Með nýja samningnum er ekki heldur hróflað við ákvæði úr gömlu leynisamningunum þess efnis að íslensk stjórnvöld hyggist ekki nýta sér lögsögu yfir brotamönnum úr liði Bandaríkjanna nema í málum er hafa sérstaka þýðingu fyrir Ísland og muni innlendum stjórnvöldum gefin fyrirmæli þar að lútandi. Þetta ákvæði er í beinni andstöðu við lögfest ákvæði viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjamanna og gengur því beint gegn landslögum. Í því felst einnig í það minnsta fyrirheit um takmörkun á refsilögsögu ríkisins.

Það er engin leið að túlka samning, sem felur í sér skuldbindingu um að afhenda yfirstjórn flugsamgangna öðru ríki við tilteknar aðstæður í blóra við íslensk lög og takmörkun á beitingu lögfestra ákvæða um inntak refsilögsögu ríkisins, öðruvísi en svo að í honum felist „afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi“ og að hann „horfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins“, eins og segir í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Slíka samninga er einungis heimilt að gera með samþykki Alþingis.

Það er því ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafi beinlínis farið út fyrir stjórnskipulegt umboð sitt við samningsgerðina nú í haust. Með öðrum orðum: Í óðagotinu sömdu þau ekki bara af sér. Þau gleymdu ekki bara að láta þýða fyrir sig textann. Þau virðast hafa brotið stjórnarskrána í leiðinni.

Birt í Morgunblaðinu 17. febrúar 2007.

13. 02 2007

Það var athyglisvert að fylgjast með Geir H. Haarde í Silfri Egils á sunnudag. Undanfarið hafa menn velt fyrir sér hvað valdi þögn hans á vettvangi stjórnmálanna. Ástæðan varð ljós í gær: Það er engin stefna í Sjálfstæðisflokknum. Og þegar enga stefnu er að hafa, er betra að láta vera að tjá sig.

Fyrir það fyrsta staðfesti Geir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu í umhverfismálum. En hann gerði meira. Hann hóf til vegs Guðlaug Þór Þórðarson, stjórnarformann Orkuveitunnar, sem nýjan hugmyndafræðing flokksins í umhverfismálum. Þar með klippti formaðurinn niður Illuga Gunnarsson, sem sýnt hefur mesta tilburði til að marka einhverja umhverfisstefnu í Sjálfstæðisflokknum undanfarnar vikur og staðfesti að metnaður íhaldsforystunnar stendur ekki til annars en að viðhalda óbreyttu ástandi. Metnaðarmál Guðlaugs Þórs í umhverfismálum eru samkvæmt heimasíðu hans að „vernda ákveðin svæði og undanskilja þau virkjunum“ og að „gera ríkari kröfur“ til að mannvirki til orkuöflunar „séu falin og lítt áberandi“. Hmmm. Hér er falin mikil og djúphugsuð framtíðarsýn. Staðreyndin er sú að Guðlaugur Þór hefur tekið við hlutverki Alfreðs Þorsteinssonar sem holdgervingur stórfelldrar orkuöflunar til stóriðju, sem niðurgreidd er af okkur skattborgurum. Hann stendur ekki fyrir neina nýja hugsun í umhverfismálum.

Í annan stað boðaði Geir áframhaldandi hagvaxtardýrkun, sem upphaf og endi efnahagsstefnunnar. Um áratugi var það stefnumið allra flokka að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Geir og Árni Matt hafa hins vegar ítrekað talað fyrir þeirri framtíðarsýn að við eigum að stefna að látlausum hagvaxtarkúfum með tilheyrandi verðbólguskotum til framtíðar. Þessi stefna sýnir að forysta Sjálfstæðisflokksins er ekki í nokkrum tengslum við veruleika venjulegs fólks sem hefur mátt þola gríðarlegar kjaraskerðingar á undanförnum árum vegna hækkandi verðtryggðra skulda í kjölfar hagstjórnarklúðurs Geirs og Árna Matt. Og þessi áhersla markar brotthvarf frá varðstöðu um efnahagslegan stöðugleika. Þess vegna verður Geir að halda dauðahaldi í verðtryggða krónu, því hún er forsenda þess að unnt sé að jafna kostnaðinum af hagstjórnarmistökunum niður á íbúðaeigendur í landinu til 40 ára.

Í þriðja lagi féll Geir á prófinu varðandi Byrgið og Breiðavík. Enginn heldur því fram að hann beri persónulega ábyrgð á því máli. En skortur hans á samlíðan með því fólki sem á um sárt að binda vegna mistaka hins opinbera í þeim málum var átakanlegur. Orðin „auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er“ segja allt sem segja þarf um skilningsleysið á örlögum þessa fólks. Fólkið á skilið afsökunarbeiðni. Ekki persónulega afsökunarbeiðni í þeim skilningi að Geir eigi að biðja afsökunar á eigin gerðum, heldur á hann í krafti síns embættis að biðja afsökunar á vanrækslu og meingerðum opinberra aðila. Það voru opinberir aðilar sem buðu vegalausu fólki upp á meðferð í Byrginu. Það voru opinberir aðilar sem hvöttu fólk til að senda börnin sín í Breiðavík. Stjórnvöld þurfa að horfast í augu við það. Undanbrögð og hundalógík eru forsætisráðherra til minnkunar.

-áp

09. 02 2007 Í síðustu viku benti ég hér á tvískinnung Sjálfstæðisflokksins í stóriðjumálum, sem stendur á bak við sovéskættað stjórnkerfi sem veitir orkufyrirtækjum óheftan og niðurgreiddan aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Ég benti á að flokkurinn gæti án tafar gert tvennt til að tryggja markaðsverð á orku og styðja við umhverfisvernd: Skilyrt heimildir orkufyrirtækja til eignarnáms við virkjanir í þágu almennings og skyldað orkufyrirtæki til að afla fjár á markaðskjörum til raforkuuppbyggingar vegna stóriðju.

Illugi Gunnarsson skrifaði grein hér í blaðið á sunnudag. Þar virðist hann taka undir annað atriðið sem ég nefndi, sem sé að afnumdar verði heimildir orkufyrirtækjanna til eignarnáms vegna virkjana í þágu stóriðju. Það mun enda þýða raunhæfari verðmyndun á þeim landgæðum sem til spillis fara við virkjanir. En hann talar um þetta í óljósum vangaveltutón („Ég hef lagt til að við skoðum það vel“). Tími vangaveltna er hins vegar liðinn því orkufyrirtækin er nú að gera orkusölusamninga á báðar hendur og undirbúa án umhugsunar að brjóta náttúruperlur undir virkjanir. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt til tafarlaust stóriðjuhlé, meðan virkunarkostir eru metnir út frá verndargildi. Illugi hlífir sér líka við umræðu um hitt vandamálið, sem er ótakmarkaður aðgangur opinberra orkufyrirtækja að erlendu lánsfé með ríkisábyrgð. Það felur í sér gríðarlega ríkisaðstoð til orkufyrirtækjanna og gerir þeim kleift að selja raforkuna á útsöluverði.

Því er rétt að spyrja aftur: Hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins? Eru vangaveltur Illuga bara prívatskoðanir hans? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn áfram að láta okkur skattborgara niðurgreiða sókn orkufyrirtækja í takmarkaðar auðlindir eða ekki? Ætlar hann áfram að koma í veg fyrir að eðlileg markaðslögmál ráði við uppbyggingu stóriðju? Er það kannski svo að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi a.m.k. að hafa tvær stefnur í orkumálum – eina fyrir Illuga og aðra fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, formann Orkuveitu Reykjavíkur?

Birt í Fréttablaðinu 8. febrúar 2007.
07. 02 2007

Í fyrradag fór fram á Alþingi umræða um leyniviðauka við varnarsamninginn frá 1951. Í varnarsamningnum sjálfum var fullt jafnræði með samningsaðilum. Leynisamningarnir voru hins vegar annars eðlis og þar var í veigamiklum atriðum samið um ríkari réttindi Bandaríkjamönnum til handa en samrýmdust ákvæðum hins opinbera varnarsamnings og þar með landslögum. Með leyniviðaukunum sömdu íslensk stjórnvöld til dæmis um heimildir Bandaríkjamanna til að taka yfir stjórn almennrar flugstarfsemi, um að stjórnvöld myndu ekki nýta sér forrétt til lögsögu nema í sérstökum tilvikum og að Bandaríkjamönnum væri ekki skylt að skilja við varnarsvæðin í sama ástandi og þeir tóku við þeim.

Hrósa ber Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra fyrir hreinskiptni hennar í umræðunni. Þar gat hún þess meðal annars að þessi samningsákvæði hefðu skaðað samningsstöðu Íslands í samningum um nýjan viðbæti við varnarsamninginn í fyrra. Hún taldi einnig að vera kynni að samningarnir stæðust ekki ákvæði stjórnarskrár og taldi það lögfræðilegt úrlausnarefni. Málflutningur Geirs H. Haarde forsætisráðherra var töluvert öðruvísi. Þar klifaði hann á þeirri síðbúnu söguskýringu, sem mjög hefur verið notuð af sjálfstæðismönnum undanfarna mánuði, að slík skelfingarhætta hafi stafað af undirróðursöflum í landinu á kaldastríðstímanum að hún hafi réttlætt þessa löglausu samninga í blóra við ákvæði stjórnarskrár og leyndina yfir þeim allan þennan tíma. Þessi kenning hefur einnig verið notuð til að réttlæta ólögmætt persónueftirlit með pólitískum andstæðingum ráðandi afla um áratugaskeið.

Eftir stendur hins vegar að þetta mál er ekki eitthvert fortíðarmál, sem unnt er að sópa undir teppið með svo billegum skýringum. Ég fæ ekki betur séð en að viðaukinn sem þau Geir og Valgerður gengu frá í haust brjóti með sama hætti gegn 21. gr. stjórnarskrárinnar og gömlu samningarnir gerðu. Reyndar vekur athygli að texti þess samnings virðist einungis til á ensku. Jafnvel þegar menn töldu verulegt hættuástand yfirvofandi sem réttlætti komu varnarliðs, í maí 1951, gáfu menn sér tíma til að undirrita alla samninga – jafnt opinbera sem leynilega – á ensku og íslensku.

Með nýja samningnum er Bandaríkjamönnum veitt vald til að taka yfir stjórn borgaralegrar flugstarfsemi við „military contingency“, þ.e. þegar hernaðarlegar aðstæður krefjast þess. Og, þótt um samning milli tveggja fullvalda ríkja sé að ræða, eiga Bandaríkjamenn einir mat um það samkvæmt samnignum hvenær „military coningency“ er fyrir hendi. Það er rangt sem bæði Geir og Valgerður hafa haldið fram að samþykki Íslands þurfi til að Bandaríkin geti nýtt sér þetta ákvæði. Matið er skýrlega Bandaríkjamanna samkvæmt samningstextanum og Íslandi er hvergi ætlað neitt hlutverk í því mati. Ef Geir og Valgerður töldu sig vera að semja um eitthvað annað hefðu þau kannski betur spanderað í þýðingu á textanum fyrir undirritun.

Með nýja samningnum er ekki heldur hróflað við ákvæði úr gömlu leynisamningunum þess efnis að íslensk stjórnvöld hyggist ekki nýta sér lögsögu yfir brotamönnum úr liði Bandaríkjanna nema í málum er hafa sérstaka þýðingu fyrir Ísland og muni innlendum stjórnvöldum gefin fyrirmæli þar að lútandi. Þetta ákvæði er í beinni andstöðu við lögfest ákvæði viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjamanna og gengur því beint gegn landslögum. Í því felst einnig í það minnsta fyrirheit um takmörkun á refsilögsögu ríkisins.

Það er engin leið að túlka samning, sem felur í sér skuldbindingu um að afhenda yfirstjórn flugsamgangna öðru ríki við tilteknar aðstæður í blóra við íslensk lög og takmörkun á beitingu lögfestra ákvæða um inntak refsilögsögu ríkisins, öðruvísi en svo að í honum felist „afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi“ og að hann „horfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins“, eins og segir í 21. gr. stjórnarskrárinnar. Slíka samninga er einungis heimilt að gera með samþykki Alþingis.

Það er því ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafi beinlínis farið út fyrir stjórnskipulegt umboð sitt við samningsgerðina nú í haust. Með öðrum orðum: Í óðagotinu sömdu þau ekki bara af sér. Þau gleymdu ekki bara að láta þýða fyrir sig textann. Þau virðast hafa brotið stjórnarskrána í leiðinni.

-áp

04. 02 2007

Í grein í Fréttablaðinu í dag fjallar Illugi Gunnarsson um eignaréttindi og orkufyrirtækin. Þar ræðir Illugi í almennum orðum að til greina geti komið að banna orkufyrirtækjum að nýta eignarnámsheimildir við öflun orku til sölu til stóriðju. Illugi er hins vegar fjarri því að vera tilbúinn að kveða upp úr um þetta atriði, því hjá honum er þetta allt á umræðustiginu. Hann segir orðrétt: „ Ég hef lagt til að við skoðum það vel hvort ekki eigi að takmarka ..“.

Nú er það svo að tími þess að „skoða vel“ jafn sjálfsagða hluti og hér um ræðir er liðinn. Fyrir dyrum eru stórslys í orkunýtingarmálum, ef ekkert verður að gert. Orkufyrirtækin keppast við að gera orkusölusamninga og undirbúa virkjanir, sem ganga munu á mikilvægar náttúruperlur ef ekkert verður að gert. Enginn hemill er í dag í löggjöf til að hindra skefjalausa sókn orkufyrirtækjanna hvert sem þau vilja. Samfylkingin hefur lagt til stóriðjuhlé á meðan að virkjunarkostir eru metnir og þeim raðað eftir verndargildi. Við bíðum þess að aðrir flokkar tali jafn skýrt.

Ég ítreka það sem ég sagði í síðustu viku: Ef Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með gjálfri um áhuga á umhverfismálum er einfalt að grípa til aðgerða. Valdið er í þeirra höndum. Vangaveltur og umhugsunarferli Illuga benda hins vegar ekki til að mikils sé að vænta úr þeirri átt.

Sjálfstæðisflokkurinn getur hins vegar ekki lengur falið sig á bak við Framsóknarflokkinn þegar um stefnumörkun í orkumálum og umhverfismálum er að ræða. Þetta stefnulausa hagsmunabandalag verður að fara segja okkur hvað þeir ætla sér í umhverfismálum – ef þeir ætla sér þá á annað borð eitthvað.

01. 02 2007

Forystumenn stjórnarflokkanna klifa nú á því að engin stóriðjustefna sé rekin af hálfu hins opinbera og ákvarðanir um virkjanir séu teknar í frjálsum viðskiptum milli orkukaupenda og orkufyrirtækja. Þetta er tómur þvættingur. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um sovéskt efnahagskerfi í stóriðjusölu.

Opinber orkufyrirtæki hafa notið sérréttinda til að reka raforkuver og hitaveitur. Þessara réttinda var upphaflega þörf til að tryggja okkur öllum ljós og hita í hús og orku til innlendrar atvinnustarfsemi. Í krafti þeirra höfðu fyrirtækin möguleika til að taka nauðsynlegar auðlindir eignarnámi og afla fjár til þeirra verkefna með ríkisábyrgð.

Lítum á staðreyndir. Opinber orkufyrirtæki geta krafist eignarnáms á orkulindum sem þau vilja nota við orkuöflun til stóriðju. Ákvæði um eignarnám, sem sett voru til að tryggja öflun á orku til íslensks almennings, eru í dag misnotuð til að fyrirtækin geti sölsað undir sig orkuauðlindir án þess að greiða umráðamönnum þeirra markaðsverð í frjálsum viðskiptum. Þessi fyrirtæki afla sér ekki heldur lánsfjár á markaðskjörum, þar sem þau njóta ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga. Skattgreiðendur niðurgreiða því orkusölu til stóriðju. Þess vegna þarf aldrei að upplýsa um orkuverð, því erlendir lánadrottnar líta svo á þeir séu að lána ríkinu peningana.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með sífri sínu um mikilvægi markaðslausna og nýfundinn áhuga á umhverfismálum getur hann gert tvennt í skyndi: Afnumið heimildir orkufyrirtækja til eignarnáms nema þegar um er að ræða virkjanir í þágu almennings og bannað orkufyrirtækjum að afla fjár til raforkuuppbyggingar vegna stóriðju nema með því að stofna um hana sérstök hlutafélög, sem þyrftu þá að afla fjár á markaðskjörum. Og þá myndi lítið þýða að halda orkuverðinu leyndu fyrir erlendum fjárfestum.

Þetta myndi marka fyrstu teiknin um fráhvarf Sjálfstæðisflokksins frá sovéskum stjórnarháttum í efnahags- og atvinnulífi.

Birt í Fréttablaðinu, 1. febrúar 2007.