27. 04 2007

Sigurður Kári Kristjánsson skrifar grein hér í blaðið sl. mánudag og lýsir þar sérkennilegri könnun Capacent Gallup á viðhorfi fólks til skattamála sem rothöggi á meinta „skattastefnu“ vinstri flokkanna. Klappstýrur kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins á ritstjórn Morgunblaðsins höfðu í forystugrein á laugardag og í Reykjavíkurbréfi á sunnudag einnig dregið víðtækar ályktanir af þessari könnun, án nokkurra skynsamlegra forsendna.

Könnun Capacent segir nefnilega nokkurn veginn ekki neitt. Hún sýndi að 74% þjóðarinnar taldi tekjuskatt of háan. Það segir í sjálfu sér ekkert – ætli okkur finnist ekki öllum óþarfi að borga meira en við nauðsynlega þurfum í skatt. Á hinn bóginn vill mikill meiri hluti þjóðarinnar betri velferðarþjónustu. Faglega boðleg skoðanakönnun hefði því spurt annarar spurningar í kjölfarið, sem er sú hvort afstaða fólks væri önnur ef ljóst væri að lægri skattur hefði í för með sér lakari velferðarþjónustu.

Helsta afrek Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum undanfarin kjörtímabil felst í víðtækri biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar. Bið eftir hjartaþræðingu er hálft ár, lengri eftir heyrnartækjum og liðskiptaaðgerðum, eitt og hálft ár eftir plássi á BUGL. Engu að síður er helsta markmið heittrúarmanna í Sjálfstæðisflokknum að bæta enn í þegar loforð um skattalækkanir eru annars vegar.

Staðreynd málsins er sú að bætt staða ríkissjóðs undanfarin ár stafar fyrst og fremst af auknum skatttekjum vegna ofþenslunnar, en ekki af hagræðingaraðgerðum eða aðhaldi í ríkisútgjöldum. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa ýtt undir verðbólgu og grafið undan tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Þess vegna er spáð halla á ríkissjóði strax á næsta ári – beint í kjölfar mesta uppgripaskeiðs Íslandssögunnar. Sú staðreynd er óbrotgjarn minnisvarði um efnahagsklúður Sjálfstæðisflokksins.

Frjálshyggjumódel Sjálfstæðisflokksins er einfalt: Endalaus ofþensla og eignasala til að fjármagna skattalækkanir. Þessi efnahagsstefna hefur verið reynd áður – í tíð Reagans og Thatchers. Árangursleysi hennar hefur verið staðfest með eftirminnilegum hætti í stjórnartíð Clintons og Blairs. Það kom í hlut jafnaðarmanna að endurreisa velferðarkerfið í Bretlandi eftir að ofsatrúarmenn skattalækkana höfðu unnið á því óbætanlegan skaða. Spurningin er hversu lengi íslenskir kjósendur ætla að láta innlenda trúbræður þeirra leika lausum hala.

Birt í Morgunblaðinu 27. apríl 2007.

26. 04 2007 Morgunblaðið hrósar í forystugrein forystu stjórnarflokkanna fyrir að taka nú í aðdraganda kosninga hvert úrbótafyrirheit stjórnarandstöðunnar og gera það að sínu. Þetta telur Morgunblaðið góð vinnubrögð því í lýðræðisríki byggi stjórnmál á málamiðlunum.

Á þessu máli er önnur hlið.

Hún er sú að ríkisstjórnarflokkarnir skrumskæla lýðræðið með þessari aðferðafræði. Þeir koma nú fram á völlinn – Sjálfstæðisflokkurinn farinn að sýna hinn litförótta fálka í rauðum lit – og lofa annari stjórnarstefnu en rekin hefur verið. Fyrir vikið fær almenningur í landinu ekki að kjósa milli ólíkra kosta og ríkisstjórnin þarf ekki að standa reikningsskil gerða sinna.

Stjórnmálaflokkar eiga að rækja skyldur sínar við almenning með samráði og samræðu á kjörtímabilinu, ekki með því að hlaupast frá verkum sínum rétt fyrir kosningar. Sú ríkisstjórn sem nú fer frá hefur einstæða afrekaskrá í að forsóma lýðræðisleg vinnubrögð – hvort heldur er í fjölmiðlamálinu, meðferð viðræðna við Bandaríkin um varnarmál, samskiptum við aldraða eða í stuðningi við Íraksstríðið.

Annar ókostur er sá að reikningsdæmið gengur ekki upp. Sjálfstæðisflokkurinn lofar framkvæmdum og úrbótum í almannaþjónustu, sem hann hefur sjálfur vanrækt. Hann lofar líka skattalækkunum. Hins vegar blasir við halli á ríkissjóði strax á næsta ári, vegna efnahagsmistaka ríkisstjórnarinnar. Ef Samfylkingin yrði ber að slíku ábyrgðarleysi er ég hræddur um að heyrast ritstjóri Morgunblaðsins myndi kalla eftir skýringum á slíku ósamræmi.

Kjósendur þurfa að velja. Annars vegar eru stjórnarflokkarnir eins og samviskulausir síbrotamenn sem lofa enn á ný því sem líka var lofað síðast og þarsíðast. Hins vegar er Samfylkingin sem leggur fram skýra sýn um öflugt alþjóðavætt atvinnulíf, uppbyggingu almannaþjónustu og afnám biðlistavæðingar íhaldsins. Hvor skyldi nú vera trúverðugri kostur?

Birt í Morgunblaðinu 26. apríl 2007.
24. 04 2007 Fyrir alþingiskosningarnar 1979 lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram stefnuskrá undir yfirskriftinni „Leiftursókn gegn verðbólgu“. Stefnuskráin fólst í efnahagsstefnu sem ættuð var frá Thatcher og Reagan. Skemmst er frá því að segja að kjósendur höfnuðu þeirri stefnumörkun með eftirminnilegum hætti og uppnefndu hana „Leiftursókn gegn lífskjörum“.

Felulitir Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn lærði af mistökunum 1979. Síðan þá hefur flokkurinn aldrei lagt fram heildstæða stefnuskrá, heldur látið duga almennt hjal um flest mál. En það er ekki þar með sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipt um stefnu. Þvert á móti virðist flest benda til að undir meinleysislegu og letilegu yfirborði flokksins fyrir þessar kosningar búi ígrunduð stefna um aukna misskiptingu í samfélaginu, þar sem verstu þættir efnahagsstefnu Margrétar Thatcher eru leiddir til öndvegis á Íslandi.
Helsta afrek Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum undanfarin kjörtímabil felst í víðtækri biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar. Bið eftir hjartaþræðingu er hálft ár, lengri eftir heyrnartækjum og liðskiptaaðgerðum, eitt og hálft ár eftir plássi á BUGL. Engu að síður er helsta markmið heittrúarmanna í Sjálfstæðisflokknum að bæta enn í þegar loforð um skattalækkanir eru annars vegar.

Hallarekstur blasir við
Staðreynd málsins er sú að bætt staða ríkissjóðs undanfarin ár stafar fyrst og fremst af auknum skatttekjum vegna ofþenslunnar, en ekki af hagræðingaraðgerðum eða aðhaldi í ríkisútgjöldum. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa ýtt undir verðbólgu og grafið undan tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Þess vegna er spáð halla á ríkissjóði strax á næsta ári – beint í kjölfar mesta uppgripaskeiðs Íslandssögunnar. Sjálfstæðisflokknum hefur þannig tekist að klúðra þessu mikla vaxtarskeiði og glata tækifærinu til að leggja með því grunn að efnahagslegri velferð þjóðarinnar til lengri tíma litið.
Frjálshyggjumódel Sjálfstæðisflokksins er einfalt: Endalaus ofþensla og eignasala til að fjármagna skattalækkanir. Þessi efnahagsstefna hefur verið reynd áður – í tíð Reagans og Thatchers. Árangursleysi hennar hefur verið staðfest með eftirminnilegum hætti í stjórnartíð Clintons og Blairs. Það kom í hlut jafnaðarmanna að endurreisa velferðarkerfið í Bretlandi eftir að ofsatrúarmenn skattalækkana höfðu unnið á því óbætanlegan skaða. Ef nú bætist við enn eitt kjörtímabil vanrækslu í velferðarmálum er hætt við að við stöndum eftir með enn meiri misskiptingu og enn stærri hópa sem lenda milli stafs og hurðar á biðlistum Sjálfstæðisflokksins.

Vanrækslusyndir íhaldsins
Það er ljóst að forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hugrekki í leiftursókn. En hún hefur með hjálp metnaðarlauss meðreiðarflokks unnið mikið tjón á almannaþjónustu í landinu. Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er sú hvort við viljum haga efnahagsstefnu okkar eftir úreltum kreddum um skattalækkanir sem aflgjafa efnahagslífsins eða byggja upp samfélag samstöðu um stöðugleika og tækifæri fyrir alla , sem byggir á sjálfbærum hagvexti og fjölbreyttu atvinnulífi.

Birt í DV 24. apríl 2007.
23. 04 2007 Ég var að koma af góðum fundi eldri borgara í Mosfellsbæ með frambjóðendum úr öllum flokkum.

Það sem einkennir málflutning Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að báðir flokkarnir eru nú á harðahlaupum undan verkum sínum í ríkisstjórn. Þeir koma og lofa endurmati á skerðingum vegna atvinnutekna eða lífeyrisgreiðslna, sem þeir lofuðu í síðustu kosningum. Samt lofuðu þeir því í stjórnarsáttmálanum.

Og þegar Katrín Júlíusdóttir minnti Ragnheiði Ríkharðsdóttur á að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu fellt tillögu stjórnarandstöðunnar til úrbóta í þessu efni á þingi í haust sagðist Ragnheiður nú bara vera að tjá sína eigin skoðun. Þrátt fyrir mannval úr röðum ríkisstjórnarflokkanna á fundinum - þarna voru þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og Siv Friðleifsdóttir - gat enginn stjórnarsinni útskýrt af hverju tillögur stjórnarandstöðunnar voru felldar í haust en áþekkum úrlausnum nú lofað af stjórnarflokkunum.

Í ræðu minni minnti ég á að þegar jafnaðarmenn hófu uppbyggingu velferðarkerfisins í stjórn hinna vinnandi stétta hafi markmiðið verið að binda enda á hreppaflutninga og aðrar ómennskar aðgerðir gagnvart fátæku fólki.

Það er nöpur staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir hafa endurvakið hreppaflutninga sem meginreglu í velferðarþjónustu við aldraða. Aldraðir Mosfellingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými mega sæta því að vera fluttir nauðungarflutningum í Stykkishólm eða Vík, því enga vist er að fá í heimabyggð. 1000 manns búa í nauðungarsambúð með ókunnugu fólki á hjúkrunarheimilum.

Þetta er óbrotgjarn minnisvarði um afrek Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í velferðarmálum, eftir einstakt hagvaxtarskeið. Nú koma ríkisstjórnarflokkarnir aftur - eins og samviskulausir síbrotamenn - og lofa því sama og síðast og þarsíðast. Mér finnst nú hins vegar komið að reikningsskilum.

-áp
22. 04 2007

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir m.a.: „Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og Sjálfstæðisflokkurinn mun sem endranær standa vörð um þau gildi sem gott fjölskyldulíf byggir á. Samvera fjölskyldunnar, heilbrigð og uppbyggjandi afþreying, góðir skólar, auðvelt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og öruggt umhverfi eru dýrmæt og eftirsóknarverð lífsgæði.“

Aðför að barnafjölskyldum
Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár hefur þrengt að barnafjölskyldum með margvíslegum hætti. Í síðustu viku rakti ég hér hvernig hagstjórnarmistök dúettsins Davíðs og Geirs hefðu valdið heimatilbúinni ofþenslu sem leitt hefur af sér ofurvexti og verðbólgu. Þessi hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokksins hafa bitnað verst á fólki sem stendur í íbúðakaupum og greiðir af verðtryggðum lánum. Það fólk er almennt líka það fólk sem sinnir uppvexti barna í ríkustum mæli.
Þetta er verðbólguskattur Sjálfstæðisflokksins sem hefur valdið hækkun verðtryggðra lána og því þyngri afborgunum. Vextir yfirdráttarlána eru á þriðja tug prósenta. Þetta heimatilbúna okurvaxtaumhverfi á sér enga hliðstæðu í löndum sem við höfum áhuga á að bera okkur saman við.

Húsnæðislánaklúður af verstu sort
Mistök ríkisstjórnarinnar á lánamarkaði valda því að barnafjölskyldur landsins borga nú upp undir tvöfalt hærra verð fyrir sama húsnæði en fyrir fjórum árum. Með öðrum orðum: Við búum í sömu íbúðunum – en þær eru bara tvöfalt dýrari og afborganirnar margfalt hærri. Þetta er sannarlega „kaupmáttaraukning“ og „framfarasókn“ sem bragð er að, svo vitnað sé í tvo margtuggna orðaleppa úr landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins.
Fjöldi barnafjölskyldna sem áður naut vaxtabóta til að létta greiðslubyrði vegna afborgana húsnæðislána hefur nú misst vaxtabætur vegna hækkandi húsnæðisverðs. En þótt húsið sem þú býrð í sé dýrara en áður ert þú engu bættari. Þú þarft eftir sem áður stað til að búa á og annað húsnæði hefur hækkað jafn mikið og þitt eigið.

Yfirvinna í boði Davíðs og Geirs
Geir Haarde talar af nokkrum þjósti um mikla „kaupmáttaraukningu almennings“ þegar efnahagsklúður hans og Davíðs er gagnrýnt. Vera kann að unnt sé að reikna einhverja meðaltalskaupmáttaraukningu sem máli skiptir. Slíkur reikningur tekur þá ekki með í reikninginn að meðaltals„almenningurinn“ – þessi sem er með annan fótinn í eldi og hinn í ís – er ekki til. Sá „almenningur“ sem elur upp börn og kaupir sér íbúð þekkir annan veruleika og í honum er ekki allt útmakað í „samveru fjölskyldunnar, heilbrigðri og uppbyggjandi afþreyingu“ svo vitnað sé aftur í hina sykurklístruðu stemmningu úr landsfundarályktun Geirs. Vinnudagurinn lengist stöðugt. Aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Heimilin eru skuldsettari en nokkru sinni fyrr. Það er hinn kaldi veruleiki.

Birt í DV 17. apríl 2007.

16. 04 2007 Landsfundur Samfylkingarinnar um helgina var glæsileg samkoma. Umgjörð og skipulag var allt til fyrirmyndar. Aukafundir í tengslum við landsfundinn voru áhugaverðir og starf í vinnuhópum gott. Setningarathöfnin var sérstaklega glæsileg og ræður Helle Thorning-Schmidt og Monu Sahlin voru góðar. Hápunktur landsfundarins í mínum huga var hins vegar lokaávarp Ingibjargar Sólrúnar. Þar talaði hún um að flokkurinn væri nú fullburða jafnaðarmannaflokkur og brýndi flokksmenn alla til sóknar fyrir lokahnykk kosningabaráttunnar. Hún færði þau rök fyrir því að flokksmenn hefðu sýnt þann styrk að mæta vel á landsfundinn þrátt fyrir andbyr undanfarinna vikna.
Ég get tekið undir það að helsta undrunarefni mitt var hin mikla aðsókn sem var að fundinum. Það var ofar öllum vonum að fá hátt í tvö þúsund manns við setningarathöfnina. Hitt fannst mér ótrúlegra að aldrei skyldu fara undir 200-300 manns í salnum á laugardeginum og að þegar mest var skyldi vera í kringum þúsundið í húsinu.
Það var hins vegar viðbúið að hælbítar íhaldsins myndu reyna að kasta rýrð á landsfundinn. Fjörugar umræður hafa risið í bloggheimum um fundarsóknina eftir að myndin hér til hliðar af okkur Ingibjörgu Sólrúnu birtist á mbl.is og hafa sumir efast um fundarsókn í ljósi myndarinnar. Áhyggjufullum til hugarhægðar skal upplýst að við sitjum þarna við aftasta borðið í salnum og klukkan er um 9.35 á laugardagsmorgni. Á dagskrá var skýrsla gjaldkera og samþykkt reikninga. Tímasetningin og þokki umræðuefnisins útskýra væntanlega hvers vegna ekki er þröng á þingi.
14. 04 2007 Landsfundur Samfylkingarinnar stendur nú yfir í Egilshöll. Hátt í tvö þúsund manns mættu þar við setningarathöfnina í gær. Fremst meðal jafninga var náttúrulega Ingibjörg Sólrún. Sú staðreynd að leiðtogar sænskra og danskra jafnaðarmanna Mona Sahlin og Helle Thorning-Schmidt mæti til Landsfundarins segir meira en mörg orð um hlutverk Samfylkingarinnar sem burðarflokkur jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Þær stöllur skynja þörf þess að jafnaðarmenn fái lykilhlutverk í íslensku samfélagi til að snúa við sérhagsmunahyggju Sjálfstæðisflokksins. Til þess duga ekki skoðanaglaðir upphlaupsflokkar. Til þess verks þarf jafnaðarmannaflokk sem getur sett fram trúverðugar lausnir.
10. 04 2007 Í morgun var ég gestur Jóhanns Haukssonar í Morgunhananum á Útvarpi Sögu. Einfalt er að hlusta á viðtalið á vefsíðu Morgunhanans

Í viðtalinu lagði ég áherslu á að hryggjarstykkið í ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks hlyti að vera Samfylkingin. Jóhann hafði mikinn áhuga á nýlegum útleggingum felulitafræðinga Sjálfstæðisflokksins - Hannesar Hólmsteins og Illuga Gunnarssonar - þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn væri í reynd bara ósköp notalegur jafnaðarmannaflokkur.

Ég lagði áherslu á að þetta væri frekar ósvífin tilraun til að setja stefnu Sjálfstæðisflokknum fram undir fölsku flaggi. Nýjustu loforð Sjálfstæðismanna um frekari skattalækkanir á sama tíma og ekki er hægt vegna fjárskorts að bjóða upp á lágmarks velferðarþjónustu sýni þvert á móti einbeittan brotavilja íhaldsins í þá átt að grafa undan samfélagslegri samstöðu um fjármögnun velferðarþjónustunnar og brjóta þannig undan samstöðu um velferðarkerfi fyrir alla, óháð efnahag.

-áp
10. 04 2007 Skynsamleg hagstjórn felst í að ríkisstjórn hagi efnahagsstefnu í samræmi við þróun hagsveiflunnar. Ríkið á að halda að sér höndum á uppgangstímum, til að auka ekki á verðbólguþrýsting og leitast við að draga úr opinberum framkvæmdum sem geta beðið. Á samdráttartímum skiptir með sama hætti miklu að ríkið hrindi í framkvæmd arðbærum verklegum framkvæmdum og hlutist til um kerfisbreytingar sem örvað geti hagkerfið. Þetta er grunnur hins blandaða hagkerfis sem jafnaðarmenn hafa þróað á Vesturlöndum á undanförnum áratugum. Þessi hugmyndafræði lá að baki þjóðarsáttinni á sínum tíma og var fylgt hér á landi allt fram á síðustu ár.
Undanfarna áratugi hefur verið samstaða meðal helstu stjórnmálaafla hér á landi um að stöðugleiki í efnahagsstjórn væri mikilvægasta markmiðið. Núverandi ríkisstjórn hefur horfið frá þeirri stefnumörkun. Það er þeim mun alvarlegra þegar haft er í huga að sú stefnubreyting verður á sama tíma og mjög reynir á í efnahagsstjórninni í kjölfar aukinnar alþjóðavæðingar íslensks atvinnulífs og óheftra fjármagnsflutninga.

Óvitar með eldfæri
Ríkisstjórnin hefur sýnt fádæma lausatök í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Allir vissu í upphafi kjörtímabilsins að fyrir dyrum væru stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar og því myndi reyna mjög á agaða stjórn á ríkisfjármálum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kynt undir þenslu með stórfelldri aukningu ríkisútgjalda og skattalækkunum, sem engin innistæða er fyrir. Að því leyti hafa Geir Haarde og Davíð Oddsson minnt á óvita með eldspýtur og bensínbrúsa.
Ríkisstjórnin hefur heykst á því að leggja í sjóð til seinni tíma. Við sölu Landssímans gafst ríkinu einstakt tækifæri til að draga úr þenslu með því að taka það fé úr umferð, til dæmis með því að nýta féð til að greiða inn á skuld ríkisins vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga. Það var ekki gert. Þvert á móti var lofað eyðsluveislu með fyrirheiti um framlög í ýmis misarðbær og misskynsamleg verkefni.

Kjaraskerðing er afleiðingin
Lausatök ríkisstjórnarinnar á efnahagsmálunum hafa verið mikið áhyggjuefni öllum þeim sem vit hafa á og fylgst hafa með. Sérfræðingar OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ítrekað gert athugasemdir við þessi lausatök árum sama. Sérfræðingar innlendra greiningardeilda hafa tekið í sama streng. Aðilar vinnumarkaðarins tóku fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar með endurnýjun kjarasamninga í upphafi síðasta árs og komu þannig í veg fyrir verðbólgubál – að sinni að minnsta kosti. Nú síðast lækkaði matsfyrirtækið Fitch lánshæfismat íslenska ríkisins og vísaði í niðurstöðu sinni til skorts á trúverðugleika í hagstjórn ríkisins.
Almenningur fær að finna fyrir afleiðingum þessara mistaka með rýrnandi kaupmætti vegna hækkandi verðtryggðra skulda og hækkandi íbúðaverðs. Einstöku góðæri hefur verið sólundað með agaleysi í efnahagsstjórn. Eftir standa heimilin skuldsettari en nokkru sinni fyrr og atvinnulíf í fjötrum ofurvaxta. Við eigum betra skilið.

Birt í DV 10. apríl 2007.
08. 04 2007

Píslarsagan - Jóhannesarguðspjall, 18. 1-27.
Í píslarsögunni greinir frá atburðum einnar viku. Hún hefst með innreið Jesú í Jerúsalem þegar mannfjöldinn fagnar komu hans. Og áður en henni er lokið fagnar múgurinn krossfestingu Krists. Breyskleiki mannsins verður aldrei skýrari en í þessari mótsögn. Sömu ættar er afneitun Símonar Péturs, þegar hann getur ekki gengist við samfylgd sinni við Jesú og afneitar honum í þrígang.

Úr mannkynssögunni þekkjum við mýmörg dæmi um að illa upplýstur múgur taki svari hins illa. Sem lýðræðisþjóð þekkjum við hins vegar fleiri dæmi þess að fjöldinn taki ákvarðanir sem sómi  er að. Eitt dæmi um slíkt er glæsileg atkvæðagreiðsla að lokinni málefnalegri umfjöllun hér í Hafnarfirði um síðustu helgi. En hvað er það sem skilum á milli hins óupplýsta múgs og hins upplýsta fjölda? Það er fyrst og síðast upplýsingin og skoðanafrelsið og umgjörð skoðanaskipta. Ef vel er að staðið verður niðurstaðan góð. Ef umgjörðin er skökk, fólk ekki virt skoðana sinna og það rekið eins og fé í rétt verður niðurstaðan vond.

Öll vitum við að það er freistandi að segja að segja það sem fleiri segja – synda með straumnum. Þess vegna getur raunverulegt lýðræði og lýðfrelsi aldrei þrifist nema fólki sé gert kleift að vera á öndverðum meiði. Það þarf að vera ásættanlegt - jafnvel beinlínis æskilegt - að halda fram ólíkum skoðunum, svo fremi þær meiði ekki meðbræður okkar eða systur. Þess vegna skiptir svo miklu að fólk geti tjáð hug sinn allan og skoðanir sínar í jafnt í daglegu lífi og í þjóðmálaumræðu án þess að hljóta að launum aðfinnslur, útásetningar eða háðsglósur frá handhöfum framkvæmdavaldsins. Því ef þeir falla í þá freistni ógnum við öllu gangverki samfélagsins. Þá skapast umgjörð ótta sem heldur fólki frá því að standa með sjálfu sér.

Kristur er táknmynd um andstöðuna við múghugsunina. Hann kallar söfnuð sinn til vitnis um að boðskap hans er ekki hagað eftir því sem vindurinn blæs og þorir þannig að standa við skoðanir sínar öfugt við Símon Pétur. Hann talar óhræddur í sama tóni við handhafa valdsins, æðstaprestinn, og við almúgamenn. Þá fyrirmynd eigum við að leitast við hafa í heiðri.

Að stofni til hugvekja flutt í Hafnarfjarðarkirkju á föstudaginn langa.

04. 04 2007

Samfylkingin er höfuðmótvægið við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskum stjórnmálum. Hún berst í senn fyrir bættum kjörum þeirra sem lakar standa og fyrir þróttmiklu og alþjóðavæddu atvinnulífi. Hún er ein um að sameina kröfur ólíkra samfélagshópa um bættar aðstæður öflugri varðstöðu um almannahagsmuni.

Sjálfstæðisflokkurinn er nú sem aldrei fyrr stefnulaust hagsmunabandalag um völd. Hann getur hins vegar freistað þess að halda óbreyttu ástandi, fái hann til þess meðreiðarflokk. Spurningin er hvort VG ætli að verða hinn nýji Framsóknarflokkur?

Hróplegur munur á orðum og efndum einkennir stjórnarhætti VG í Mosfellsbæ. Sú harkalega gagnrýni sem þeir eru þekktir fyrir í stjórnarandstöðu og linnulítið gort þeirra um eigin ágæti og hugsjónafestu er í hróplegri andstöðu við það hugsjónaleysi sem þeir sýna þegar þeim er hleypt að meirihlutaákvörðunum í Mosfellsbæ. Þá er allt falt. Náttúran á að njóta vafans – alls staðar nema í Mosfellsbæ. Umhverfismat á ávallt að fara fram í vafatilfellum – nema í Mosfellsbæ.

Fullkomin samstaða er milli íhalds og VG um afturhald og einangrunarhyggju í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Þeir virðast líka frekar tilbúnir að hrekja öflug fyrirtæki úr landi, en að breyta hagstjórnaraðferðum í þá átt að samrýmist alþjóðavæddu atvinnulífi.

Stefna Samfylkingarinnar byggir á metnaðarfullri þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi, agaðri hagstjórn og aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópskum veruleika. Við skulum vinna þeirri stefnu fylgi og gera allt sem við getum til að Mosfellsbæjarmódelið verði ekki yfirfært á landsstjórnina eftir næstu kosningar. Það er eina afurð Mosfellsbæjar sem ekki er til útflutnings.

Birt í Mosfellingi, 4. apríl 2007.

03. 04 2007

Margrét Pála Ólafsdóttir, skólafrömuður, kom róti á huga margra í síðustu viku. Hún benti á að miðstýrð ríkisrekin stjórnkerfi velferðarþjónustunnar væru helsti Þrándur í götu raunverulegs kvenfrelsis. Fyrir nokkrum áratugum var hlutur kynjanna í störfum hjá hinu opinbera jafnari. Síðan hefur það gerst að fjölmörg verkefni sem áður voru í höndum opinberra aðila eru nú boðin út. Þeim verkefnum er í ríkari mæli sinnt af körlum. Hið opinbera kerfi hefur síðan orðið sífellt miðstýrðara. Konur eru nú í miklum meirihluta meðal starfsmanna í velferðarþjónustu, en karlarnir hlutfallslega fleiri í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera. Konurnar eru því „vinnukonur kerfisins“ og ráða litlu um sitt nánasta umhverfi.

Miðstýrt skólakerfi
Staðreyndin er sú að rekstrarkerfi velferðarþjónustunnar hér á landi er með því miðstýrðasta sem þekkist í lýðfrjálsu landi. Nær öll börn eru í skólum sem reknir eru af hinu opinbera. Skólastjórnendur og kennarar hafa sífellt minna ráð yfir tíma sínum og eru bundin af ósveigjanlegri aðalnámskrá. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft með höndum stjórn menntamála í 20 ár af síðustu 23 árum. Afraksturinn er einhæft menntakerfi, lítil fjölbreytni og fá tækifæri. Brottfall úr framhaldsskólum er meira en í nokkru öðru Evrópuríki. Með öflugri mótstöðu Samfylkingarinnar tókst að hrinda síðustu atlögu menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að sjálfstæðri hugsun í skólamálum: Samræmdum stúdentsprófum. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi stundum gefið undir fótinn með aukið frjálsræði í rekstri skóla hefur aldrei komið til mála af hálfu flokksins að létta hinni dauðu hönd miðstýringar af námsframboðinu.

Miðstýrt heilbrigðiskerfi
Í heilbrigðiskerfinu höfum við tekið upp miðstýringu sem á engan sinn líka í Vesturálfu. Ríkisspítalar eru óstjórnhæft bákn þar sem starfsánægja fólks mælist ótrúlega lág og valdleysi er algert. Tröllaukin stærð spítalans í þessu litla landi hefur sett annari heilbrigðisstarfsemi óeðlilegar skorður. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa enga framtíðarsýn um þróun heilbrigðisþjónustunnar, ef frá eru talin lítt hugsuð áform um nýtt „hátæknisjúkrahús“. Þau fela í sér enn frekari miðstýringu í heilbrigðiskerfinu.

Fjölbreytni er lykilorðið
Margrét Pála hitti naglann á höfuðið þegar hún tók sagði í Silfri Egils að hún væri ekki að tala fyrir einni lausn á þann veg að 99% barna væru í sjálfstæðum skólum. Hitt væri hins vegar jafn vitlaust að hafa 99% barna í ríkisreknum skólum, eins og nú er. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga þrjú grundvallaratriði. Almannaþjónusta á alltaf að standa öllum til boða án efnahagslegrar mismununar. Það á enginn að geta borgað sig fram fyrir. Í annan stað þarf kostnaður almennings að vera sambærilegur eða lægri en kostnaður af ríkisrekstri. Í þriðja lagi þarf eftirlit með rekstrinum að vera fullnægjandi. Ef þetta er í lagi er sjálfsagt mál að auka svigrúm fyrir sjálfstæðan rekstur í almannaþjónustu. Því við erum ekki öll eins.

Birt í DV 3. apríl 2007.

02. 04 2007 Í Fréttablaðinu í gær gaf að líta óspennandi lesningu. Þar freistaði Frjálslyndi flokkurinn þess að hnoða innflytjendastefnu sinni í söluvænlegan búning. Í auglýsingunni staðhæfir flokkurinn að í EES-samningnum sé að finna undanþágu varðandi innflutning verkafólks frá aðildarlöndum EES og að flokkurinn hyggist beita þessari undanþágu.

Almenn öryggisákvæði
Staðreyndin er sú að engin slík undanþága er fyrir hendi. Hin almenna regla 28. gr. EES-samningsins er að frelsi launþega til flutninga skuli vera tryggt í aðildarríkjunum og að í því felist afnám allrar mismununar milli launþega „sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum“.

Í 112. gr. samningsins eru almenn ákvæði um öryggisráðstafanir, sem ætlað er að gera samningsaðilum kleift að bregðast við því ef upp koma „alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum“. Slíkar öryggisráðstafanir „skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu“ segir ennfremur í greininni.

Í 113. gr. er mælt fyrir um að unnt sé að grípa til þessara ráðstafana að höfðu samráði við aðra samningsaðila og í henni felst samningsskylda um að leita samkomulags við aðra samningsaðila um viðeigandi viðbrögð.

Í 114. gr. segir að ef „öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningi þessum getur hver hinna samningsaðilanna gripið til jafn umfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart fyrrnefndum samningsaðila og bráðnauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi.“

Yfirlýsing Íslands
Í tengslum við samningsgerðina lýstu íslensk stjórnvöld þeirri túlkun sinni að Ísland gæti nýtt þessar heimildir ef af framkvæmd samningsins myndi leiða „alvarlega röskun jafnvægis á vinnumarkaði vegna meiri háttar flutninga starfsfólks sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum“.

Þessi yfirlýsing er hins vegar einhliða yfirlýsing Íslands, sem bindur ekki hendur viðsemjenda okkar. Og jafnvel þótt hún gerði það eru skilyrði hennar ekki uppfyllt. Það hefur ekki orðið „alvarleg röskun jafnvægis á vinnumarkaði“. Þvert á móti: Vinnumarkaðurinn er í jafnvægi því atvinnuleysi er ekkert.

Engin undanþága
Það er öllum læsum mönnum ljóst að í þessum ákvæðum felst engin „undanþága .. sem samið var um í EES-samningnum, varðandi innflutning verkafólks“ eins og segir í auglýsingu Frjálslynda flokksins. Við getum gripið til aðgerða til að verjast alvarlegum efnahagslegum eða þjóðfélagslegum erfiðleikum, en við þurfum að bera þær aðgerðir undir viðsemjendur okkar og eiga við þá samstarf um þær. Ef þær hafa mikil áhrif, mega þeir beita samsvarandi aðgerðum gagnvart okkur. Með öðrum orðum: Ef við beitum þessu ákvæði til að takmarka innflutning verkafólks verðum við að takmarka innflutning frá öllum aðildarríkjunum og þau geta þá takmarkað heimildir okkar til að nýta okkur frjálsa för til launavinnu eða náms í aðildarríkjunum.

Ef við förum þá leið að takmarka innflutning erlends vinnuafls eiga viðsemjendur okkar samningsbundinn rétt til að beita sams konar aðgerðum gagnvart Íslendingum sem nú eru að störfum eða við nám í Evrópusambandsríkjunum. Viljum við það?

Innflutningshöft til að halda uppi verði?
Frjálslyndi flokkurinn færir þau einu rök fyrir neyðarástandi að kjör iðnaðarmanna hafi ekki hækkað eins mikið og kjör annarra. Aukið framboð vinnuafls hefur með öðrum orðum dregið úr launahækkunum. Það veldur minni þenslu og lægri verðtryggðum skuldum heimilanna. Hvað ætlar Frjálslyndi flokkurinn að gera ef erlendir bankar koma og veita ódýrari lán en íslenskir bankar? Eða ef erlendar matvöruverslanir koma og bjóða vörur á lægra verði en innlendar? Á þá að beita öryggisákvæðinu og hindra erlenda banka eða erlendar matvöruverslanir í að bjóða lægra verð en innlendir aðilar gera? Eða á að taka upp tolla á ný?

Örvæntingarfullur leikur
Staðreyndin er einfaldlega sú að ekki stendur steinn yfir steini í staðhæfingum Frjálslyndra í þessu efni. Tillögur þeirra fela í sér að brotið verði gegn ákvæðum EES-samningsins og tekin upp höft í milliríkjaviðskiptum til að halda uppi verði á vinnuafli innanlands. EES-samningurinn er forsenda efnahagslegrar velmegunar í landinu síðastliðinn einn og hálfan áratug. Við eigum ekki að stofna honum í hættu þótt Frjálslyndir séu með örvæntingarfullum hætti að leita að athygli.

-áp