13. 05 2007

Ég náði kjöri sem alþingismaður og þakka ykkur öllum ómetanlegan stuðning og hjálp á þessari vegferð. Hún hefur á köflum verið ströng, enda hart að okkur sótt. Samfylkingin náði góðum árangri og þjóðin sýndi að hún ætlar flokknum að vera burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum. Fyrir það ber að þakka af heilum hug.
Bestu kveðjur,
Árni Páll Árnason

11. 05 2007 Á laugardag kjósum við um nýja framtíð og nýjar hugmyndir. Það er aðeins eitt stjórnmálaafl sem vill breytingar og framfarasókn með hagsmuni fjöldans en ekki fámennra forréttindahópa í öndvegi. Ég legg áherslu á þrjár lykilástæður fyrir því að kjósa Samfylkinguna:
  1. Þú getur kosið ferskan andblæ í stað doða og hugmyndaleysis núverandi ríkisstjórnar. Við munum leggja höfuðáherslu á efnahagslegan stöðugleika, lækkandi vexti og verðbólgu og búa þannig í haginn fyrir fjölbreytt og þróttmikið atvinnulíf. Við viljum leggja niður samræmd próf, auka faglegt sjálfstæði skóla, draga úr miðstýringu og auka valfrelsi nemenda. Við munum hefja það verk að bæta úr vanrækslusyndum ríkisstjórnarinnar á sviði velferðarmála og binda enda á hreppaflutninga og biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar.
  2. Þú getur kosið flokk sem ætlar Íslandi sess meðal grannþjóða, en ekki sæti hornreku eða hlutskipti taglhnýtings. Við viljum aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru til hagsbóta fyrir almenning og smærri fyrirtæki. Síðast en ekki síst viljum við afturköllun stuðnings Íslands við Íraksstríðið.
  3. Þú getur veitt brautargengi nýrri kynslóð jafnaðarmanna sem er við þröskuld Alþingis. Guðmundur Steingrímsson félagi minn situr í 5. sæti Samfylkingarinnar í Kraganum og á nú góða möguleika á þingsæti. Kristrún Heimisdóttir, Róbert Marshall og Guðný Hrund Karlsdóttir eru ásamt okkur að banka á dyrnar. Margrét Kristín Helgadóttir, Reynir Harðarson og Helga Vala Helgadóttir eru skammt undan. Atkvæði greitt Samfylkingunni hvar sem er á landinu nýtist okkur öllum til sóknar inn á þing.
Við erum fús til verka. Þitt er valið.

Með kveðju,
Árni Páll Árnason
10. 05 2007 Samfylkingin vill leggja niður samræmd próf í núverandi mynd og auka faglegt sjálfstæði skóla, draga úr miðstýringu og auka valfrelsi nemenda. Við viljum líka bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum og fella niður innritunar- og efnisgjöld. Eftir 20 ára setu Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu er menntakerfið miðstýrðara, einhæfara og fábreyttara en í nágrannalöndunum. Brottfall úr framhaldsskólum er meira en í nokkru öðru Evrópuríki.

Ef nemandi er slakur í stærðfræði býður íslenska skólakerfið bara upp á eina lausn: Láta hann fá meiri stærðfræði. Á öllum góðum vinnustöðum er reynt að fela fólki verkefni sem það ræður við og hlífa því við verkefnum sem það getur alls ekki innt af hendi. En ekki í skólakerfinu.

Við þurfum frelsi í skólakerfinu. Við þurfum ekki frelsi skóla til að leggja á skólagjöld og mismuna þannig nemendum. Við þurfum frelsi skólastjórum og kennurum til handa til að bjóða upp á ólíkar tegundir náms sem henta ólíkum nemendum. Það er punkturinn.

Birt í Kraganum 11. maí 2007. Sjá nánar á www.kraginn.is.
08. 05 2007

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa á undanförnum árum snúið baki við stöðugleika og ýtt með ábyrgðarlausum hætti undir ofþenslu í efnahagslífi. Afleiðingin er 8% verðbólga, 27% viðskiptahalli og 14% stýrivextir. Í fálmkenndri vörn hafa stjórnarflokkarnir leitast við að réttlæta óstöðugleikann með því að vísa til þess að kaupmáttur hafi vaxið svo mikið. Í því samhengi hafa þeir bent á að kaupmáttur hafi vaxið um nærri 60% á 10 árum. Röksemdin virðist vera sú að óstöðugleikinn sé fórnarkostnaður sem réttlætanlegt sé að fella á heimilin í landinu til að tryggja óvenjumikinn kaupmátt.

Fyrir það fyrsta er kaupmáttur sem fenginn er við svona aðstæður ótryggur í eðli sínu. Um það vitna gengisfellingahrinur og óðaverðbólguskeið undanfarinna áratuga, sem einatt komu í kjölfar mikillar kaupmáttaraukningar. Einu sinni hafði Sjálfstæðisflokkurinn til þess metnað að tryggja stöðugan og sjálfbæran hagvöxt. Sá tími er greinilega liðinn.

Í annan stað hefur verið sýnt fram á að þessum ávinningi hafi verið gríðarlega misskipt. Kaupmáttaraukningin var mest hjá þeim 10% sem mest höfðu fyrir, eða 120% og minnst hjá þeim 20% sem minnst höfðu fyrir, eða 30%.

Í þriðja lagi er svo ljóst að meðaltalskaupmáttaraukningin var ekkert óvenjuleg. Í ráðstöfunaruppgjöri heimilageirans, sem Hagstofan gaf út 16. apríl sl. kemur fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi aukist um 56% milli áranna 1994 og 2005. Hækkun kaupmáttar upp á 56% á 11 árum jafngildir árlegri hækkun upp á 4,1%. Eins og taflan hér að neðan sýnir er þessi hækkun ekki óvenju mikil í sögulegu samhengi. Svipuð eða meira hækkun var til að mynda á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Kaupmáttaraukningin var hins vegar tiltölulega lítil frá því síðla á níunda áratugnum og fram til aldamóta.

Mikilvæg skýring á mikilli hækkun kaupmáttar síðustu 11 ára er að í upphafi tímabilsins var mikil umframafkastageta í hagkerfinu í kjölfar langvarandi samdráttarskeiðs. Í ofanálag er mikil framleiðsluspenna, eða landsframleiðsla umfram framleiðslugetu hagkerfisins, í lok tímabilsins. Samkvæmt mati Seðlabanka Íslands var spennan um 4,9% af landsframleiðslu árið 2005 en slakinn árið 1994 var metinn um 2,1%. Ef gert er ráð fyrir að hlutdeild launa í landsframleiðslu sé stöðug má gera ráð fyrir að þetta samsvari að kaupmáttaraukningin á tímabilinu sé ofmetin um u.þ.b. 7,2% miðað við líklega þróun kaupmáttar ef jafnvægi hefði ríkt í upphafi og við lok tímabilsins. Að teknu tilliti til þessara áhrif umreiknast árleg hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann í 3,47%. Meðaltal kaupmáttaraukninga árin 1950-2000 var 3,4%.

Kaupmáttur hefur vissulega verið ágætur síðustu 11 árin og því ber að fagna. Kaupmáttarþróunin er þó ekkert sérlega markverð í sögulegu samhengi og þegar tekið er tillit til framleiðsluspennu kemur í ljós að hún er í meðallagi. Það er ekkert við kaupmáttaraukningu undanfarinna ára sem réttlætir þá alvarlegu aðför að hagsmunum almenns launafólks sem felst í viðvarandi verðbólgu, ofurvöxtum og viðskiptahalla. Metnaðarlausir og huglausir ríkisstjórnarflokkar verða að finna sér eitthvað annað fíkjulauf að skýla sér bakvið.

Árleg hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna eftir áratugum

Tímabil
Meðalhækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann
1951-1960
4,0%
1961-1970
4,8%
1971-1980
5,3%
1981-1990
1,5%
1991-2000
1,7%
1951-2000
3,4%
1994-2005
4,1%

1994-2005 – leiðrétt fyrir framleiðsluspennu

3,47%*
 

Birt í Fréttablaðinu 7. maí 2007.
07. 05 2007 Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika 2007 kemur fram að um 16% af fasteignaveðlánum móðurfélaga bankanna í árslok 2006 sé með veðhlutfalli yfir 90%. Þetta þýðir á mæltu máli að uppreiknaður höfuðstóll 16% húsnæðislána bankanna nemi meira en 90% af verðmæti þeirra eigna sem að baki standa. Smávægilegar hræringar á fasteignamarkaði geta nægt til að þetta hlutfall verði neikvætt. Með öðrum orðum: Einn af hverjum sex íbúðareigendum, sem eru með húsnæðislán í bönkum, á ekkert sem heitið getur í húseign sinni.

Fátt sýnir betur en þetta hversu hættuleg hin metnaðarlausa efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar er. Verðbólga hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í fimm af síðustu sex árum. Ríkisstjórnin hefur ítrekað hellt olíu á verðbólgubálið og uppskorið gagnrýni allra sem vit hafa á – OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, innlendra sem erlendra greiningardeilda og aðila vinnumarkaðarins. Seðlabankinn hefur ítrekað gagnrýnt efnahagsstjórnina á undanförnum árum og kallað eftir auknu aðhaldi. Við því hefur ekki verið orðið. Þess vegna hefur Seðlabankinn þurft að beina brunaslöngunum af fullu afli á verðbólgubálið með stýrivaxtahækkunum. Afleiðingarnar eru alvarlegastar fyrir þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og bera verðtryggðan skuldabagga.

Getuleysi og hugleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hefur sett ríkissjóð í vanda og skapað gríðarlega hættu fyrir heimilin í landinu. Skuldsetning heimila hefur aukist mjög á kjörtímabilinu. Látlaus verðbólga étur upp eign fólks í íbúðarhúsnæði og gerir það að leiguliðum bankakerfisins, ef ekki verður brugðist við af festu. Kaupmáttaraukning má sín lítils þegar verðbólgan brennir ávinninginn jafnharðan upp.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini óábyrgi stjórnmálaflokkurinn í landinu. Hann lofar útgjaldaauka upp á hundruð milljóna og frekari stóriðjuframkvæmdum í 8% verðbólgu og 14% stýrivöxtum. Hann lofar skattalækkunum á sama tíma og fyrirséð er að halli verður á ríkissjóði næstu tvö ár. Ein fjölskylda af hverjum sex á ekkert eftir í íbúðinni sinni vegna þessarar efnahagsstjórnar. Ef farið verður að uppskrift Sjálfstæðisflokksins mun óstöðugleiki verða viðvarandi og hlutfall þeirra sem ekkert eiga í íbúðarhúsnæði hækka. Við þurfum ekki óábyrga verðbólgustjórn. Við þurfum efnahagslegan stöðugleika til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.
Birt í Morgunblaðinu 7. maí 2007.
02. 05 2007 Illugi Gunnarsson skrifar skrýtna grein hér í blaðið á sunnudag og gerir Samfylkingunni upp tvíátta afstöðu til efnahagsmála. Ástæðan er sú að Jón Sigurðsson, fyrrum ráðherra, bendir í nýútkominni skýrslu á tvo lykilþætti sem hafa þarf í huga í efnahagsmálum eftir efnahagsklúður Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar er brýn þörf á aðhaldi í ríkisútgjöldum. Ástæða þess er sú að Sjálfstæðisflokkurinn er valdabandalag sérhagsmunahópa og ófær um að forgangsraða í ríkisrekstri á grundvelli almannahagsmuna. Hins vegar er brýn þörf á verulegu átaki í uppbyggingu velferðarþjónustu eftir víðtæka biðlistavæðingu og vanrækslu.

Í þessu felst engin þversögn. Samfylkingin hefur sagt skýrt að hún stefni ekki að því að hækka skatta heldur breyta forgangsröðun og hefja fjárfestingu í uppbyggingu grunngerðar samfélagsins eftir því sem svigrúm er til innan núverandi tekjuramma. Ummæli Jóns og áherslur eru því í fullu innbyrðis samræmi. Samfylkingin horfist í augu við staðreyndir og er tilbúin að takast á við uppbyggingu velferðarþjónustunnar, innan þess þrönga ramma sem hagstjórnarklúður íhaldsins hefur skapað.

Illugi gleymir hins vegar að geta þess að Sjálfstæðisflokkurinn er eini óábyrgi stjórnarandstöðuflokkurinn fyrir þessar kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hleypur frá eigin verkum og lofar nú að bæta úr vanrækslusyndum sem hann ber sjálfur ábyrgð á. Loforðaflóð íhaldsins er metið á allt að 400 milljarða. Í sólskinsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir hallarekstri á ríkissjóði næstu tvö ár. Sjálfstæðisflokkurinn lofar þó skattalækkunum til viðbótar við loforðasukkið. Ég hef spurt Illuga um það hvernig þessi hagstjórn eigi að ganga upp, en engin svör fengið. Flest bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn ætli áfram að vega að grunni velferðarkerfisins með innistæðulausum skattalækkunum og lengja biðlista í hinu sovéska velferðarskömmtunarkerfi, sem flokknum virðist svo kært.

Er ekki best að byrja á að taka til í eigin ranni áður en menn fara að segja öðrum til með hofmóðugum hætti?

Birt í Fréttablaðinu 2. maí 2007.