25. 07 2007

Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynnti á Alþingi í vor þá fyrirætlan sína að fara til Palestínu til að kynna sér stöðu mála þar frá fyrstu hendi kallaði Staksteinar Morgunblaðsins það barnaskap. Í heimsókninni var áhersla lögð á að íslenski utanríkisráðherrann væri kominn til að hlusta og til að kynnast aðstæðum og veruleika venjulegs fólks. Þess vegna ræddi hún við fjölda fólks úr báðum þjóðum. Þegar þessari vel heppnuðu heimsókn er lokið vænir þingflokksformaður VG utanríkisráðherra um að ganga erinda Bandaríkjastjórnar. Þannig hittast þeir Staksteinar og Ögmundur í ástríku faðmlagi um svarthvíta heimsmynd fortíðarinnar.

Fátt er fjær sanni en að heimsókn þessi hafi verið innan ramma utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar. Íslandi er einmitt tekið vel á svæðinu því Íslendingar hafa ekki stórveldishagmuni að verja. Það er sérkennilegt að sjá Ögmund taka sér stöðu sem blaðafulltrúa Hamas, þegar viðleitni stuðningsríkja Palestínumanna um heim allan er að stuðla að einingu Palestínumanna. Innra stríð milli Palestínumanna á Gaza fyrir þremur vikum var harmleikur á harmleik ofan.

Utanríkisráðherra taldi í vor eðlilegt að Íslendingar fylgdu í fótspor Norðmanna og þróuðu samskipti við þjóðstjórn Palestínu. Það er hryggileg staðreynd að einangrun þjóðstjórnarinnar á Vesturlöndum var líklega afdrifarík mistök. Síðan hafa Hamasliðar tekið stjórn á Gaza með vopnavaldi og gengið úr þjóðstjórninni. Við þessar aðstæður er óhugsandi að utanríkisráðherra viðurkenni í reynd vopnað valdarán með því að funda með Hamas. Það gera Norðmenn heldur ekki. Hamas verða að ákveða hvort samtökin eru stjórnmálasamtök sem vinna á friðsamlegum og lýðræðislegum forsendum eða öfgasamtök íslamista sem stefna að eilífum hernaði gegn Ísraelsríki.

Eitt er þó ljóst. Utanríkisráðherra hefur sýnt frumkvæði að stefnumörkun á sviði utanríkismála sem er máluð í fleiri litum en svörtum og hvítum. Það er svo undir þeim fóstbræðrum Ögmundi og Staksteinari komið hvort þeir ætla að vera með í því verki eða ekki.

Birt í Fréttablaðinu 25. júlí 2007.
16. 07 2007

Í meira en hálfa öld hefur „ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs“ verið eitt helsta fréttaefni af vettvangi alþjóðamála. Eftir að lokaviðræður um frið fóru út um þúfur árið 2000 hófst á ný uppreisn á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna og samhliða hertu Ísraelsmenn á hernámstökum sínum á svæðunum. Aðgangsharka Ísraelsmanna hefur grafið undan fylgi við hófsöm stjórnmálaöfl meðal Palestínumanna.

Ástandið í Palestínu er nú afar viðkvæmt. Palestínumenn búa við vonleysi og óbeit á hernámsvaldinu.Vonleysi elur af sér öfgastefnur og ofbeldi. Ný ríkisstjórn Palestínumanna er völt í sessi og þarf að geta bætt kjör og aðstæður venjulegs fólks og bundið endi á óvissu, ótta og óöryggi. Því skiptir miklu að þjóðir heims vinni hratt og vel að því að binda Ísraelsmenn og palestínsk stjórnvöld við raunhæfa friðaráætlun og hefji nú þegar efnahagslega uppbyggingu á herteknu svæðunum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra heimsækir nú Palestínu. Hún mun í heimsókninni fá beina og milliliðalausa sýn á stöðu mála og leggja þannig grunninn að vandaðri stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í málefnum Palestínu. Utanríkisráðherra hefur þegar rætt stöðu mála í Palestínu við utanríkisráðherra Noregs, en Norðmenn hafa um áratugaskeið gegnt lykilhlutverki í friðarumleitunum þar.

Þegar utanríkisráðherra kemur heim frá Palestínu mun hún gefa utanríkismálanefnd skýrslu um heimsókn sína og viðræður við erlend starfssystkin. Í kjölfar þess er óskandi að víðtæk samstaða náist í utanríkismálanefnd um aðgerðaáætlun Íslands í málefnum Palestínu, enda löng hefð fyrir víðtækri samstöðu á Alþingi um stefnumörkun í málefnum Palestínu. Mestu skiptir að við styðjum við pólitíska og efnahagslega uppbyggingu í Palestínu. Það er gömul saga og ný að ef friðflytjendur eru þess ekki umkomnir að bæta kjör fólks og breyta aðstæðum þess til hins betra, eykst spurn eftir boðberum öfga og haturs. Það er verkefni okkar allra að styðja við sprota vonar og uppbyggingar í Palestínu.

Birt í Fréttablaðinu 16. júlí 2007.