28. 10 2008

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, lét furðuleg og ósmekkleg ummæli falla í viðtali við sjónvarpsfréttir RÚV síðastliðinn sunnudag. Þar vísaði hann gagnrýni Samfylkingarmanna á stjórn Seðlabankans á bug með því að rekja að Jón Sigurðsson, hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, sæti fyrir hönd Samfylkingarinnar sem varaformaður Seðlabankans og væri að auki formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem skipaði stjórnir skilanefnda bankanna. „Þannig að Samfylkingin ætti að tala við Jón Sigurðsson áður en hún talar við Davíð Oddsson“.

Ummæli bæjarstjórans eru lýsa annað tveggja mikilli vanþekkingu á stjórnkerfi efnahagsmála eða ósvífinni tilraun til að drepa málum á dreif með óhróðri um nafngreindan heiðursmann. Hvorugt er gott til afspurnar fyrir bæjarstjórann í Kópavogi en hvorugt kemur á hinn bóginn verulega á óvart þegar hann á í hlut.

Jón Sigurðsson er þekktur af verkum sínum og af yfirburðaþekkingu á hagfræði. Hann starfaði um árabil sem einn helsti ráðgjafi íslenskra ríkisstjórna í efnahagsmálum og það var ógæfa margra þeirra ríkisstjórna að orna sér frekar við skammtíma elda óábyrgrar efnahagsstjórnar en að hlíta hans ráðum. Hann var á þeim árum m.a. fastafulltrúi Norðurlanda í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hríð og fulltrúi Íslands í stjórn Norræna fjárfestingarbankans og stjórnarformaður þar og fulltrúi Íslands í hagþróunar- og hagstjórnarnefnd OECD. Að loknum stuttum og árangursríkum stjórnmálaferli var Jóni boðin staða forstjóra Norræna fjárfestingarbankans, sem hann gegndi fram á síðustu ár.

Hægt væri að hafa mörg orð um þekkingu og hæfni Jóns Sigurðssonar sem hagfræðings en ég læt nægja að rifja upp rit um efnahagsmál sem hann ritstýrði fyrir Samfylkinguna í aðdraganda kosninga 2007. Þar varaði hann við ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap og spáði nákvæmlega fyrir um þær hættur sem síðar urðu til að koma efnahagslífinu á hliðina: „Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu.“ Það hefði verið óskandi að fleiri hefðu áttað sig á þessari hættu.

Það er að mínu viti einstök gæfa fyrir þessa þjóð að Jón skyldi við starfslok vera tilbúinn að fórna tíma sínum til erilsamra og óvinsælla verkefna í þágu þjóðarinnar. Hann tók við stjórnarformennsku í FME í byrjun þessa árs og hefur setið í bankaráði Seðlabankans frá vori 2007. Bæjarstjóranum í Kópavogi til fróðleiks skal upplýst að bankaráð Seðlabankans fer ekki með þá þætti stjórnar efnahagsmála sem bankinn sinnir að lögum, heldur rekstur bankans. Um efnahagsstjórnina sjá seðlabankastjórarnir þrír og bera einir á henni fulla ábyrgð.

Nú er það svo að það hefur vissulega fallið í skaut stjórnar FME að skipa stjórnir skilanefnda hinna gömlu banka og að hafa yfir stjórn þeirra að segja. Það var verkefni sem við þingmenn færðum stjórn FME með neyðarlögunum 6. október sl. Ekki verður auðveldlega séð hvernig það hlutverk setur ábyrgð á núverandi efnahagsöngþveiti á herðar Jóns Sigurðssonar. Hins vegar er ljóst að hans er ábyrgðin á því að greiða úr því ástandi sem skapast hefur og reka bankana til hagsbóta til kröfuhafa uns þeir fara endanlega í gjaldþrot. Það er afar sérkennilegt að ætla sendiboða válegra tíðinda ábyrgð á óförunum með þeim hætti sem Gunnar Birgisson virðist gera.

FME fer að lögum með eftirlit með fjármálastofnunum. Framganga FME er auðvitað einn þeirra þátta sem fjalla þarf um í þeirri heildarúttekt um stjórn efnahagsmála og framgöngu eftirlitsstofnana undanfarin misseri sem vonir standa til að ríkisstjórnin hafi forgöngu um á næstu mánuðum. Ég veit að Jón Sigurðsson mun útskýra vandlega það verklag FME sem hann ber ábyrgð á, enda hefur hann tamið sér rökfasta og málefnalega framgöngu á öllum sínum ferli og aldrei vikist undan ábyrgð.

Vönduð úttekt á aðdraganda yfirstandandi efnahagshörmunga er nauðsynleg til að hægt sé að efna til málefnalegrar umræðu um verklag FME við eftirlit, sem og um framgöngu Seðlabankans á undanförnum misserum og árum. Viðtalið við Gunnar Birgisson sýnir að hann gerir ekki greinarmun á málefnalegri og rökstuddri gagnrýni á tilteknar aðgerðir Seðlabankans og almennu skítkasti. Það er þessi talsmáti og aðferðafræði útúrsnúninga og órökstuddra fullyrðinga sem hefur eitrað umræðu um efnahagsmál á undanförnum árum og átt stærstan þátt í að koma efnahag þjóðarinnar í þær ógöngur sem raun ber vitni. Íslensk þjóð og íbúar Kópavogs eiga betra skilið en þessi ósköp.

Birt í Morgunblaðinu, 28. október 2008.