28. 11 2008

Verðtrygging langtímalána er óaðskiljanlegur fylgifiskur íslensku krónunni. Smæð krónunnar og sveiflur hennar valda því að ef engrar verðtryggingar nyti við, væri enginn möguleiki til að taka langtímalán á föstum vöxtum á Íslandi. Verðtryggingunni er ætlað að bæta lánveitanda tjón það sem hann getur orðið fyrir vegna rýrnunar á fé hans vegna verðlagshækkana. Jafnframt hefur verðtrygging gert samfélaginu kleift að dreifa kostnaði af verðbólguskotum yfir allan lánstímann, í stað þess að aukinnar verðbólgu sjái strax stað í vaxtakjörum. Sem dæmi má nefna að ef húsnæðisvextir væru óverðtryggðir í dag væru þeir væntanlega upp undir 30%. Við þær aðstæður væru enn fleiri að komast í greiðsluþrot en raun ber vitni og enn fleiri að missa heimili sín en búast má þó við ef allt fer á versta veg á næstu árum. 

Ókostir verðtryggingarinnar 

Vandinn við verðtrygginguna er að hún er deyfilyf. Þegar vel árar og verðbólga er hófleg gerir verðtryggingin stjórnvöldum kleift að losna undan gagnrýni á lausatök í efnahagsmálum. Þetta var t.d. staðan árin 2005-2006. Við vöruðum mörg við ofþenslu og skuldsetningu en almenningur fann ekki mikið fyrir afleiðingum efnahagsklúðursins, þar sem verðbætur lögðust einungis við höfuðstól og afborganir hækkuðu óverulega. 

En nú undanfarna mánuði og misseri hefur íslenskur almenningur fengið að kenna á því að fullu hversu ómöguleg verðtryggingin er í raun. Við höfum líka fengið óþyrmilega að finna fyrir því að verðtrygging getur ekki gengið upp með mikilli verðbólgu. Þess vegna er ábyrgð þeirra mikil sem forðuðust efnahagslegan stöðugleika eins og heitan eldinn á uppgangsárunum og lugu því að sjálfum sér og öðrum að íslensk króna gæti gengið sem framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. 

Ófyrirséð kerfishrun 

Eftir hrunið mikla hefur þörf fyrir aðgerðir orðið brýnni en fyrr. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til aðgerða til að taka á brýnasta vanda heimila sem standa frammi fyrir mikilli hækkun á greiðslubyrði vegna hækkunar verðtryggðra lána á næsta ári. Ný greiðslujöfnunarvísitala gerir lántakendum kleift að lækka greiðslubyrði milli 10-20% á næstu tveimur árum, þegar búast má við að kaupmáttur verði í lágmarki og atvinnuleysi sem mest. Greiðslubyrðin frestast þá þar til síðar á lánstímanum, þegar efnahagslegar aðstæður hafa batnað og atvinnuleysi minnkað. 

Við kerfishrunið hafa gríðarlegar eignir í samfélaginu orðið að engu. Þetta hrun er að öllu leyti ófyrirséð og ekki lántakendum að kenna að nokkru leyti. Þrír fjórðu hlutar skulda heimilanna eru verðtryggðar. Við þessar aðstæður er ófært að stór hluti þjóðarinnar verði að bera skuldbindingar sínar að fullu, til þess eins að hlífa lánveitendunum og fjármagnseigendunum einum við tjóni. Skiptir þá engu þótt endanlegir lánveitendur séu að stærstum hluta lífeyrissjóðir eða ríkið, í gegnum hina nýju ríkisbanka. Þeir þurfa eftir sem áður að bera tjónið a.m.k. að hluta á móti lántakendunum, þegar hamfarir af þessum toga ríða yfir þjóðina. 

Varanleg lausn er framundan
 
Við getum hins vegar ekki hummað fram af okkur lengur að fá varanlega lausn á þessu vandamáli og losa almenning undan verðtryggingunni. Eina leiðin til þess er með aðild að Evrópusambandinu og notkun betri gjaldmiðils. En breytingin þarf ekki að vera langt undan, því þetta verkefni þarf ekki að bíða upptöku evru. Nægjanlegt er að stöðugleiki verði kominn í gengi krónunnar gagnvart evrunni og Ísland verði komið inn í myntsamstarf aðildarríkja ESB innan ERM II. Aðferðin yrði sú að beita skiptiútboði þar sem útistandandi skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og annarra lánveitenda yrði skipt fyrir evrubréf með föstum vöxtum án verðtryggingar. Í kjölfarið væri hægt að breyta lánskjörum almennings til samræmis. Það eru því horfur á að hægt að losa lántakendur við verðtrygginguna strax á fyrsta ári ESB-aðildar. 

Okkur liggur á, því það er mikilvægt að aftengja vítahring verðtryggingarinnar. Við vitum að það sem bíður okkar þegar við komum út úr kreppunni eru hækkandi laun, hækkandi húsnæðisverð og hækkandi neysluvörur. Allt mun þetta að óbreyttu leiða til hækkunar lánanna okkar, samkvæmt þeirri séríslensku vitleysislausn sem við höfum búið til með verðtryggingunni. Verðtryggingin er að fara langt með að eyða eignum heimilanna á leiðinni inn í kreppuna. Við verðum að hafa hraðar hendur til að forða því að því hengingarólin herðist enn um háls þeirra sem lifa munu kreppuna af, vegna vísitöluhækkana sem munu óhjákvæmilega fylgja hækkun verðlags í kjölfar kreppunnar. 

Þríþætt aðgerðaáætlun 

Í reynd er því um þríþætta aðgerðaáætlun að ræða. 

Í fyrsta lagi mun greiðslujöfnunarvísitalan lækka greiðslubyrði verðtryggðra lána á næstu tveimur árum um allt að 20%. Sú breyting mun forða mörgum heimilum frá miklum erfiðleikum og fresta byrðum til seinni tíma, þegar betur árar. 

Í öðru lagi þarf að finna sanngjarna leið til að leysa lántakendur undan hluta þess kostnaðar sem þeir ella verða fyrir af hækkun lánskjaravísitölu á næstu mánuðum. Það verður einungis gert með almennri skattlagningu ríkisins á alla og þannig tryggt að sá kostnaður verði borinn af samfélaginu í heild en ekki einungis af þeim sem eru að bera lánin nú. 

Í þriðja lagi þarf að losa lántakendur við verðtryggingarkerfið svo fljótt sem auðið er áður en efnahagslífið tekur að glæðast á ný, með aðild að Evrópusambandinu. 

Við þurfum að taka hratt og skilmerkilega á þeim vanda sem verðtryggingin skapar á næstu mánuðum. Við getum gripið til ýmissa tímabundinna aðgerða sem létta byrðarnar, flutt þær til í tíma eða dreift þeim að hluta með jafnari hætti en ella væri. En einhver hópur Íslendinga þarf alltaf að borga fyrir verðtrygginguna á meðan íslenska krónan er til. Undan því verður ekki vikist. Því fyrr sem við náum í gegn aðild að Evrópusambandinu, því fyrr getum við kvatt verðtrygginguna. Við megum einfaldlega engan tíma missa. 

Birt í Morgunblaðinu 28. nóvember 2008.

08. 11 2008

Hrun efnahagskerfisins á undanförnum vikum hefur breytt sýn okkar flestra á forgangsverkefni í samfélaginu. Það hefur líka breytt því hvaða þolinmæði við höfum gagnvart töfum á brýnum réttlætismálum. Eitt slíkra mála er breyting á eftirlaunakjörum æðstu embættismanna ríkisins.

Það hefur lengi verið þyrnir í augum okkar margra að sérstakar reglur um rýmri eftirlaunaréttindi gildi um ýmsa æðstu embættismenn ríkisins og að þeir ávinni sér réttindi óháð inngreiðslum í lífeyrissjóði, öfugt við aðra borgara. Þessu hefur lengi verið tímabært að breyta. Nú, þegar við blasir að almennir launamenn muni þurfa að þola lækkun lífeyrisréttinda vegna efnahagshrunsins, skiptir miklu að við mætum þeim áföllum með breytingum á eftirlaunaréttindum æðstu embættismanna. Þeir eiga ekki að fá lífeyri sem er langt umfram það sem þeir greiddu fyrir, á sama tíma og fólk sem greiddi fyrir sinn lífeyri fær ekki einu sinni til baka það sem greitt var, með eðlilegri ávöxtun.

Undanfarin misseri hefur staðið í miklu lögfræðilegu stímabraki um það hvort og þá hvernig unnt sé að afnema þau réttindi sem þegar hafa verið veitt. Það álitamál hefur tafið aðgerðir í þessu efni. Ég tel að nú sé svo komið að tími lögfræðilegra þræta um þetta mál sé löngu liðinn.

Ekkert er annað að gera í stöðunni en að afnema þau forréttindi sem veitt voru í árslok 2003. Þau á að afnema skilyrðislaust og án bóta. Flestir þeirra sem réttindanna njóta vænti ég að séu sómamenn og muni una slíkri aðgerð þegjandi og hljóðalaust við þær erfiðu aðstæður sem við búum við. Fari svo hins vegar að einhverjir forréttindapésar telji að með því sé á þeim á sér brotið, er rétt að svæla slík smámenni út úr skúmaskotum lögfræðiþrætna og láta þá kalla eftir ósanngjörnum forréttindum sér til handa fyrir dómi. Þá vitum við nöfn þeirra síngjörnu einstaklinga sem ekki eru tilbúnir að axla sömu byrðar og almenningur í landinu og getum híað á þá á götu héðan í frá. Tjónið fyrir ríkið verður ekkert. Það eina sem ríkið kann að verða dæmt til að greiða eru þau allt of ríflegu eftirlaun sem við hefðum ella þurft að greiða þessum sömu aurapúkum til handa. Í gerningaviðrum undanfarinna vikna höfum við oft gengið á ystu nöf gagnvart stjórnskipulegu réttmæti laga. Því ekki nú, þegar býður þjóðarsómi og réttlætismál er annars vegar? Við höfum sem samfélag allt að vinna og engu að tapa. 

Birt í Morgunblaðinu 8. nóvember 2008.

04. 11 2008

Síðustu vikur hefur formaður VG leitað stuðnings í útlöndum fyrir þeirri staðhæfingu að rangt hafi verið af íslenskum stjórnvöldum að leita eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þess í stað hefðu íslensk stjórnvöld átt að leita til Norðmanna og annara Norðurlanda um einhvers konar sérnorræna lausn. Forsætisráðherra Noregs hefur hins vegar ítrekað bent á það í síðustu viku að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins greiði fyrir því að Norðmenn og aðrir hafi getað komið að málum og að einstök lönd hafi ekki haft burði til að leiða starf af þessum toga. Formaður VG hefur í kjölfarið reynt að afflytja svör forsætisráðherrans til að draga úr þeim áfellisdómi sem þarna er kveðinn upp yfir málflutningi VG.

En formaður VG er ekki af baki dottinn þótt hann hafi misst átta í skógarferð sinni í Noregi. Í Morgunblaðinu á laugardagsmorgun talar hann fyrir upptöku norskrar krónu og kveður beiðni um slíkt verða vel tekið af norskum stjórnvöldum. Og ekki virðist varkárni Steingríms í túlkun á afstöðu norskra stjórnvalda hafa aukist við útreiðina um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þvert á móti spáir formaður VG fyrir um viðbrögð norskra stjórnvalda af nokkurri drýldni og segir:„Ég leyfi mér að fullyrða, og ég hef býsna góð sambönd í norskum stjórnmálum, að ósk af þessu tagi yrði ekki hafnað.“

Óheppni formanns VG í milliríkjasamskiptum ríður hins vegar ekki við einteyming. Áður en fréttin um forspárhæfileika formannsins var komin á prent hafði forsætisráðherra Noregs aftekið upptöku Íslendinga á norskri krónu á fréttamannafundi í Noregi. Og það sem meira er: Þegar spurningin var borin upp við forsætisráðherrann stóð fjármálaráðherra Noregs – formaður systurflokks VG – við hlið forsætisráðherrans og gat varla haldið niðri í sér hlátrinum yfir þessari fráleitu hugmynd. Maður hlýtur því að spyrja sig hvar hin „býsna góðu sambönd“ Steingríms J. Sigfússonar liggja í Noregi.

Auðvitað gæti maður bara hlegið að þessari fumkenndu seinheppni ef málflutningur VG væri ekki jafn fráleitur og þjóðhættulegur og raun ber vitni. VG hefur hafnað umræðu um aðild að Evrópusambandinu fyrst og fremst með vísan til fullveldis íslensku þjóðarinnar. Tilraunir okkar til að verja það fullveldi með stöðu okkar utan ESB hafa valdið því að almenningur í landinu er berskjaldaðri fyrir gönuhlaupum auðjöfra og kaupahéðna en almenningur í ríkjum ESB. En í stað þess að læra af reynslunni leggur VG nú til fullkomið fullveldisafsal á sviði peningamála. VG hafnar því að við deilum fullveldi okkar í peningamálum með öðrum þjóðum – og njótum jafn mikils atkvæðavægis við ákvörðun sameiginlegrar peningamálastefnu og tugmilljónaþjóðir – og kjósa frekar að afsala stjórnarfarslegu fullveldi í hendur annars ríkis. 

Sumir hafa gagnrýnt VG undanfarna mánuði fyrir að vilja afturhvarf til 1975. Nýjasta gönuhlaup formannsins sýnir hins vegar að áfangastaðurinn er árið 1262. Langar marga einlæga áhugamenn um þjóðfrelsi og þjóðlega reisn innan raða VG með Steingrími í þá sneypuför? 

Birt í Morgunblaðinu, 4. nóvember 2008.