16. 05 2008 Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um sjúkratryggingar sem felur í sér breytingu á fyrirkomulagi greiðslna ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu. Höfuðáhersla verður lögð á að fjárveitingar ríkisins til veitenda heilbrigðisþjónustu verði tengdar þeirri þjónustu sem veitt er. 

Fagleg umgjörð rekstrar 

Nýja kerfið byggir á sænskri fyrirmynd. Markmið kerfisins er viðhalda hinu norræna þjónustukerfi, sem felst í að notendur heilbrigðisþjónustu eigi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem veitt sé án tillits til efnahags. Í dag búa opinberar heilbrigðisstofnanir við óskilvirka fjárveitingaumgjörð, þar sem ekki er skýrt samhengi milli þeirra verka sem unnin eru og þeirra fjárveitinga sem ríkið veitir til starfseminnar. Þannig býður núverandi kerfi heim þeirri hættu að fjárlagaramminn stjórni þjónustustiginu, með hörmulegum afleiðingum fyrir þá sem þjónustunnar eiga að njóta. 

Í hinu nýja kerfi er gert ráð fyrir að allar fjárveitingar verði byggðar á samningum um tiltekna þjónustu og að komið verði á skipulegu verklagi við eftirlit með gæðum þeirrar þjónustu sem veitt er. Nú þegar eru í lögum víðtækar valdheimildir fyrir stjórnvöld til að semja um framkvæmd heilbrigðisþjónustu og er ekki gert ráð fyrir að þær verði auknar, en komið verði á faglegri umgjörð um beitingu þeirra. Nýju stofnuninni verður þannig gert að gæta að öryggishlutverki opinberra sjúkrahúsa og því að viðhalda faglegri þekkingu þar. Jafnframt verður hætt að semja við hagsmunasamtök veitenda heilbrigðisþjónustu á borð við félög lækna, eins og tíðkast hefur hingað til, og bannákvæði samkeppnislaga munu gilda um samstilltar aðgerðir veitenda þjónustunnar gagnvart ríkinu. 

Aukið jafnrétti 

Ýmsir hafa haft hátt á undanförnum mánuðum um að í breytingunum felist einkavæðing, markaðsvæðing, sala sjúklinga, sjúklingaskattar eða eitthvað þaðan af verra. Í umræðum á Alþingi kom fram að engin innistæða er fyrir gífuryrðum af þessum toga og sérstaka athygli vakti að Álfheiður Ingadóttir fór undan í flæmingi þegar gengið var á hana um að hún rökstyddi staðhæfingar sínar um að í frumvarpinu fælust sjúklingaskattar. Staðreynd málsins er nefnilega sú að engin breyting verður á greiðsluþátttöku sjúklinga með nýja frumvarpinu. 

Í frumvarpinu er þvert á móti að finna ákvæði sem tryggja betur en gert er í núgildandi lögum að aðgangur að heilbrigðisþjónustu eigi að vera án tillits til efnahags. Þá er sett í lög ákvæði sem beinlínis bannar veitendum þjónustu að krefja sjúkratryggða einstaklinga um frekara gjald en felst í almennri kostnaðarþátttöku skv. reglugerð. Þannig er beinlínis bannað með lögum að veitendur þjónustu bjóði notendum að borga sig fram fyrir í biðröð. Þá er girt fyrir að hér geti skapast bandarískt kerfi sem felur í sér endurgreiðslu að hluta á útlögðum kostnaði, sem myndi leiða til aukins kostnaðar og brjóta niður hið norræna þjónustukerfi sem við höfum byggt á. 

Betri velferðarþjónusta 

Markmið jafnaðarmanna er nú sem fyrr að tryggja bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á fyrir alla, án tillits til efnahags. Óskilvirkt fjárveitingakerfi dregur úr gæðum þjónustu og kostnaðaraðhaldi og eykur aðstöðumun milli einkarekinna þjónustuveitenda og ríkisrekinna, hinum ríkisreknu í óhag. Verst bitnar þetta á smáum opinberum rekstrareiningum úti um land. 
Við sjáum einnig að ný tegund samninga, á borð við Sóltúnssamninginn, hafa verið gerðir meira af kappi en forsjá af hálfu ríkisins og að ekkert skilgreint verklag er til sem gerir ríkinu kleift að koma fram af ábyrgum hætti í slíku samningssambandi eða hafa skilvirkt eftirlit með framkvæmd þjónustu. Markmiðið á að vera að fleiri geti veitt jafn góða þjónustu og Sóltún veitir í dag, en að jafnframt sé tryggt að greiðslur fyrir hana séu sanngjarnar og í samræmi við samninga. 
Fleiri og fleiri fyllast vonleysi þegar þeir upplifa biðlista og ágalla í opinberri heilbrigðisþjónustu. Við þær aðstæður er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort ekki sé réttlætanlegt að borga sig fram fyrir eða fara út fyrir kerfið með einhverjum hætti. Þess vegna skiptir svo miklu að okkur takist það ætlunarverk að bæta þjónustuna. Þjónustan á ekki að vera lágmarksþjónusta fyrir þá sem ekki eiga annars kost en að nýta sér hana. Ef svo fer munu hinir betur stæðu fljótt kveinka sér undan að borga til hennar. 
Þjónustan á að vera fullnægjandi þjónusta af hámarksgæðum sem allir nýta sér. Einungis þannig tryggjum við samfélagslega samstöðu um veitingu almennrar heilbrigðisþjónustu fyrir alla til lengri tíma litið. Það hefur verið verkefni jafnaðarmanna í heila öld – og verður áfram verkefni okkar næstu öldina.