28. 06 2008

Við fall krónunnar undanfarið hafa margir gagnrýnt viðskipti bankanna með gjaldeyri og gert því skóna að þau hafi haft áhrif til veikingar krónunnar. Leit að blórabögglum af þessum toga er fánýt.

Erlendir spekúlantar hafa misst áhuga á krónunni og því sveiflast verðgildi hennar til og frá í litlum viðskiptum, til tjóns fyrir almenning og fyrirtæki. Bankamenn munu alltaf eiga viðskipti þegar þeim hentar því það er skylda þeirra gagnvart hluthöfum bankanna. Það er tilgangslaust að fárast yfir því. Sama á við um auðmenn landsins. Það er ekki hægt að byggja efnahagslegan stöðugleika á því að fara bónarveg að bönkunum eða auðmönnum og biðja þá vinsamlegast að reyna að passa að hagnast ekki á ónýtri krónu. Þeir munu alltaf gæta sinna hagsmuna og ekkert er við því að segja. Með sama hætti verður stöðugleiki ekki byggður á því að beita úreltum handaflsaðgerðum til að reyna að hafa áhrif á gengi gjaldmiðils sem flýtur á markaði.

En rétt eins og bankamenn bera skyldur gagnvart eigendum sínum og auðmenn bera skyldur gagnvart sjálfum sér bera stjórnmálamenn skyldur gagnvart kjósendum sínum. Það er hlutverk stjórnmálamanna að hugsa um hag almennings og verja hann. Þar skiptir mestu að skapa nógu sterka umgjörð um peningamál til að tryggja að bankar og auðmenn geti átt þau viðskipti sem hugur þeirra stendur til á markaði, án þess að almenningur þurfi að hljóta af því óásættanlegt tjón. Það á ekki að vera hlutskipti stjórnmálamanna að rella í auðmönnum og biðja þá um að haga viðskiptum sínum á einn veg eða annan til að verja ónýtt peningakerfi. 

Það er ekki hægt að réttlæta það að einstök viðskipti á markaði eða áhugaleysi örfárra erlendra spekúlanta geti kallað stórfellda kjaraskerðingu og atvinnuleysi yfir fjölda fólks. Slíkt ástand sýnir algert ráðþrot íslensks stjórnmálakerfis gagnvart brýnustu verkefnum samfélagsins og átakanlegt getuleysi stjórnmálamanna til að varna því að örlög vinnandi fólks og verðmætaskapandi atvinnugreina ráðist af stundarhag markaðsafla. 

 Birt í Fréttablaðinu, 28. júní 2008.

16. 06 2008

Ástand efnahagsmála nú er grafalvarlegt. Vorið 2007 ritaði Jón Sigurðsson, fyrrum ráðherra, aðfararorð í rit Samfylkingarinnar um efnahagsmál og sagði þá meðal annars: „Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu.“ Fátt lýsir betur því ástandi sem við búum við í dag. Við bætast svo ófyrirséðar hækkanir á hrávöru og eldsneyti sem valda enn frekari verðhækkunum hér á landi.

En það er eins og margir forðist að horfast í augu við að núverandi ástand er bein afleiðing þess ójafnvægis sem hefur verið meginboðorð í efnahagsstefnunni undanfarinn áratug. Allt frá upphafi stóriðjuframkvæmdanna fyrir austan hafa stjórnvöld skipulega vanrækt efnahagsstjórnina og talið sjálfum sér og öðrum trú um að á Íslandi ættu við einhver allt önnur viðmið um efnahagsstjórn en í öðrum ríkjum. Þótt Seðlabankinn hafi reynt að standa í ístaðinu hefur hann líka gerst sekur um alvarlegt vanmat á þeim hættum sem að steðjuðu.

Mistök undanfarinna ára
Okkur var sagt að engin ástæða væri til að óttast þau miklu vaxtamunarviðskipti sem helltust yfir landið og þrýstu gengi krónunnar í óraunhæfar hæðir. Í kjölfarið komu misseri gegndarlausrar einkaneyslu, þar sem falskt gengi lagðist á eitt með einstaklega hagstæðu verði erlendrar neysluvöru til að halda niðri verði á innflutningi. Á sama tíma var vanrækt að nýta einstaklega hagstætt gengi og góð skilyrði á alþjóðlegum lánamörkuðum til að styrkja gjaldeyrisforðann.

Okkur var líka sagt að það væri skynsamlegt að lækka almennan tekjuskatt ár frá ári á árunum 2004-2006. Með því var hellt olíu á eftirspurnareldinn sem allir vissu að logaði þá þegar glatt. Engin ríkisstjórn annars staðar í Evrópu hefði látið sér til hugar koma að beita almennri tekjuskattslækkun við þessar aðstæður. Hér á landi voru gagnrýnendur þessa ábyrgðarleysis úthrópaðir sem sérstakir talsmenn óheftra ríkisafskipta og andstæðingar skattalækkana. Alveg virtist hafa farið framhjá stjórnvöldum að eftir að gengi gjaldmiðilsins hafði verið látið fljóta ættu stjórnvöld enga aðra kosti en ríkisfjármál - og þar með skattastefnu - til að hafa áhrif á verðbólguþróun.

Okkur var einnig sagt að engin úrræði væru tiltæk til að hefta innrás bankanna á íbúðalánamarkaðinn síðla árs 2004. Seðlabankinn hafði þá nýlega stóraukið peningaframboð og auðveldaði þannig í reynd bönkunum að fjármagna undirboð gagnvart Íbúðalánasjóði. Bankinn greip einnig alltof seint til stýrivaxtahækkana til að taka á ástandinu. Stjórnvöld áttu einnig ýmsa möguleika til bregðast við, ef vilji hefði verið til þess.

Síðast en ekki síst voru allir stjórnmálaflokkar tilbúnir að styðja matarskattslækkun rétt fyrir kosningar 2007. Sú lækkun skilaði þeim eina árangri að falsa verðbólgutölur síðustu mánuðina fyrir kosningar og tryggja þannig áframhaldandi svikalogn, en alltaf var vitað að mjög ólíklegt væri að þessi aðgerð myndi skila almenningi nokkrum ávinningi við þessar aðstæður. Matarskattslækkunin er líklega besta dæmið um sigur sýndarmennskunnar yfir raunveruleikanum í efnahagsstjórn síðustu ára, þótt af mörgu sé að taka.

Ný stefnumörkun
En nú er raunveruleikinn kominn í heimsókn og kallar okkur til verka. Með sama hætti og við fluttum áður inn verðhjöðnun og nutum góðs af, flytjum við nú inn erlendar kostnaðarhækkanir á degi hverjum. Óhóflegur innflutningur alltof eyðslufrekra bílófreskja undanfarin ár veldur eigendum miklum höfuðverk. Verðbólguhraði umfram allar spár bendir til þess að fyrirtækin hafi víðtæka vantrú á að við náum að afstýra alvarlegri verðbólgu. Kaupmáttaraukning sem var að miklu leyti byggð á óhóflegri skuldsetningu og eiginfjárdrætti er horfin.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld marki skýra stefnu. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu og stefnumörkun um upptöku evru fæli í sér slíka stefnu, því hún myndi skuldbinda ríkið til að haga efnahagsstjórn með ábyrgum hætti. En þótt við náum ekki saman um aðildarumsókn á næstu vikum er engin ástæða til að sitja með hendur í skauti. Ef við viljum endurheimta stöðugleika er nauðsynlegt að stjórnvöld skuldbindi sig til að ná alþjóðlega viðurkenndum stöðugleikamarkmiðum. Þar eru þekktust stöðugleikamarkmið Maastricht-samningsins sem fela í sér lága verðbólgu, hóflega skuldastöðu ríkissjóðs, lága langtímavexti og gengisstöðugleika. Þessi viðmið eru nauðsynleg forsenda upptöku evru en þau eru líka nauðsynleg forsenda þess að hér verði náð efnahagslegum stöðugleika, óháð aðildarumsókn að ESB. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið undir mikilvægi þessa í ræðu og riti.

Þjóðarsátt um nýja leið
Ný þjóðarsátt á að felast í því að stjórnvöld setjist að borði með aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúm sveitarfélaganna og Seðlabankanum og geri formlegt samkomulag um að Maastricht-viðmiðunum verði náð innan tiltekins tíma. Jafnframt ættu fulltrúar stjórnarandstöðuflokka að koma að slíkri þjóðarsátt. Þá er von til að við sköpum víðtæka samfélagssátt um þær aðgerðir – sumar hverjar sársaukafullar – sem nauðsynlegar eru til að endurheimta stöðugleikann. Það er nefnilega flest sem bendir til þess, eins og höfundur Reykjavíkurbréfs hefur bent á, að sjálfstæð peningamálastefna lítils ríkis á jaðri Evrópu þurfi að fela í sér meiri fórnir og meiri aga en menn geta leyft sér sem eru hluti af stærri heild. En hér á landi verða einfaldlega að gilda sömu efnahagslögmál og í nágrannalöndunum.

Forsætisráðherra hefur boðað endurskoðun á framkvæmd peningamálastefnunnar. Það er brýnt að sú endurskoðun hefjist sem fyrst og að hún fari fram fyrir opnum tjöldum og með þátttöku færustu alþjóðlegra sérfræðinga. Hún á að taka mið af því hvernig unnt sé að ná stöðugleikamarkmiðunum og í henni á að velta við hverjum steini. Fátt er heimskulegra við núverandi aðstæður en að gagnrýna þá sem vilja tala með opnum og fordómalausum hætti um hagstjórnarmistök undanfarinna ára, veikleika gjaldmiðilsins og ómarkvisst stjórnkerfi peningamála. Einn versti galli íslenskrar samfélagsumræðu er að við eigum til að veigra okkur við að spyrja og leita svara við erfiðum spurningum. Það er höfuðsök okkar nú síðustu ár. Leiðin til að skapa tiltrú á innviðum íslensks efnahagslífs er að ræða af heiðarleika og hreinskiptni fyrir opnum tjöldum um ágallana og leita bestu leiða til að bæta úr þeim. Þöggun og sjálfbirgingur eru vont vegarnesti fyrir metnaðarfulla þjóð sem þarf nauðsynlega á tiltrú að halda á alþjóðlegum vettvangi.

Birt í Morgunblaðinu, 16. júní 2008.

13. 06 2008

Sigurður Kári Kristjánsson sessunautur minn á Alþingi hefur lýst því að hann telji óeðlilegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hafi tjáð sig um niðurstöðu Hæstaréttar í Baugsmálinu í yfirlýsingu, því hún sé utanríkisráðherra og dómsmál ekki á forræði utanríkisráðuneytisins. Þetta er auðvitað fráleit röksemdafærsla. 

Baugsmálið hefur haft veruleg áhrif á íslenska þjóðmálaumræðu í sex ár og fá mál vakið jafn mikla athygli. Margir hafa verið þeirrar skoðunar að í þessu máli hafi lögregla og ákæruvald farið offari. Nú þegar niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir, þar sem sú skoðun er staðfest, væri fullkomlega óeðlilegt ef allir stjórnmálamenn þegðu þunnu hljóði á þeirri forsendu að lögregla og dómstólar heyrðu undir dómsmálaráðherrann og hann einn mætti tjá sig um málið. Fjölmiðlar leituðu eftir afstöðu formanns Samfylkingarinnar eins og annarra stjórnmálaleiðtoga og hún kaus að svara þeim með því að gefa út yfirlýsingu um sína afstöðu. 

Í yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar segir: „Víðfeðmasta opinbera rannsókn síðari ára, sem hófst í tilefni af tilteknum kreditreikningi, hefur nú verið til lykta leidd í Hæstarétti Íslands eftir sex ára meðferð í réttarkerfinu sem kostað hefur ógrynni fjár. Hæstiréttur veitti öllum sem komu að útgáfu þessa tiltekna reiknings sýnilega jafna og réttláta málsmeðferð. Bersýnilegt er að dómstólar kveða upp úr um að umfang rannsóknarinnar og ákæranna sem gefnar voru út upphaflega var alls ekki í samræmi við tilefnið. Óhjákvæmilega hljóta íslensk stjórnvöld að draga lærdóma af þessari útkomu.“ 

Það væri hægt að skilja uppnám Sigurðar Kára ef í yfirlýsingunni væri verið að deila við dómarann. Svo er ekki. Þvert á móti er þar lýst trausti á dómstólunum og tekið fram að þeir hafi veitt öllum jafna og réttláta málsmeðferð. Og hvað er það þá sem fer svona fyrir brjóstið á honum? Er það sú setning að stjórnvöld eigi að draga lærdóma af þessari útkomu? Það markar þá tímamót í íslenskum stjórnmálum ef það á að verða viðtekin regla að stjórnvöld og stjórnmálamenn eigi ekkert að læra af dómum Hæstaréttar og virða að vettugi þá leiðbeiningu sem fram kann að koma í dómum um meðferð opinbers valds og réttindi borgaranna.

Stjórnmálamenn eru ekki embættismenn 

Sigurður Kári tengir yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar við stöðu hennar sem utanríkisráðherra og leggur út af þeirri stöðu á þann veg að þar sem dómsmál séu ekki utanríkismál eigi utanríkisráðherra ekkert með að tjá sig um niðurstöðu dómsins. Þetta er auðvitað fráleit staðhæfing og sýnir mikinn misskilning á hlutverki stjórnmálamanna. 

Eru formenn stjórnarflokkanna, utanríkisráðherra og forsætisráðherra, að fara út fyrir verksvið sitt og inn á verksvið fjármálaráðherra þegar þau ræða fjárlagaramma næsta árs? Og á þá Björn Bjarnason dómsmálaráðherra einn að mega tjá sig um Baugsmálið, af því það er dómsmál? Einhvern veginn slær sú kenning mann nokkuð skringilega. Formenn ríkisstjórnarflokka hafa auðvitað fullt umboð til að tjá sig um hvaða álitamál sem er, rétt eins og formenn annarra flokka, óháð því hvaða ráðherraembættum þeir gegna. Formaður Samfylkingarinnar tjáir sig um öll þau pólitísku álitamál sem hún kýs að tjá sig um í umboði kjósenda Samfylkingarinnar og þingflokks hennar. 

Þar fyrir utan eru stjórnmálamenn ekki embættismenn sem starfa á tilteknu fagsviði, heldur fulltrúar kjósenda sinna og starfa í þeirra umboði. Þjóðfélagsleg álitamál verða aldrei flokkuð í hólf og stjórnmálamönnum skammtaður réttur til að tjá sig um þau.

Hvaða lærdóma má draga? 

En hvaða lærdóma má svo draga af útkomu Baugsmálsins? Nefna má tvennt: 

Í fyrsta lagi að rannsóknarvald og ákæruvald sé ekki á sömu hendi í flóknum málum af þessum toga. Það fer ekki vel á því að lögreglurannsókn sæti ekki sjálfstæðri, gagnrýnni og óháðri athugun hjá ákæruvaldinu, áður en ákæra er gefin út. Í nýsamþykktum lögum um meðferð sakamála, sem samin voru af réttarfarsnefnd, felst að ákæruvald í efnahagsbrotamálum verði flutt frá lögreglustjórum til sjálfstæðra héraðssaksóknara og aðskilnaður rannsóknar og saksóknar þannig betur tryggður. 

Í öðru lagi þarf að fara vel með mikið vald. Kreditreikningurinn sem markaði upphaf Baugsmálsins gaf greinilega fullt tilefni til rannsóknar og ákæru enda hafa þeir sem komu að útgáfu hans nú hlotið dóm fyrir aðild sína að honum. Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að fátt bendir til að hann hafi gefið tilefni til þeirrar umfangsmiklu lögreglurannsóknar og saksóknar sem nú hefur staðið í 6 ár og kostað tiltekna einstaklinga mikinn sársauka og fjármuni og íslenska skattborgara hátt í einn milljarð króna. Þeim mannauði og fjármunum hefði án efa verið betur varið til að takast á við önnur brýnni úrlausnarefni í réttarvörslukerfinu. 

Birt í Fréttablaðinu, 9. júni 2008.