22. 10 2009

Rúmt ár er nú liðið frá þeim örlagaríku atburðum sem urðu síðastliðið haust þegar fjármálakerfi landsins hrundi og í kjölfar þess skall á efnahags- og gjaldeyriskreppa.

Nauðsynleg viðbrögð við áfalli af þessu tagi eru tvíþætt. Annars vegar að kanna hvernig þetta gat gerst og hins vegar leggja grunn að endurreisn hagkerfisins á traustari grunni. Ríkisstjórnin leggur áherslu á hvort tveggja.

Umræða undanfarinna mánaða hefur eðlilega mikið snúist um hlut einstakra manna og einstakra fyrirtækja í hruninu. Ríkisstjórnin hefur tryggt nauðsynlega umgjörð um rannsóknir og það er vilji okkar að allir sæti ábyrgð í samræmi við þann hlut sem þeir áttu í þessum vanda.

En þrátt fyrir að hlutur einstaklinga sé mikill í hruninu á það þó dýpri rætur. Satt að segja virðist þeim sem helst báru ábyrgð í mun að endurskrifa söguna á þann veg að nokkrir útrásargosar hafi verið eina ástæðan fyrir hruninu. Það er vissulega rétt að sumir menn fóru mjög offari, en sú óhófsveisla var ekki höfuðástæða hrunsins.

Undirrót hrunsins var oftrú á markaðshagkerfið og barnaleg sýn á það að hagkerfið væri eimreið sem ekki gæti farið út af sporinu. Ekki þarf samt að leita langt til að finna dæmi um alvarleg lestarslys markaðshagkerfisins og nægir að nefna fjármálahrunið í Skandinavíu árin 1992 og 1993 og efnahagshrun Austur-Asíulanda árin 1997 og 1998.

Markaðshagkerfið kann að vera besta leiðin sem við höfum fundið til þessa að stýra framleiðslu og neyslu en blind trú á það er ekki skynsamleg. Hagsveiflur og eignabólur eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þess og nauðsynlegt er að því sé stjórnað með virkum hætti. Innistæðulausar skattalækkanir og hugmyndafræðileg óbeit Sjálfstæðisflokksins á opinberum afskiptum af hagkerfinu eru stærstu ástæður þess stjórnleysis í efnahagsmálum sem leiddu til hrunsins.

Markaðurinn er góður þjónn en afleitur herra. Það eru sígild sannindi þótt þau hafi gleymst í lestarferð Eimreiðarhópsins undanfarin 20 ár.


Efnahagsþróunin hefur frá hruninu verið í meginatriðum í samræmi við þær spár sem komu fram á haustmánuðum strax í kjölfar hrunsins. Þannig virðist samdrátturinn á þessu ári ætla að verða um 9% og hann mun halda áfram eitthvað inn á næsta ár. Spár virðast benda til að þá verði botninum náð og hagvöxtur geti farið að festa rætur á síðari hluta ársins. Atvinnuleysi hefur fylgt hagþróuninni og hefur hæst orðið um rúm 9% og gæti miðað við spár vaxið áfram inn á næsta ár og orðið á bilinu 10–11%. Við getum vonað að þróunin verði heldur betri, en ég er í vinnu við að vera boðberi hinna slæmu tíðinda og býst þess vegna við því versta.

Það má segja að fimm meginverkefni blasi við okkur og þau eru kjarni efnahagsáætlunar stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Í fyrsta lagi að endurreisa fjármálakerfið því án trausts og starfshæfs fjármálakerfis getur atvinnustarfsemin og efnahagslífið ekki starfað. Hér þarf að draga lærdóma af þeim mistökum sem leiddu til hrunsins hér á landi auk þess sem það þarf að fylgjast með þeim lærdómum sem dregnir eru á alþjóðavettvangi af þeim mistökum sem leiddu til alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Mikilvægir áfangar hafa náðst við endurreisn bankanna á undanförnum vikum sem treysta grunn þeirra og munu ef til vill auðvelda þeim að endurreisa erlend viðskiptasambönd. Ísland er opið hagkerfi og þarf á greiðum utanríkisviðskiptum að halda.

Í öðru lagi þarf að takast á við þann vanda sem myndast hefur í ríkisfjármálum í kjölfar hrunsins. Hrunið leiddi til þess að ríkissjóður þurfti að taka á sig gríðarlegar byrðar. Viðvarandi hallarekstur myndi bæta á þær byrðar. Það er ekki ásættanlegt. Þá grefur hallarekstur undan efnahagslegum stöðugleika bæði inn á við og út á við og leiðir til verðbólgu og ójafnvægis. Hallinn er í raun samsettur úr tveimur þáttum. Annars vegar því að afkoma ríkissjóðs fyrir hrun var byggð á efnahagslegum óraunveruleika eignabólunnar sem leiddi til hrunsins. Þannig er ljóst að ekki var innistæða fyrir skattalækkunum áranna 2005–2007. Hins vegar afleiðingum hrunsins, samdrætti í atvinnulífinu, auknum vaxtakostnaði og félagslegum útgjöldum sem leiða beint eða óbeint af efnahagssamdrættinum. Við þessu þarf að bregðast með erfiðum aðgerðum, bæði til lækkunar útgjalda og aukningu skatttekna.


Þriðji hornsteinn efnahagsstefnunnar er að koma gjaldeyrisviðskiptum við útlönd í frjálst horf á ný og leggja grunn að styrkingu krónunnar á næstu árum. Gjaldeyrishöft leiða til óhagkvæmni, undanbragða og spillingar. Fyrir því höfum við og aðrar þjóðir langa og slæma reynslu. Eðli máls samkvæmt eru höftin sjálf hindrun fyrir styrkingu krónunnar og eðlilegrar verðmyndunar gjaldeyris á markaði. Þau mynda vantrú á gengi gjaldmiðilsins. Margir samverkandi þættir þurfa að fléttast saman til að leysa þennan hnút. Trúverðug efnahagsstefna og framkvæmd hennar er einn þáttur. Sátt við erlenda kröfuhafa fjármálafyrirtækjanna er annar. Við þurfum líka að ná hagvexti upp og tryggja aðgang að erlendum lánamörkuðum.

Í fjórða lagi þarf leysa þann greiðslu- og skuldavanda sem myndaðist hjá heimilum og fyrirtækjum í kjölfar efnahagshrunsins. Heimili og fyrirtæki sem eru í skuldafjötrum eru ekki líkleg til þess að leggja grunn að hagvexti á næstu árum. Reynsla annarra þjóða er að þennan vanda þarf að nálgast af skynsemi og raunsæi og engum er greiði gerður með því að halda til streitu kröfum sem engin forsenda er til að hægt sé að greiða til lengri tíma. Þess vegna höfum við lagt fram skýra sýn til lausnar á skuldavanda heimilanna. Við munum tryggja að allir sem voru í lagi fyrir hrun verði það áfram eftir hrun og flytja áhættu af verðbólgu og gengisfalli af launafólki og á lánveitendur. Við munum jafnframt mæta með fjölþættum aðgerðum þeim stóra hópi sem þarf frekari úrræði til að koma skuldastöðu sinni í horf.</span></p>
<p><span>Loks þarf að leggja grunn að hagvexti hér á landi á næstu árum. Mikilvægur þáttur þess er að forða því að atvinnuleysi festist í sessi og verði langvarandi. Reynsla margra þjóða sýnir að slíkt getur gerst og hér reynir á skapandi hugmyndir til þess að svo verði ekki. Ég fjalla nánar um það hér á eftir.

Nauðsynlegt er að átta sig á því að öll þessi fimm meginverkefni tengjast innbyrðis og styrkja og veikja hvert annað. Nálgast þarf úrlausn þeirra af skynsemi og raunsæi og líta til sem flestra hliða. Mikilvægt er að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi og ekki falla í þá gryfju að taka tilfinningalega afstöðu við úrlausn margra verkefna, þrátt fyrir að þau eigi sér rót í óreiðu og óhófi undangenginnar markaðs- og eignabólu.

Verkalýðshreyfingin hefur í þessum efnum gengið fram fyrir skjöldu. Afstaða hennar hefur birst í þátttöku hennar í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Þar hefur Alþýðusambandið ásamt öðrum samtökum launamanna verið rödd skynsemi og raunsæis og leitað lausna. Það kemur ekki á óvart að svo sé. Fyrir það ber að þakka.

Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um hvernig endurreisninni verður háttað &ndash; hvernig atvinnutækifæri verða til og hvernig við getum skapað ný störf og ný tækifæri. Í því efni þarf að fara saman hugmyndaauðgi og raunsæi. Við hvorki getum né megum hugsa út frá forsendum gærdagsins. Við þurfum tilflutning fólks milli starfsgreina &ndash; úr bóluhagkerfinu í greinar sem skapa samfélaginu langtímaverðmæti. Við munum ekki endurreisa jafn stóran mannvirkjageira og við höfðum og við þurfum að finna þeim mikla fjölda sem vann við sölu- og markaðsstörf í bóluhagkerfinu greiða leið til annarra starfa. Við ætlum ekki að endurreisa gærdaginn.

Umgjörð ríkisrekstrarins setur okkur einnig miklar skorður í þessu efni. Þess vegna skiptir miklu að hugsa nýjar leiðir. Ég kynnti í síðustu viku hugmyndir um átak í byggingu hjúkrunarheimila, sem fela í sér meiri fyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs til verkefnisins og að nýr rekstrarkostnaður leggist ekki á ríkið fyrr en 2014. Sú aðgerð gæti skapað um 1.200 ársverk vítt og breitt um landið á framkvæmdatímanum og rúmast samt sem áður innan þess þrönga fjárlagaramma sem við búum við. Það færir byggingariðnaði verkefni á þeim tíma sem best hentar. Vonandi tekst að koma því þjóðþrifaverkefni af stað á næstu vikum.

Ég er jafnframt með í vinnslu hugmyndir um hvernig greiða megi fyrir lánsfjárframboði til húsnæðiskaupa og húsnæðisbygginga. Það er mikilvægt að koma eðlilegri veltu á fasteignamarkaði í gang, þótt þær birgðir af óseldum íbúðum sem eru á fasteignamarkaðnum muni auðvitað áfram flækja verðmyndun á markaðnum.

Verkefnið í ríkisrekstrinum er tröllaukið. Í kjölfar hrunsins myndaðist um 200 milljarða króna árlegur halli ríkissjóðs. Efnahagsáætlun okkar miðar að því að eyða þeim halla á tveimur árum og skapa afgang til að hefja niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs frá og með árinu 2013. Þannig stuðluðum við að því að létta vaxtabyrði ríkissjóðs og forðum því að vaxtagreiðslur verði stærsti einstaki útgjaldaliður ríkissjóðs til langframa. Ég tel ekki raunsætt að ganga miklu harðar fram í niðurskurði í velferðarkerfinu en þegar raunin. Nú reynir á aðra þætti í ríkisrekstrinum.

Á tekjuhlið er áhersla á að afla tekna með breiðum hætti, þ.e. nýta sem flesta mögulega tekjustofna til að tryggja hámarkslíkur á því að tekjuátakið skili árangri. Raunsætt virðist að tekjuskattslækkanir undanfarinna ára gangi til baka enda ekki innistæða fyrir þeim. Þá eru áform uppi um nýja skattstofna sem eru í samræmi við ný viðhorf og áherslur ríkisstjórnarinnar í auðlinda-, orku- og umhverfismálum. Þessum sköttum er ætlað að tryggja að þjóðin nýti auðlindir sínar með skynsamlegum hætti, njóti sameiginlega afraksturs auðlinda og greitt sé fyrir afnot af sameiginlegum umhverfisgæðum. Auðvitað þarf að ganga skynsamlega fram í þessum efnum og ekki má ofbjóða gjaldþoli þeirra aðila sem þessir skattar beinast að. Þá þarf að virða gerða samninga og taka tillit til gjaldtöku af þessu tagi erlendis með tilliti til samkeppnisstöðu fyrirtækja á Íslandi.

Við heyrum oft nú að skattahugmyndir og fjandsamleg afstaða stjórnvalda komi í veg fyrir atvinnusköpun. Kvótaeigendur óttast um sinn hag. Erlend stórfyrirtæki kvarta sáran undan töfum í stjórnkerfinu og ýmsir ágætir vinir mínir hér innan dyra taka undir þær áhyggjur. Ekki stendur á mér að hvetja til góðra vinnubragða í stjórnsýslu og þess að gætt sé sanngirni í samningum við erlenda fjárfesta.

Við viljum semja við erlend fyrirtæki en ekki upp á hvaða býti sem er. Við erum til dæmis ekki tilbúin að semja um óendanlega skattaafslætti. Atvinnulíf sem ekki getur lagt af mörkum til samfélagsins er ekki upp á marga fiska. Við getum tekið dæmi af sjávarútveginum sem hefur notið ríkulega ávaxtanna af stórfelldri gengisfellingu, en kveinar samt viðstöðulítið undan hugmyndum um hóflega innköllun aflaheimilda. Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna. Gengisfellingin færði peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju. Grátkór og kveinstafir útgerðar og álfyrirtækja er háværari og ágengari á sama tíma og launafólk hefur stillt kröfum í hóf og sýnt mikið þolgæði. Það er íhugunarefni. Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?

Við viljum ekki standa í vegi ákvarðana fyrirtækja um uppbyggingu í Helguvík. Ákvörðun umhverfisráðherra um línulagnir hefur verið gagnrýnd en mér finnst það billegt að reyna að kenna þeirri ákvörðun um tafir. Ákvörðunin mun ekki tefja verkefnið að neinu marki &ndash; og ekkert umfram þær tafir sem stafa af því að framkvæmdaaðilinn hefur ekki tryggt fjármagn til verkefnisins og innlend orkufyrirtæki njóta ekki lánstrausts og vafi leikur á að fullnægjandi orkukostir séu til reiðu. Það eru hinar raunverulegu ástæður tafa í Helguvík. Þá er endaleysan um álverið á Bakka kapítuli út af fyrir sig. Ekkert lýsir betur áherslum ríkisstjórnarinnar en sú ákvörðun að endurnýja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa í óbreyttu formi. Við viljum nefnilega uppbyggingu á Bakka. En við viljum ekki afhenda einum útlendum auðhring sjálfdæmi um álitlegan nýtingarkost og gera öðrum áhugasömum fyrirtækjum ókleift að komast að borðinu. Við höfum á undanförnum árum glatað ótöldum tækifærum með aðferðafræði fortíðarinnar. Við höfum samið á forsendum álfyrirtækjanna án þess að skapa okkur samningsstöðu með nauðsynlegri samkeppni um ólíka kosti.

Þetta er mergurinn málsins. Við eigum að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu en við eigum ekki að sæta afarkostum óforskammaðra kapítalista. Þeir vinna að einu markmiði &ndash; hámörkun arðs. Það vitum við vel af reynslu undanfarinna ára. Við eigum að standa með okkur sjálfum, setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og við eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum. Reynsla nágrannaríkja okkar sýnir skýrt að samkeppnishæfni þjóða og hátt skattastig eru engar andstæður &ndash; þvert á móti er traust velferðarkerfi og afkomuöryggi almennings forsenda efnahagslegrar framþróunar til lengri tíma litið. Þeir sem halda öðru fram hafa ekkert lært af mistökum undanfarinna ára &ndash; og því miður engu gleymt.

Góðir ársfundarfulltrúar.

Við glímum nú við versta atvinnuleysi sem við höfum reynt. Fjöldi þeirra sem glíma við langtímaatvinnuleysi er orðinn meira en helmingur allra á atvinnuleysisskrá. Fjöldi ungs fólks með stutta skólagöngu að baki er óeðlilega hár í þessum hópi. Við höfum af því mikla reynslu sem þjóð að sameinast um að bjarga verðmætum, þegar dropa tekur í þurrt hey eða þegar afli liggur undir skemmdum. Við verðum í þessum anda að sameinast um að bjarga þeim mannlegu verðmætum sem eru í hættu og rétta hönd til þess mikla fjölda sem er í stórhættu að lokast inni í einsemd langtímaatvinnuleysis. Við verðum öll að leggjast á árarnar. Verkalýðshreyfingin býr yfir einstæðu samskiptaneti út um allt land og inn í hvern kima. Ég vil þess vegna bjóða verkalýðshreyfingunni til samstarfs um þjónustu við atvinnulausa. Það er mikils virði ef okkur tekst að nýta hið stóra og víðfeðma tengslanet hreyfingarinnar til að hreyfa við þessum stóra hópi, styrkja hann til góðra verka, efla getu, þekkingu og sjálfstraust.

Framundan eru erfiðir tímar og mikið mun reyna á. Öflug verkalýðshreyfing er mikilvægur bandamaður í þeirri baráttu. Ég þakka okkar góða samstarf á undanförnum mánuðum og hlakka til frekara samstarfs á næstu mánuðum. Verkið er rétt að hefjast.

Ræða flutt á ársfundi Alþýðusambands Íslands, 22. október 2009.