23. 04 2009

Sjálfstæðisflokkurinn tók enn einn snúning á sunnudag og boðaði sjöttu stefnuna í gjaldmiðilsmálum á einu ári. 

Sú vortíska í Evrópustefnu 2009 sem Sjálfstæðisflokkurinn kynnti á landsfundi var endurunnin aflögð stefna VG frá í fyrra um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú stefna á augljóslega engan hljómgrunn meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og flokkurinn þorir ekki með hana, þriggja vikna gamla, í kosningar. 

Nýja stefnan er byggð á flugufregn úr Financial Times frá 5. apríl þar sem vísað var til þess að ótilgreindir sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) teldu skynsamlegt að rýmka skilyrði fyrir því að ESB-ríki fengju að taka upp evru. 

Þessi flugufregn varð rökþrota Sjálfstæðismönnum slíkur happafengur að þeir byggðu á henni nýja peningamálastefnu, sem er eins og aðrar Evrópustefnur flokksins síðasta árið fullkomlega óskiljanleg. Nú er það stefna flokksins að biðja AGS að tala við ESB fyrir Íslands hönd og biðja ESB um að leyfa Íslandi að taka upp evru. 

Þrennt virðist a.m.k. hafa farið framhjá peningamálahugsuðum Sjálfstæðisflokksins: 

1. Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki. Þess vegna á Ísland auðvitað að sækja sín mál sjálft gagnvart ESB. Við þurfum ekkert að hlaupa undir pilsfald AGS í þessu efni. 

2. ESB hefur þegar hafnað hugmyndum um upptöku evru án aðildar að ESB. Hugmyndin í blaðagreininni byggir á að aðildarríkjum að ESB verði auðvelduð upptakan. Mislásu stefnusmiðirnir blaðagreinina? 

3. Í nýju stefnunni felst algert vantraust á íslensku krónuna, en án þess að nokkur framtíðarstefna sé boðuð. Hvað á að gera þegar ESB er búið að segja nei við málaleitan AGS? Á þá að halda áfram með íslenska krónu sem Sjálfstæðismenn hafa sagst vilja losna við? 

Það er dapurlegt að sjá þá djúpstæðu vanmetakennd sem einkennir stefnumörkun Sjálfstæðismanna í Evrópumálum. Menn treysta ekki eigin getu til samninga. Menn treysta ekki á ráðgjöf þeirra sem gerst til þekkja en hlaupa upp til handa og fóta og skipta um stefnu á grundvelli mislestrar á einni blaðagrein í útlendu blaði. 

Er þetta flokkur sem atvinnulífið eða kjósendur geta treyst? 

Birt í Fréttablaðinu, 23. apríl 2009.

06. 04 2009

Hagsmunasamtök í sjávarútvegi og landbúnaði hafa að undanförnu farið mikinn um þær meintu hættur sem aðild að Evrópusambandinu hafi í för með sér fyrir þessar atvinnugreinar og atvinnuhagsmuni í hinum dreifðu byggðum. Fátt er hins vegar fjær sanni þegar mál eru skoðuð af sanngirni. Allir viðurkenna orðið ágæti byggðastefnu Evrópusambandsins, sem styður af krafti við uppbyggingu fjarskipta- og samgöngukerfis. Færri gera sér hins vegar grein fyrir þeim sóknarfærum sem landbúnaður og sjávarútvegur geta átt við aðild að ESB.

Ný og sókndjörf landbúnaðarstefna

Af hálfu Bændasamtakanna hefur málum verið stillt upp á þann veg að valið standi um landbúnaðarstefnu ESB og óbreytt íslenskt stuðningskerfi við landbúnað. Það er ekki raunsönn mynd, því að engar líkur eru á að núverandi stuðningskerfi við íslenskan landbúnað standi til lengri tíma litið. Kerfið stenst ekki skuldbindingar okkar samkvæmt alþjóðasamningum og fyrirsjáanlegt er að við þurfum að draga stuðninginn saman um meira en helming þegar nýr samningur um milliríkjaviðskipti með landbúnaðarvörur tekur gildi, og opna fyrir umtalsverðan innflutning landbúnaðarvara. Það er því tjaldað til einnar nætur með núverandi fyrirkomulagi í landbúnaði.

Framundan er því endurmat á landbúnaðarstefnunni, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Landbúnaðarstefna ESB hefur þegar verið löguð að fyrirhuguðum breytingum á hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi. Þar er stuðningur ekki lengur tengdur framleiðslu heldur er honum ætlað að styðja við fjölbreytt atvinnulíf í hinum dreifðu byggðum. Innan þess ramma gætu fallið, auk hefðbundins landbúnaðar, ótal verkefni sem myndu skapa fjölmörg ný störf í sveitum – umhverfisverkefni á borð við endurheimt votlendis og matvælaframleiðsla sem nýtir staðbundin hráefni, svo dæmi séu nefnd.

Landbúnaðarstefna okkar er í dag bæði einhæf og óskilvirk. Hún styður ekki við þann fjölbreytta landbúnað sem er í landinu, heldur einungis dilkakjöts- og mjólkurframleiðslu. Kvótakerfið í mjólk hefur lagt efnahag fjölmargra bænda í rúst og torveldar nýliðun í greininni. Óbreytt landbúnaðarstefna leiðir óhjákvæmilega til sífellt færri og stærri búa. Það kallar aftur á meiri auðn í sveitum, færri íbúa, færri börn, dýrari skóla og aðra þjónustu og þannig veikara dreifbýli.

Hinn kosturinn er framrás og sókn fyrir íslenskan landbúnað. Er það lögmál að íslensk framleiðsla eigi engin sóknarfæri á erlendum mörkuðum ef þessir markaðir opnast? Allt bendir til að íslenskar afurðir á borð við smjör og skyr hafi mikla sérstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, en á það hefur ekki reynt af alvöru vegna þeirra hafta sem atvinnugreinin hefur búið við.

Bændasamtökin hafa spáð hruni í markaðshlutdeild unninnar mjólkurvöru ef við göngum í ESB. Gott og vel, setjum svo. En hver er valkosturinn? Hver verður markaðshlutdeild innlendra osta þegar við höfum verið knúin til að opna markað okkar í auknum mæli fyrir innflutningi í óbreyttu kerfi, án nokkurra aðgerða til að milda það högg?

Því að höggið kemur, alveg óháð aðild okkar að Evrópusambandinu. Það veit forysta Bændasamtakanna mætavel.
Ný og framsækin landbúnaðarstefna gefur okkur færi á að styðja betur við vaxtarsprota í atvinnulífi á landsbyggðinni. Það eru ekki hagsmunir allra bænda að skilgreina íslenska landbúnaðarhagsmuni jafn þröngt og bændaforystan gerir – sannarlega ekki hagsmunir ferðaþjónustubænda og hrossabænda, svo dæmi sé tekið. Ferðaþjónusta hefur verið vaxandi búgrein, en hún líður fyrir ónothæfan gjaldmiðil og miðstýrða búvöruframleiðslu.

Einn helsti kostur landbúnaðarstefnu ESB er að hún styður sérstaklega við staðbundna búvöruframleiðslu og tengingu hennar við ferðaþjónustu í nágrenni framleiðslunnar. Í því eru sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna sem búgrein.

Íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum. Óbreytt stuðningskerfi fær ekki staðist til frambúðar vegna alþjóðlegrar þróunar. Sú þróun kallar á annaðhvort sókn og nýsköpun eða áframhaldandi undanhald og óhjákvæmilega fækkun starfa í dreifbýli.

Tækifæri í sjávarútvegi

Samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs myndi batna við inngöngu í ESB. Tollar af öllum sjávarafurðum yrðu afnumdir. Sjávarútvegurinn hefur líka – rétt eins og landbúnaðurinn – liðið fyrir sífelldar gengissveiflur og óstöðugleika.

Margs konar ranghugmyndir hafa verið uppi um sjávarútvegsstefnu ESB og um möguleika Íslands til þess að gæta hagsmuna sjávarútvegsins í aðildarviðræðum. Bölsýnisspár sem byggja á neikvæðum viðbrögðum fulltrúa ESB við einstökum óútfærðum hugmyndum eru ekki mikils virði. Hvers virði væru samningamenn ESB ef þeir gæfu út einhliða yfirlýsingar um samþykki við slíkum hugmyndum í íslenskum fjölmiðlum, áður en þær hafa verið settar fram með formlegum hætti eða rökstuddar?
Ísland getur tryggt hagsmuni sjávarútvegsins í aðildarviðræðum. Það er ekki mikill mannsbragur að því að tapa samningaviðræðum fyrirfram og sjálfsögð krafa að á þær verði látið reyna.

Aðild að Evrópusambandinu felur í sér tækifæri til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfi okkar og styrkja efnahagsleg tengsl á milli byggðalaga og útgerðar. Fullt afnám tolla skapar aukin tækifæri til fullvinnslu sjávarafurða á Íslandi, en í sjávarútvegi höfum við mátt búa við stighækkandi tolla þar sem tollar eru lægstir á óunninn fisk, hærri á flakaðan fisk og hæstir á fullunna neytendavöru. Þegar tollarnir hverfa verður hagstæðara að fullvinna vörur hér á landi, sem getur nýst sérstaklega vel til atvinnusköpunar á landsbyggðinni.

Aðild að ESB er ekki töfralausn og halda þarf vel á spöðunum í aðildarviðræðum til að verja brýna hagsmuni landbúnaðar og sjávarútvegs. Um það markmið mun nást víðtæk samstaða hér á landi og enginn stjórnmálaflokkur mun styðja samning þar sem hagsmuna hinna dreifðu byggða er ekki gætt.

Hitt er líka ljóst að í aðild felast mörg ný og spennandi tækifæri fyrir kröftugt atvinnulíf á landsbyggðinni, sem geta skotið fleiri stoðum undir búsetu og mannlíf í dreifbýli. Sú framtíðarsýn hlýtur að verða keppikefli okkar allra.

Birt í Morgunblaðinu, 27. mars 2009.