01. 05 2010 Ákvörðun forsetans um synjun Icesave-laganna er óskynsamleg og setur hagmuni þjóðarinnar í mikla hættu. 

Við höfum oft varað við afleiðingum þess fyrir orðspor þjóðarinnar og viðskiptatengsl hennar ef ekki yrði staðið við ítrekuð fyrirheit um að Íslendingar öxluðu lágmarkstryggingar vegna Icesave-skuldbindinganna. Nú er hætt við að orðspor Íslands bíði hnekki með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf. Við verðum að róa öllum árum til að koma í veg fyrir frekara tjón.
 
Forystumenn stjórnarandstöðunnar láta nú eins og viðbrögð alþjóðasamfélagsins og lánshæfismatsfyrirtækja komi þeim á óvart og kenna blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um þessi viðbrögð. Þessi viðbrögð voru algerlega fyrirsjáanleg og ítrekað við þeim varað. Nú skiptir mestu að forða frekara tjóni og að því er nú unnið af krafti. 

Því verður þó ekki á móti mælt að forseti lýðveldisins hefði létt ríkisstjórninni úrvinnslu málsins og auðveldað samskipti við önnur lönd ef hann hefði virt ríkisstjórnina viðlits og gefið henni í trúnaði upplýsingar um fyrirhugaða ákvörðun sína með þó ekki hefði verið nema hálftíma fyrirvara. 

Við tókumst á hendur að greiða úr þeirri óreiðu sem leiddi af hruninu. Þetta ástand er ein birtingarmynd þeirrar óreiðu og óvissu. Við ætlum ekki að bila í þeirri baráttu. Það er afar brýnt að við vinnum nú úr þessari stöðu til að halda áfram þeirri endurreisn sem hafin er. Við þurfum að einbeita okkur að því að styðja við heimili í erfiðri stöðu og skapa fyrirtækjum tækifæri til að ráða fleira fólk í vinnu. Því fyrr sem við getum helgað okkur þeim brýnu verkefnum, því betra.