15. 10 2011

 - Hugleiðingar í aðdraganda Landsfundar II -

 Fyrsta grein sem ég skrifaði í Þjóðviljann – 28. júlí 1987 – bar þetta heiti. Hún fjallaði um þann flokk sem ég þá var að hefja starf í – Alþýðubandalagið – og hvatti fólk til umhugsunar um hvort það vildi frjálshuga flokk með valddreifða sýn eða flokk kreddufestu og leiðtogaræðis.

Félagshyggjufólk úr öllum áttum svaraði þessari spurningu skýrt með stofnun Samfylkingarinnar. Samfylkingin byggði frá upphafi á valddreifingu og valdeflingu og leiddi saman ólíka hópa, sem allir þráðu nýja sýn. Sumir höfðu unnið innan stjórnmálaflokka sem voru of bundnir af þrasi dagsins í dag, eilífri stöðu- og valdabaráttu og gáfu fólki lítið rúm til að vera það sjálft. Margir þekktu af eigin reynslu hið óbærilega stjórnlyndi og flokksforystu sem var búin að leggja línur og gaf lítið rúm til lýðræðislegrar umræðu. Allir þekktu flokksklíkurnar, sem í krafti þaulsetu höfðu alltaf dagskrárvald og gátu alltaf talað alla í kaf. Flestir þekktu skilgreiningardauðann – hina hugmyndafræðilegu lömun sem leiddi af því að búið var að skilgreina allt til dauðs. Enginn mátti fá nýja hugmynd, því hún fól alltaf í sér eitthvað slæmt. Hún ógnaði ýmist hugmyndafræðilegum hreinleika, viðteknum venjum eða hagsmunum forystunnar.

Samfylkingin þarf á umrótstímum að rifja upp þennan bakgrunn. Hvers vegna mælist Besti flokkurinn með mikið fylgi á landsvísu, þrátt fyrir aðild að óvinsælum ákvörðunum í Reykjavík? Vegna þess að liðsmenn hans hafa – þrátt fyrir allt – sýnst vera ósköp venjulegt fólk sem tekst á við ósköp venjuleg erfið úrlausnarefni af heiðarleika og sanngirni. Þau eru ekki að flytja dogmatískar ræður um hvort þessi eða hin ákvörðunin feli í sér svik við þessa eða hina hugmyndafræðina. Þau eru ágætlega laus við skilgreiningardauðann.

Er það endilega rétt nú að loka Samfylkingunni frekar og múra hana inn á bak við heilög vé flokksbanda? Er rétt að útiloka skráða stuðningsmenn frá aðkomu að ákvörðunum? Við höfum vissulega vonda reynslu af galopnum prófkjörum, en líka ágæta reynslu af prófkjörum þar sem skráðir stuðningsmenn geta tekið þátt. Er rétt að útiloka þann kost? Um síðustu helgi var árangur franskra jafnaðarmanna í prófkosningu metinn í góðri kjörsókn í prófkosningu forsetaframbjóðenda, þar sem öllum sem borguðu eina evru og lýstu stuðningi við flokkinn bauðst að kjósa. Og hvað með breska verkamannaflokkinn, sem ætlar nú að opna val formanns fyrir skráðum stuðningsmönnum? Eru þessir flokkar bara hugsjónalaus leiguþý og handbendi auðmanna?

Stjórnmál eru ekki upphaf og endir lífsins hjá þorra þjóðarinnar. Fólk vill gott og siðað samfélag og vill helst sinna sínu. Það vill gjarnan fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en þegar því hentar og á þeim forsendum sem það sjálft kýs. Og það vill oftast ekki vera flokksbundið og hefur fyrir því margar góðar ástæður.

Í fyrsta lagi er það útbreiddur misskilningur að lýðræðislegt umboð aukist með því að flokksstofnanir taki fleiri og fleiri ákvarðanir um alla þætti stefnu flokka. Fólk sem mætir á fundi endurspeglar ekki kjósendahóp Samfylkingarinnar, frekar en flokksmenn annarra flokka endurspegla kjósendahóp þeirra. Fólk vill sinna sínu. Ef fólkið sem mætir á fundi myndi endurspegla kjósendahópinn væri það ekki á fundi, heldur heima hjá sér að tala við börnin sín, lesa eitthvað skemmtilegt eða horfa á sjónvarpið. Þar er jú kjósendahópurinn. Kjósendahópurinn á ekkert síðri rétt en flokksbundið fólk. Hann er frjómagn lýðræðislegrar hreyfingar, ekkert síður en skráðir félagar. Fólk sem mætir á fundi hefur sérstakan áhuga – og jafnvel sérstakar aðstæður – sem gera því kleift eða valda því að það sækir fundi af miklum þrótti. En sú staðreynd gerir það ekki þess umkomið að tala fyrir alla fylgismenn Samfylkingarinnar.

Í annan stað eru sífellt fleiri störf í samfélaginu þess eðlis að flokksaðild fer illa með því að þeim sé gegnt. Þetta eru störf sem byggja á einhvers konar trúnaðarskyldu. Þeir sem þeim gegna geta illa verið bundnir á klafa flokks, vegna trúnaðar við fag sitt eða þau verkefni sem þeim hefur verið trúað fyrir. Er það yfirveguð afstaða Samfylkingarinnar að loka dyrunum gagnvart þessu fólki?

Í þriðja lagi hefur umræða gagnvart flokksbundnu fólki líklega aldrei verið jafn andstyggileg og hatursfull og nú í almennri umræðu hér á Íslandi. Flokksbundið fólk, sem ekkert hefur til saka unnið annað en að sækja um starf og fá það, þarf að sæta alls konar ámælum og áburði.   

Í fjórða lagi eru viðhorf gagnvart stjórnmálaflokkum nú einstaklega neikvæð og látið er sem stjórnmálaflokkar gegni engu jákvæðu, lýðræðislegu hlutverki. Stjórnlagaráð kemst að þeirri niðurstöðu að veikja skuli hlut stjórnmálaflokka og leggur höfuðáherslu á fullt persónukjör stjórnmálamanna, án aðkomu flokka. Á sama tíma lítur systurflokkur okkar í Noregi á eflingu lýðræðislegra stjórnmálaflokka sem brjóstvörn lýðræðis gagnvart villimannslegri árás. Áhrifa þess virðist að engu gæta hér á landi.

Ísland stendur á tímamótum. Gömul valdaöfl eiga í miklum tilvistarvanda og fornir valdaflokkar eru ófærir um að svara þörfum hófsams miðjufólks sem þráir að sjá á Íslandi kraftmikið alþjóðavætt athafnalíf, samhliða félagslegu réttlæti. Við þessar aðstæður væri það ótrúlegt axarskaft af Samfylkingunni að loka sig af og þróast í gamaldags stjórnmálaflokk. Það fer henni ekki og hugmyndir um slíkt virðast til vitnis um djúpstæðan skort á sjálfstrausti. Við ætluðum ekki að búa til svoleiðis flokk. Við ætluðum að losna úr viðjum lítilla og stjórnlyndra flokka og búa til lýðræðislega fjöldahreyfingu.

13. 10 2011

- Hugleiðingar í aðdraganda Landsfundar I -

Þegar ég fór í framboð 2007 kusum við í Suðvesturkjördæmi okkur kjörorðið „Jöfn og frjáls“. Ungir jafnaðarmenn byggðu sína kosningabaráttu á þessu sama kjörorði – það féll vel í kramið hjá ungu fólki sem vildi frelsi, samhliða félagslegri ábyrgð og jöfnuði. Þetta hugtak átti svo vel við þá stefnu sem við fluttum fram, að okkur þótti einboðið að nota það aftur 2009. Það hafði staðist efnahagshrun og hugmyndalega deiglu.

Samfylkingin var stofnuð til að verða öðruvísi flokkur. Við höfðum mörg reynslu af veru í stjórnlyndum flokkum, þar sem hverri nýrri hugmynd var tekið sem ógn í krafti hugmyndafræðilegs rétttrúnaðar eða rótgróinna hagsmuna og hún túlkuð sem svik við eina hugsjón eða aðra. Samfylkingin átti að vera flokkur venjulegs fólks þar sem við leituðum samstöðu á grundvelli jafnaðarstefnunnar með fordómalausum hætti.

Þróun stjórnmálanna síðustu ár hefur borið okkur nokkuð af þessari leið. Góður maður sagði við mig nýlega að stærsta fórnarlamb hrunsins væri frelsið. Við vantreystum getu okkar til að stjórna samfélaginu með frjálsum athöfnum okkar og fyllumst efasemdum um að valddreifð fyrirbæri eins og frjálsir markaðir geti skilað fullnægjandi árangri. Við köllum í staðinn eftir stjórnvaldsaðgerðum – lögum og reglum, boðum og bönnum.

Innan Samfylkingarinnar hefur margt verið sagt og ekki allt skynsamlegt um hugmyndaarf flokksins og stefnumál hans á fyrsta áratug aldarinnar. Margir virðast fullir sjálfsásakana um glópsku gagnvart peningaöflum og meintar yfirsjónir sem af henni hafi leitt. Ég skil það um sumt en að flestu leyti er ég ósammála því mati. Samfylkingin studdi einkavæðingu bankanna, en gagnrýndi harðlega aðferðina við þá einkavæðingu. Ég hef enn ekkert séð sem styður þá skoðun að einkarekstur fjármálastofnana sé skaðlegur efnahagslegu öryggi, en sala þeirra til vildarvina er það sannarlega. Þar hefur Samfylkingin algerlega hreinan skjöld.

Það er ekki heldur þannig að Samfylkingin hafi talað fyrir einhverri allsherjarauðvaldsvæðingu samfélagsins. Sumir nefna „Blair-isma“ til sögunnar, en skýra ekki hvað við er átt. Samfylkingin lagði áherslu á ábyrga og agaða markaði og varaði við efnahagsstefnu sem leiddi til bóluhagkerfis. Leitað var til fremstu alþjóðlegra sérfræðinga, á borð við John Kay, um leiðsögn í því efni. Skilgreiningar hans á öguðum mörkuðum í almannaþágu eiga jafn vel við í dag og þær áttu við fyrir 8 árum síðan þegar hann kom á Landsfund Samfylkingarinnar. Viðvaranir hans um veikleika óhefts kapítalisma að bandarískri fyrirmynd lutu að því hagkerfi sem við bjuggum við fyrir hrun.

Það var margt sem brást í hruninu. Við reyndum veikleika sjálfstæðrar peningamálastefnu í litlu, alþjóðavæddu hagkerfi. Við henni hafði Samfylkingin varað, ein flokka og boðið upp á valkost. Við sáum hvað gerist þegar fákeppnismarkaðir í taumlausri auðsöfnun fá að ráða. Við því hafði Samfylkingin líka varað og boðið upp á valkost.

Gylfi Þ. sagði réttilega fyrir mörgum áratugum að markaðurinn væri þarfur þjónn en afleitur herra. Sú staðhæfing eldist vel. Markaður er óhjákvæmilegur þáttur frjálslyndrar jafnaðarstefnu og forsenda frelsis í daglegu lífi. Við eigum í grunninn bara tvo kosti til að ná samfélagslegum árangri. Önnur er leið boða, hafta og ófrelsis. Hin er leið verðmætadreifingar um ábyrga og vel reglaða markaði, þar sem hver og einn fær ráðið sínum næturstað. Markaðurinn getur veitt samfélaginu ómetanlegan aga, þar sem lélegar lausnir falla og verða að engu ef enginn vill þær. Frjálst val fólks ræður þróun samfélagsins. Forskriftir í miðstýrðu samfélagi lifa hins vegar hvort sem þær eru skilvirkar eða gagnslausar. Stjórnmálamenn sem þrá að leysa vanda neita að horfast í augu við það þegar lausnin virkar ekki og skammast út í allt og alla – embættismenn, skrifræðið, fjölmiðla eða bara einhvern.

Tillögur Samfylkingarinnar um aukna áherslu á ábyrga markaði og nýtingu þeirra voru í fullu samræmi við þessa hugsun og tóku til allra markaða. Samfylkingin sótti líka í smiðju jafnaðarmanna víða um lönd um hvernig hægt væri að nýta markaði enn víðar en á hefðbundnum viðskiptasviðum. Ný lög um sjúkratryggingar miðuðu að því að tryggja rétta verðlagningu í heilbrigðisþjónustu og að almannahagsmuna yrði gætt í útvistun. Tillögurnar voru sniðnar eftir fyrirmynd frá sænskum sósíaldemókrötum. Togstreitan um það mál á þingi er mjög gott dæmi: Áherslur hægrisins voru að veikja aðhaldið og gefa stjórnvöldum tækifæri til að gera samninga við vildarvini án viðhlítandi kostnaðargreiningar. Það mátti ekki einu sinni standa í lögunum að veita skyldi heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Áherslur vinstrisins voru að forðast með öllum tiltækum ráðum að raunverð þjónustu yrði ljóst og hagsmunir veitenda þjónustunnar réðu en ekki hagsmunir almennings. Þarf Samfylkingin að skammast sín fyrir þessa varðstöðu um almannahag?

Jöfnuður er grundvallarmarkmið jafnaðarmanna. En honum verður ekki heldur náð með valdboði. Ekkert okkar vill minna endurgjald en náunginn við hliðina á okkur fær fyrir sömu vinnu og ekkert okkar vill sama endurgjald og sá sem vinnur við hliðina á okkur og stendur sig til muna verr, mætir seint, fer snemma og vinnur illa. Öll viljum við að sérþekking okkar, hæfni og reynsla endurspeglist í launum. Jöfnuður þarf því alltaf að fara saman við sanngjarnt endurgjald fyrir áhættu og dugnað.

Samfylkingin á ekki að vera stjórnmálaflokkur stjórnlyndis, einsleitni og forskrifta. Valddreifing verður best tryggð með skynsamlegri notkun virkra og öflugra samkeppnismarkaða, án sérréttinda og hafta. Hagsaga Íslands er saga einhæfni í atvinnulífi, fákeppni á öllum helstu mörkuðum og algerrar stjórnar forréttindastétta á aðgangi fólks að peningum og aðstöðu. Það er tími til kominn að skapa samfélag þar sem fólk ræður örlögum sínum sjálft, en þarf ekki að eiga afkomu sína eða velferð undir skömmtunarvaldi stjórnvalda.

Þannig verðum við sannanlega „Jöfn og frjáls“. Ég er strax farinn að hlakka til að heyja kosningabaráttu 2013 undir þessu kjörorði.

  

06. 10 2011

Mætti í gær í yfirheyrslu í nýja efnahags- og viðskiptanefnd, sem send var út í beinni útsendingu á vef Alþingis. Hlekkur er hér á upptöku af fundinum http://www.althingi.is/upptokur/horfa_nefnd_asf.php?faerslunr=5360  - þetta er vissulega langt, en ágætlega fróðlegt og meira að segja skemmtilegt á köflum. Helgi Hjörvar hafði skynsamlega háttu á spurningum, þannig að nefndarmenn fengu að spyrja og þráspyrja.

Umræðan fór um víðan völl enda verkefni ráðuneytisins margvísleg og við að vinna að mörgum málum, svo sem stefnumörkun í erlendri fjárfestingu og umbótum í skipulagi fjármálamarkaðar. Skuldirnar fengu líka drjúgan tíma.

Í huga mínum stendur eitt atriði eftir: Þingmenn verða að horfast í augu við það að ráðherrar starfa í umboði þings. Ég get ekki sem ráðherra markað aðra stefnu í afskriftum skulda, en þá sem byggist á lögum sem Alþingi hefur sett. Svigrúm Alþingis til slíkrar lagasetningar takmarkast af stjórnarskrá landsins og túlkun Hæstaréttar á henni. Öll sú umgjörð sem nú er unnið eftir við skuldaúrvinnslu heimila og fyrirtækja hefur verið mörkuð af Alþingi með þverpólitískri samstöðu. Það er nú staðreynd mála.

01. 10 2011

Í guðsþjónustu við þingsetningu í dag lagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir út frá þessari spurningu frelsarans með ágætum hætti.

Á okkur sem þjóð hafa dunið ýmis áföll undanfarin ár. Erfiðast við þau áföll eru ekki áföllin sjálf, heldur viðbrögð okkar við þeim. Við höfum ekki náð samtali og samstöðu um leiðina áfram. Þjóðmálaumræðan einkennist af hringrás upphrópana og stóryrða. Hver dagur er alveg eins og dagurinn í gær.

Upplausnin birtist líka í stöðugum skeytasendingum milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins, linnulausu málþófi á Alþingi og í orðaskaki ráðherra og forseta lýðveldisins. Allir tala, en enginn hlustar.

Spyrja má hvort okkur standi nú orðið á sama um Ísland? Viljum við ekki lengur verja lýðveldið og stofnanir þess? Erlend stórríki lýstu okkur gjaldþrota vanskilaþjóð árið 2008. Okkur tókst að varna þeim örlögum. Alþingi er grunnstoð ríkisins, en allir virðast uppgefnir á að verja það og starfsfrið þess. Lýðræðisleg þingstörf geta ekki þrifist undir ógnunum og árásum. Við höfum látið slíkt átölulaust frá 2008 og uppskerum nú eins og til var sáð.

Þingsetningin er forn hefð þessarar stofnunar – opin og berskjölduð athöfn. Athyglisvert er að enginn virðist vilja standa vörð um þingsetninguna á forsendum hefðarinnar.  Hvert erum við komin þegar lögreglumenn skipuleggja mótmæli í aðdraganda þingsetningar, dómarar Hæstaréttar mæta ekki til þings í fyrsta sinn frá stofnun réttarins og forsetafrúin snýr baki í þingið og setur einkaleikþátt á svið?

Þversögnin er sú að þrátt fyrir þessa þverbresti og ósamstöðu hefur Ísland reynst sterkara en menn héldu og efnahagsleg staða landsins er betri en hjá flestum þjóðum sem þó hafa glímt við minni vanda. Erlendir viðmælendur efast ekki lengur um getu okkar til að snúa vörn í sókn, en þeir spyrja æ oftar hvort einhverjar líkur séu á að við náum saman um leiðina áfram.

Það eru dæmi um ríki sem hafa festst í vítahring stjórnleysis og upplausnar í kjölfar efnahagsáfalla vegna þess að þau hafa aldrei geta sameinast um leiðina fram á veg. Verður það hlutskipti Íslands?

Hvernig svörum við spurningunni: Viltu verða heill? Viljum við það? Viljum við sættast og græða sár? Viljum við kveðja ofbeldisfulla orðræðu öskurs, málþófs, þrætubóka, ásakana, gagnásakana og útúrsnúninga?

Við getum ekki frestað því mikið lengur að svara þessum grundvallarspurningum.