25. 11 2011

Ákvörðun innanríkisráðherra í morgun vekur óhjákvæmilega spurningar um ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstri Grænna. VG virðist finnast það sjálfsagt mál að skrifa upp á stjórnarsáttmála og stefnumörkun um mikilvægi erlendrar fjárfestingar, en mæta svo öllum erlendum fjárfestingaráformum með tortryggni og með því að gera einstökum fjárfestum ávallt upp annarleg sjónarmið. Öllu virðist tjaldað til og tilgangurinn helga meðalið: Í fyrra sætti Magma fordæmingu fyrir að hafa stofnað skúffufyrirtæki um fjárfestingu á Íslandi en í dag er höfuðrökstuðningur fyrir synjun innanríkisráðherra sá að félag í eigu Nubo sé ekki skráð á Evrópska efnahagssvæðinu. Skilaboðin til erlendra fjárfesta eru skýr: Öllu verður snúið á haus til að verjast erlendri fjárfestingu.

Í minnisblaði sem ég sendi innanríkisráðherra var ítarlega rakið hversu mikilvæg erlend fjárfesting væri fyrir íslenskt efnahagslíf. Þjóðin er ung og þarf erlent fé. Undanfarna áratugi höfum við byggt alfarið á lánsfé, með hörmulegum afleiðingum. Hrunið hefur kennt okkur að velsæld verður ekki byggð á lánsfé. Þess vegna er erlend fjárfesting nauðsynleg, óháð því hvort Nubo kemur eða fer.

Staða efnahagsmála er sérstaklega viðkvæm nú, þar sem boginn var spenntur til hins ítrasta með gerð kjarasamninga á liðnu vori, þar sem samið var um kjarabætur umfram það sem efnahagslífið stendur nú undir og miklar byrðar lagðar á ríkissjóð. Lélegur gangur í nýfjárfestingu frá gerð þeirra er að valda því að allar líkur eru á að ávinningur af gerð kjarasamninganna verði lítill sem enginn og kauphækkanir brenni upp í verðbólgu að vanda. Einstök fjárfestingaráform hafa því miður oftar en ekki strandað á ríkinu.

Öll Norðurlöndin glímdu við alvarlega efnahagskreppu á níunda og tíunda áratugnum. Þau brugðust öll við þeim með sama hætti. Höfuðáhersla var lögð á víðtæka pólitíska samstöðu um leiðina fram. Aðalmarkmiðið var lágt og stöðugt verðlag, trygg réttindi launafólks og öflugt efnahagslíf, byggt á miklu athafnafrelsi og erlendri fjárfestingu. Þau hafa uppskorið ríkulega, með efnahagslegum stöðugleika og vaxandi kaupmætti byggðum á raunverulegum ávinningi. Víðtæk samstaða þvert á flokka er að baki helstu aðgerðum á sviði efnahagsmála á hverjum tíma, óháð því hver er við stjórn.

Okkur rekur hraðbyri í öfuga átt. Kjarasamningar kynda undir verðbólgu og einstakir ráðherrar geta stöðvað fjárfestingaráform þótt fyrir þeim sé meirihluti á þingi. Áfram ráða átök og pópúlismi sem lyftir órökstuddum sérskoðunum fram yfir almannahagsmuni. Allir viðurkenna í orði nauðsyn stöðugleika og sjálfsbærs hagvaxtar, en enginn telur sig skuldbundinn til að vinna að því markmiði ofar öðru.  

Ríkisstjórnin var mynduð um efnahagslegan stöðugleika, endurreisn og opið hagkerfi og hlýtur að standa við þau markmið. Ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna getur ekki elt sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna né borið ábyrgð á skilaboðum til umheimsins um lokun landsins og ómálefnalegar hindranir viðskipta. Raunsæi í efnahagsmálum er skylda okkar allra hvar í flokki sem við stöndum.

Er það virkilega þannig að versta efnahagskreppa í 80 ár dugi ekki til að Íslendingar breyti um takt? Er okkur ómögulegt að sameinast um brýnustu verkefnin á sviði efnahagsmála? Getum við ekki kvatt átakastjórnmál gærdagsins?

17. 11 2011

Ég hélt erindi á fundi Félags viðskipta og hagfræðinga í hádeginu. Fundarefnið var spurningin „Hvernig hagstjórn þarf Ísland?“. Þegar ég glímdi við þessa spurningu vaknaði strax önnur í huga mér: „Þarf Ísland hagstjórn?“. Ef maður svarar henni játandi þarf næst að svara spurningunni: „Vill Ísland hagstjórn?“.  

Vill Ísland hagstjórn? Viljum við stöðugt verðlag framar öðru? Stöðugt gengi og traustan hagvöxt? Reynslan bendir því miður ekki til þess, þrátt fyrir fögur orð stjórnmálamanna og forsvarsmanna aðila vinnumarkaðar á tyllidögum. Allt of oft höfum við teflt á tæpasta vað, með afdrifaríkum afleiðingum.

Ég vitnaði í máli mínu í Jónas H. Haralz, sem vísaði í Velferðarríki á villigötum til þess að sameiginleg áföll gætu skapað sameiginlega sýn um úrlausn mála og nýjar meginákvarðanir í efnahagsmálum. Hann sagði:

„Til eru þeir tímar að tiltölulega auðvelt er að ná einingu. Þetta eru tímar sterkrar eða almennrar tilfinningar um sameiginlega ógnun eða hættu, hvort sem sú hætta kemur að utan eða innan. Slíkir tímar geta einnig fylgt í spor djúpstæðrar reynslu, sem mönnum hefur fundist ógna sjálfri tilveru samfélagsins. Þessi tilfinning hefur sameiginlega hagsmuni yfir sérhagsmuni. Þetta eru tímar meiri háttar umbóta, þegar unnt er að marka og framkvæma virka og árangursríka stefnu í efnahagsmálum.“ 

Dugar alvarlegasta efnahagsáfall í 80 ár til að við getum náð saman um meginreglur agaðrar hagstjórnar, eða þarf meira til?

Skiljum við nú loks að mikilvægasta verkefnið er að reka ríkissjóð með afgangi og tryggja lága verðbólgu?

Getum við sameinast um leiðina fram á veg?