22. 06 2011

Fréttir berast nú reglulega frá Grikklandi af erfiðleikum og stjórnmálalegri upplausn og vaxandi vantrú er á vilja og getu Grikkja til að leysa vandann. Áhættuálag á landið er orðið svo gríðarlegt að árangur af skynsamlegri umbótaáætlun gæti orðið skjótvirkur. Samstöðuleysið er líklega alvarlegasta efnahagsvandamál Grikkja.

Saga Grikkja er okkur holl áminning. Grikkir ofskuldsettu sig með ámóta hætti og íslensk sveitarfélög, heimili og fyrirtæki, á þeim tíma þegar aðgangur að lánsfé á góðum kjörum var ótakmarkaður. Í kjölfar aðildar Grikklands að evrunni átti gríska ríkið – og þannig líka grísk sveitarfélög og fyrirtæki – kost á ódýrara lánsfé en nokkru sinni fyrr og freistuðust til að taka mikið að láni, því afborganirnar voru svo auðveldar. Nú, þegar áhættuálag eykst, hækkar tilkostnaðurinn við skuldirnar.

Allir eru sammála um að Grikkland sé spillt land. Og víst er um þar að þar í landi eru skattar ekki innheimtir nema eftir hentugleika, vildarvinum er raðað í opinber embætti og njóta eftirlaunaforréttinda. En þessi mynd er okkur líka kunn. Þetta er ekkert ósvipað og Ísland árið 1975. Vildarvinir fengu þá að fresta skattgreiðslum á lágum nafnvöxtum á meðan að óðaverðbólga vann á skattskuldinni. Vildarvinir fengu líka lán á lágum nafnvöxtum í bönkum í ríkiseigu. Opinber störf voru frátekin fyrir vildarvini.

Allt á þetta að vera okkur holl áminning. Við njótum nú þess að skynsamir stjórnmálamenn tóku á því ófremdarástandi sem ríkti á Íslandi á áttunda og níunda áratugnum. Bundinn var endir á pólitískar lánveitingar á niðurgreiddum vöxtum og skattkerfið endurbætt, með staðgreiðslu skatta og virðisaukaskattsinnheimtu með ströngum viðurlögum. Fyrir vikið höfum við búið við heilbrigða innviði til að takast á við efnahagserfiðleika síðustu ára.

Margt er enn ógert á Íslandi. Við verðum að halda áætlun um afgang á ríkisfjármálum árið 2013 til að tryggja að Ísland sogist ekki inn í hringiðu vanskila og efnahagslegra erfiðleika. Og við verðum að læra að sameinast um verkefnin sem varða leiðina út.

Birt í Fréttablaðinu, 22. júní 2010.