21. 09 2011

Stóð með Össuri á ganginum í flugvélinni á leiðinni vestur um haf. Hann var á leið til í New York á Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og ég á leið til Washington á ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við vorum að rabba um stöðu mála þegar flugfreyjan gekk framhjá og bauð okkur eyðublöð fyrir innflytjendaeftirlit í Bandaríkjunum. Ég tók hvítt blað, þar sem ég er með vegabréfsáritun. Þegar ég ætlaði að byrja að fylla út eyðublaðið kom í ljós að annar farþegi hafði byrjað á því, en ekki lokið við það.

Í fyrstu línunni var skrifað stórum stöfum: D O R R I T. 

16. 09 2011

Mikið hefur að undanförnu verið rætt um gjaldeyrishöftin og hvernig við getum komist úr þeirri ömurlegu stöðu að hafa hér gjaldeyrishöft. Kostnaður við þau er mikill og hann vex, eftir því sem þau eru lengur við lýði. Atvinnulíf sem venst höftum verður óhagkvæmt og óarðbært. Samkeppnisgreinar sem byggja á þekkingu og hugviti geta illa vaxið hér á landi í umhverfi gjaldeyrishafta. Því skiptir öllu að koma sem fyrst á þeim aðstæðum að við getum létt af höftum og búið þekkingargreinum vaxtarskilyrði hér á landi, með opnum fjármagnsflutningum, traustari gjaldmiðli og meiri stöðugleika.

En gjaldeyrishöftin skýla okkur líka. Nú þessar vikurnar eru miklar víðsjár á fjármálamörkuðum í Evrópu og margir óttast nýja bankakreppu þar. Við erum óhult fyrir þeirri áhættu, vegna haftanna. Þau eru líka mikilvæg á meðan fjármálakerfið hefur ekki náð að vinna úr afleiðingum hrunsins.

Eftir umræðu um gjaldeyrishöftin í þinginu að undanförnu er það niðurstaða mín að óhjákvæmilegt sé að setja með skýrari hætti fram verkáætlun um þau mál sem taka þarf á til að auðvelda afnám hafta og flýta því. Með því getum við gefið innlendum samkeppnisfyrirtækjum skýrara fyrirheit um einarðan vilja okkar til að afnema höftin. Til að svo megi verða þurfum við hins vegar að sameinast um að fara að tala um það sem máli skiptir – meðal annars hvaða fyrirkomulag við getum haft um gengis- og peningamál eftir höft. Ég er ánægður að hafa fundið fyrir vilja forystumanna allra flokka til að takast þetta verkefni á hendur.

Í þeim anda hef ég gefið yfirlýsingu í þinginu um helstu verkefni og breytingar á frumvarpinu, á eftirfarandi grunni:

  1. Tímamörk afnáms gjaldeyrishaftanna verði mun skemmri en nú er gert ráð fyrir. Heimilt verði að viðhalda höftum til 31. desember 2013. Því verði þó haldið opnu að heimild til að viðhalda höftum verði framlengd en þó ekki lengur en brýnasta nauðsyn krefur.
  2. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun óska eftir tímasettri áætlun frá FME fyrir 1. nóvember 2011 um þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að búa fjármálakerfið undir afnám hafta, með úrvinnslu efnahagsreikninga og uppbyggingu innviða. Fyrsta skrefið er lögfesting nýs innstæðutryggingakerfis fyrir lok þessa árs. Samstaða er um greiða þinglega meðferð þess frumvarps. Tímalengd lagaheimildar um afnám hafta verði endurmetin til styttingar í ljósi þessarar áætlunar.
  3. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun skipa þverpólitíska nefnd sérfræðinga sem meti áfram svigrúm til að flýta afnámsferlinu og veiti stjórnvöldum og Seðlabanka aðhald. Ráðherra mun, fyrir lok október 2012, leggja fyrir Alþingi mat á því hvort áfram sé þörf á að höft verði við lýði til loka árs 2013 eða hvort forsendur séu til styttingar lagaheimildarinnar.
  4. Farið verði yfir lagaákvæði um gjaldeyrishöft og kannaðir möguleikar á að einfalda ákvæði laganna og fella út óþarflega íþyngjandi atriði er lúta að heimildum heimila og fyrirtækja. Frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi ekki síðar en 1. nóvember 2011.
  5. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun leggja fram skýrslu, og frumvarp ef þarf, fyrir Alþingi um nauðsynleg þjóðhagsvarúðartæki til að greiða fyrir afnámi hafta, fyrir lok febrúar 2012.
  6. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka til samráðs um mótun gengis- og peningamálastefnu, í samræmi við það fyrirheit um samráð sem gefið var í upphafi árs. Frumvarp til breytinga á einstökum atriðum í lögum um Seðlabanka Íslands verður lagt fram á vorþingi 2012 og Alþingi gefst þá færi til að fjalla um lagagrunn peningamálastefnunnar.
  7. Efnahags- og viðskiptaráðherra mun leggja skýrslu fyrir Alþingi um umgjörð fjármálamarkaðarins í nóvember 2011, sem fari til efnislegrar umræðu og afgreiðslu í nefnd. Sérfræðingahópur, með aðkomu erlendra sérfræðinga, mun vinna tillögur að lagabreytingum á grunni skýrslunnar sem lúta að umgjörð fjármálamarkaðar og stjórnskipulagi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Þær tillögur verða lagðar fram í frumvarpi haustið 2012.

Með þessu móti setjum við stefnuna til framtíðar. Við viljum að Ísland sé í vari gjaldeyrishafta á meðan nauðsynlegt er, en ekki stundinni lengur.   

     
16. 09 2011

Kaupsamningur kínversks athafnamanns, Huang Nobu, við hluta eigenda jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum hefur orðið mörgum umfjöllunarefni á undanförnum vikum. Þar vill hann skapa aðstöðu fyrir gesti til að kynnast fásinninu og hinu stórbrotna og hrjúfa landslagi sem staðurinn býður upp á.

Einn angi þessa máls hefur lítið verið ræddur. Hann er sá að með kauptilboðinu hefur myndast vísir að verði á þeim víðernum sem Ísland hefur að geyma. Hingað til hefur verð á bújörðum að mestu endurspeglað afrakstursgetu jarðanna í þágu landbúnaðar. Verð jarða á svæðum í námunda við höfuðborgina hefur þó spennst upp á undanförnum árum vegna áhuga betur stæðra einstaklinga – innlendra og erlendra – á að eiga jarðnæði sér til hugarhægðar og skemmtunar.

Verð á ósnortnum víðernum hefur hins vegar í engu breyst og er lítið sem ekkert. Fyrir vikið hefur verðmæti náttúrunnar – heiða, hrauns og sanda – verið skipulega vanmetið. Vegagerðin hefur litlar áhyggjur þurft að hafa af því að spilla ósnortnu landi undir vegstæði, því verðmæti þess hefur verið lítið þegar komið hefur til eignarnáms. Í mati á umhverfisáhrifum stórframkvæmda hefur verðmæti víðerna, útsýnis og landslagsheilda verið vanmetið, á meðan að efnahagslegur ávinningur af framkvæmd í þágu orkusölu hefur verið augljós og óumdeildur. Fyrir vikið hallar alltaf á náttúruna í mati á því hvort stórframkvæmdir sem kalla á miklar fórnir ósnortinna víðerna séu réttlætanlegar.

Vilji Huang Nobu til að kaupa gagnslítil víðerni háu verði er því sérstakt ánægjuefni fyrir þau okkar sem höfum viljað að menn tækju tillit til mikilvægis auðnanna og víðernanna við mat á arðsemi stórframkvæmda og mun, ef af samningum verður, draga úr ágengni framkvæmdaaðila gagnvart víðernum í framtíðinni.

Og kannski er það eftir öðru að það þyrfti útlending til að hjálpa Íslendingum að meta til sannvirðis víðerni í náttúru Íslands.

Birt í Fréttablaðinu, 16. september 2011.

15. 09 2011

Jafnaðarmenn, undir forystu Helle Thorning-Schmidt, unnu stjórnarforystu í kosningunum í dag.

Þetta eru mikil tímamót. Jafnaðarmenn hafa átt undir högg að sækja í kosningum víða um lönd á undanförnum árum. Eftir stendur þó að fylgi jafnaðarmanna hefur ekki verið minna í rúm 100 ár og hinir gömlu tímar, þegar flokkurinn gat vænst um 40% fylgis eru gengnir. Þegar öllu er á botninn hvolft er það líka árangurinn sem skiptir máli: Kemst flokkurinn til valda? Svend heitinn Auken vann stærsta kosningasigur í seinni tíma sögu jafnaðarmann um 1990 með 37% fylgi. Ári seinna var honum velt úr formannssessi, því enginn annar flokksleiðtogi treysti honum til samstarfs.  

Kosningabaráttan núna snerist mest um efnahagsmál. Danir standa frammi fyrir minnkandi hagvexti og óttast að tapa störfum til landa þar sem laun eru lægri. Þeir standa mun betur en við, þegar horft er til menntunarstigs þjóðarinnar, en hafa samt þungar áhyggjur af samkeppnishæfni efnahagslífsins. Danir eldast og vinnandi höndum fækkar, á sama tíma og velferðarkerfið er dýrt. Danskir jafnaðarmenn hafa áður sýnt að þeir geta vel tekist á við hagræðingu í velferðarkerfinu og kjósendur virðast treysta þeim betur en borgaralegu flokkunum fyrir húsaga í þeim efnum.

Í mörgum undanförnum kosningum hafa innflytjendamál verið stærsta kosningamálið, en nú var það ekki lykilmál. Fátt sýnir betur þann hæfileika Helle og Henriks Dam Kristensen, talsmanns jafnaðarmanna í málefnum innflytjenda, til að tala inn í þann ótta sem margir Danir bera vissulega í brjósti gagnvart of miklum fjölda útlendinga í landinu. Fyrri forysta jafnaðarmanna varð viðskila við kjósendur sína í þessum málaflokki og tapaði fyrir vikið miklu fylgi til Danska þjóðarflokksins og í kjölfarið stjórnarforystunni.

Það sópaði að Helle þegar ég kynntist henni fyrir næstum tuttugu árum, rétt eins og það gerir enn í dag. Hún er kraftmikil, fyndin og hugmyndarík. Hún er órög og hugrekki hennar mun hjálpa henni í þessu erfiða verkefni.

Meirihlutinn er tæpur og samsettur úr fjórum ólíkum flokkum. Helle mun þurfa að sýna stjórnlist og lítið má út af bregða. Svend Auken lýsti SF einu sinni þannig að það væri jafn erfitt að fá afgerandi svör frá þeim og að negla búðing fastan við vegg. Nú þarf hún að hræra þann búðing og reyna að festa hann við vegginn. Ætli það sé jafn auðvelt og að smala köttum?

15. 09 2011

Fékk Robert Aliber í heimsókn áðan hingað í ráðuneytið. Það var gaman að ræða við hann um stöðu mála á gjaldeyrismörkuðum á þessum óvissutímum. Maður getur ekki annað en hugsað um það hvort við séum komin að endimörkum þess kerfis fullkomlega frjálsra gjaldeyrismarkaða, sem við höfum vanist í okkar heimshluta í tvo áratugi. Munum við áfram búa við kerfi fljótandi gjaldmiðla þar sem engin höft eru á fjármagnsflutningum og ríki beita vöxtum einvörðungu í baráttu við verðbólgu, eða erum við að fara inn í tímabil þar sem fjölbreyttari umgjörð verður um fjármálaviðskipti í hinu alþjóðlega kerfi? Aliber telur svo vera. Hann var líka ákveðið þeirrar skoðunar að ástæða hrunsins hér á landi væri að stærstu leyti aðstæður á alþjóðamörkuðum, sem gerðu skuldsettan bankarekstur og stórfelld vaxtamunarviðskipti möguleg. Þar er ég sammála honum: Við gleymum oft að flest það sem við höfum séð í íslensku bankakerfi fyrir hrun átti sér hliðstæðu í Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum. Það er óhætt að mæla með bókinni sem hann og Gylfi Zoega tóku saman af greiningum ýmissa í aðdraganda hrunsins: "Preludes to the Icelandic Financial Crisis". Þar er enga hofmóðuga eftiráspeki að finna.

14. 09 2011

Ég hleypi nú á ný af stokkunum heimasíðunni minni eftir nokkurt hlé. Tölvuprakkarar komust í hana í febrúarmánuði og tilkynntu um afsögn mína. Sú frétt vakti mikla athygli – svo mikla að ég kaus að túlka hana á þann veg að í henni fælist ósk um frekari og reglulegri skrif á betrumbætta heimasíðu. Síðan er nú birt í endurbættri mynd og efni verður svo bætt inn eftir hendinni á næstu dögum og vikum.

Hér mun ég birta greinar sem birtast í dagblöðum og tímaritum og halda þannig til haga birtum greinum eftir mig. Ég vil líka – og kannski helst – skrifa stutta pistla um ýmislegt sem athygli vekur í dagsins önn. Ég mun eftir föngum birta fréttir um þau skrif á fésbók og jafnvel spreyta mig á að tísta þeim á Twitter (sem ég verð þó að viðurkenna að ég skil varla hvernig virkar).