12. 04 2012

- um leiðir til að flýta afnámi gjaldeyrishafta -

 Í fyrri greinum hef ég rætt um það mikla tjón gjaldeyrishöftin valda og hversu ólíklegt er að stefna stjórnvalda og Seðlabanka um afnám hafta nái fullnægjandi árangri. Sú mikla aukning sem varð á umfangi aflandskrónuvandans með síðustu lagabreytingum veldur því að tiltækar leiðir eru alltof seinvirkar til lausna.

En við þurfum líka að muna að áhætta fylgir öllum tilraunum til að losna við höftin. Stærsta áhættan felst í gengisfalli krónunnar, sem óhjákvæmilega fylgir afnámi hafta. Við höfum ekki mikið rætt hvers er að vænta um gengisþróun krónunnar í umhverfi frjálsra fjármagnshreyfinga þegar hafta nýtur ekki lengur við. Hvað er raunhæft jafnvægisgengi við núverandi aðstæður? Hvaða hagfræðingur sem er, sem sér gjaldmiðil í höftum og aflandskrónueign upp á um 60% af þjóðarframleiðslu, myndi segja að krónan væri of hátt skráð. Þar við bætist þrýstingur á útflæði, vegna fjárfestingarþarfar lífeyrissjóða erlendis og vegna uppsafnaðrar þarfar innlendra aðila til að koma fé úr landi. Við munum því örugglega standa frammi fyrir gengisfalli við afnám hafta. Hversu miklu, er ómögulegt að spá. Það hversu vel er að afnámi hafta staðið hefur lykiláhrif á það hversu djúpt fallið verður og hversu fljótt krónan styrkist á ný. Ef afnámsferlið er illa hugsað og hefur ekki mikla tiltrú markaðsaðila, kann að verða mjög djúpt á botninn.

Nýjar leiðir

Áætlun stjórnvalda og Seðlabanka um afnám hafta er um margt góð og greinir vandann rétt. Þau tæki sem þar er unnið eftir duga samt ekki ein, eins og fyrr hefur verið lýst, og við þurfum fjölbreyttari leiðir.

Í haust leið lagði sérfræðingahópur á vegum Viðskiptaráðs fram ýmsa valkosti um afnám hafta. Þar var sett fram sú hugmynd að erlendum eigendum krónueigna yrði boðið að losna út, annað hvort með því að lána ríkinu fyrir því til 30 ára eða með því að sæta því að einungis væri hægt að leysa fjárhæðir út í smáum skömmtum á löngu tímabili, svo sem 20 árum. Líklega eru þessar leiðir áhættumeiri nú en þegar þær voru settar fram, vegna þess að aflandskrónueignin hefur aukist svo mjög. En það er líka vert að muna að ein lausn hentar ekki öllum og aflandskrónueigendur eru nú fjölbreyttari hópur en fyrr.

Við getum til viðbótar líka hugsað að fara þá leið að semja við aflandskrónueigendur. Þeim getur ekki hugnast sú framtíðarsýn að íslenskt atvinnulíf haldi áfram að veikjast vegna haftanna, samkeppnishæf fyrirtæki yfirgefi landið og engin erlend fjárfesting verði hér. Hvenær eiga þeir þá að fá peningana sína út? Grikkir hafa nýlokið samningaviðræðum af áþekkum toga við skuldabréfaeigendur um afslátt á grískum ríkisskuldum, með ágætum árangri. Þótt þar hafi vissulega verið um ríkisskuldir að ræða, en hér sé um fjármögnunarvanda að ræða, er grundvallarviðfangsefnið ekki ósvipað. Hvaða umgjörð væri hægt að skapa í slíkum samningum um greiðslufresti og afslætti, fyrir ólíka hópa aflandskrónueigenda?

Staða heimila með húsnæðisskuldir er líka áhyggjuefni. Verðtryggðar skuldir hækka verulega með gengislækkun krónunnar. Ef óverðtryggð lán eru rétt verðlögð má líka ætla að kjör þeirra rjúki upp úr öllu valdi við slíkt gengisfall. Er hægt að taka áhrif gengisfalls við afnám hafta út fyrir sviga með einhverjum hætti – til dæmis að flytja öll lán í óverðtryggð kjör á föstum vöxtum fram yfir áhrifatímabil afnámsins? Gætu bankakerfið og ríkið sameinast um það? Gæti framlag lífeyrissjóðanna verið afsal á hækkun verðtryggðra eigna vegna verðbólgu í einhverja mánuði eftir afnám hafta? Slíkar lausnir gætu aukið þol samfélagsins til að taka á sig högg af tímabundnu gengisfalli og verðbólguskoti sem af slíku gengisfalli leiddi.

Evrópsk þátttaka í ferlinu

Það þarf líka að útfæra í aðildarviðræðunum með hvaða hætti Evrópusambandið og evrópski Seðlabankinn gætu aðstoðað við þessa lausn, flýtt fyrir henni og aukið tilltrú á ferlinu. Þátttaka í evrópska myntsamstarfinu er vissulega bundin við aðildarríkin ein og ekkert ríki getur orðið aðili að ESB með gjaldeyrishöft. Evrópusambandið hefur hins vegar ítrekað viðurkennt þá fordæmislausu aðstöðu sem Ísland lenti í 2008 og í samtölum mínum við Olli Rehn, framkvæmdastjóra gjaldmiðilsmála í febrúar í fyrra hét hann stuðningi sambandsins við afnámsferlið sem slíkt. Þegar ég ræddi við Jean-Claude Trichet þáverandi seðlabankastjóra um stöðuna á sama tíma, hristi hann höfuðið yfir þeim vanda sem aflandskrónueign upp á tæp 30% af þjóðarframleiðslu skapaði og kallaði það fordæmislausan vanda. Hvað ætli Mario Draghi, eftirmaður hans, myndi segja við aflandskrónueign upp á um 60% af þjóðarframleiðslu, eins og nú er orðin raunin?

Ein leið í þessu efni væri sú að í aðildarviðræðunum yrði samið um að evrópski Seðlabankinn myndi veita fyrirgreiðslu til að unnt yrði að fjármagna útflæðið allt strax í upphafi eða á fárra ára tímabili, með endurgreiðslu yfir lengra tímabil. Slík lausn myndi væntanlega valda því að krónan félli minna en ella við afnám haftanna og greiða fyrir því að rétt verð fengist á hana fljótt, svo auðveldara væri að ganga beint inn í ERM II og taka upp evru án vandkvæða í kjölfarið.

Að venjast höftunum

Í þessum greinum hef ég rætt þann alvarlega vanda sem gjaldeyrishöftin skapa. Hann vex stöðugt. Froskur sem settur er í heitt vatn hoppar upp úr, en ef hann er settur í kalt vatn og kveikt undir soðnar hann því hann tekur ekki eftir breytingunni. Hættan er sú að okkur fari eins – við tökum ekki eftir þeim breytingum sem verða, dag frá degi, á viðskiptaumhverfi okkar og rönkum við okkur eftir fáein ár þegar fyrirtækjum verður orðið óheimilt að eiga gjaldeyrisreikninga og við þurfum leyfi frá Seðlabankanum til að kaupa okkur bíl, jakkaföt, kjól eða dýra skó.

Þetta er ekki einfalt vandamál úrlausnar og síst í aðdraganda kosninga. Afnám hafta mun örugglega valda gengisfalli krónunnar og verðbólgu í kjölfarið, með tilheyrandi áhættu fyrir skuldug heimili. En á öllum vanda er lausn. Okkar er að finna hana saman.

Birt í Fréttablaðinu, 12. april 2012.

12. 04 2012

Verð óendanlega dapur þegar ég sé orðaskak dagsins um Icesave.

Það er ekkert athugavert við að framkvæmdastjórn ESB láti dómsmál um Icesave til sín taka – það er réttur hennar og málið varðar túlkun tilskipunar sem getur haft víðtæk áhrif fyrir innri markaðinn sem slíkan. Enginn maður með réttu ráði getur hafa búist við því að framkvæmdastjórnin tæki ekki til meðalgöngu í málinu, í einu eða öðru formi. Hún hefur undanfarin ár glímt við að láta innstæðutryggingakerfið í Evrópu virka á miklum umrótstímum. Tilskipunin er til endurmats og það hefur reynst framkvæmdastjórninni þrautin þyngri að sannfæra Evrópuþingið um að ný drög séu fullnægjandi. Þar er enda ekki tekið á ýmsum agnúum – meðal annars þeim hvað gera skuli ef allir bankar í litlu landi fara á hausinn á sama tíma. Það er því ekki þannig að framkvæmdastjórnin muni mæta til leiks með skýr svör og vind í seglum.

Á hinn kantinn gjósa nú upp raddir sjálfsásakana um að þjóðin hafi haft rangt fyrir sér þegar síðasta Icesave-samningi var hafnað og að við blasi kostnaður upp á hundruð milljarða að loknu dómsmáli. Það er mjög ofmælt.

Ég studdi Icesave III, en það voru góð efnisleg rök fyrir að leita dómsniðurstöðu um greiðsluskylduna. Nú þegar liggur fyrir að kostnaður vegna Icesave III væri mun hærri en útreikningar samninganefndarinnar fyrir réttu ári gerðu ráð fyrir. Ástæðan er annars vegar tafir á fyrstu útgreiðslu frá því sem þá var spáð og hin sú að slitastjórnin hagar útgreiðslu með þeim hætti að ekki hefði myndast gengishagnaður hjá íslenska innstæðutryggingasjóðnum sem vegið getur upp á móti kostnaði af vaxtagreiðslum, eins og samninganefndin gekk út frá. Það er því mjög hæpið og algerlega órökstutt að halda því fram að dómstólaleiðin feli í sér að augljóst sé og óhjákvæmilegt að einhver kostnaður falli á Íslendinga umfram það sem verið hefði með samningsniðurstöðu.

 .      Það er Ef dómur gengur gegn okkur þurfum við bara að greina hvað í þeim dómi felst. Við verðum aldrei dæmd til greiðslu einhverra vaxta, heldur verður dómurinn í versta falli áfellisdómur um að við hefðum átt að haga okkur með einhverjum öðrum hætti. Hvort slíkur dómur hafi í för með sér einhverja bótaskyldu er allt annað mál og ómögulegt um það að spá. Þeir sem þá vilja gera bótakröfu þurfa þá líka að sanna tjón sitt.

Krafa íslenskra stjórnvalda allt frá hausti 2008 var sú að við fengjum rétt til að leggja Icesave-málið fyrir dóm. Það fæst nú. Ég lagði í fyrra í samtölum við tugi erlendra kollega mikla áherslu á að sækjast eftir stuðningi annarra Evrópuríkja við málstað okkar fyrir dómstólnum. Vonandi hefur því verið haldið áfram af þeim sem nú bera ábyrgð á málarekstrinum. Það þýðir þá heldur ekkert að kvarta yfir því að aðrir aðilar eins og Bretar og Hollendingar – eða framkvæmdastjórnin – láti málið til sín taka frá hinni hliðinni. Það er bara gangur lífsins ef mál fer á annað borð fyrir dóm í fjölþjóðlegu réttarkerfi, eins og EES-kerfið er.

Eins og ég nefndi í þingræðu þegar stefnan lá fyrir, var okkur ómögulegt að tryggja aðgang að innstæðum breskra og hollenskra innstæðueigenda, þó ekki væri nema vegna þess að ef þær hefðu verið fluttar yfir í nýju bankana og erlendir innstæðueigendur hefðu getað tekið þær út, hefðu nýju bankarnir orðið gjaldþrota á fyrsta degi því að gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar var ekki þannig að hægt væri að standa við útgreiðslu þessara fjármuna. Okkur var þar af leiðandi ómögulegt að haga málum þannig en við gerðum hitt, við tryggðum rétt innstæðueigenda eins og hægt var með neyðarlögunum.

Íslensk stjórnvöld verða þess vegna að halda því skýrt til haga í málsvörninni - og í svari til EFTA-dómstólsins vegna beiðnar framkvæmdastjórnarinnar um meðalgöngu - að þetta mál snúist ekki nema að litlu leyti um fjórfrelsið sem slíkt, heldur um rétt þjóðar til sjálfsvarnar þegar vegið er að stoðum efnahags- og fjármálakerfis hennar. Efast má um heimildir EFTA-dómstólsins til að taka á ágreiningi sem lýtur að aðgerðum sem sannanlega voru nauðsynlegar til bjargar efnahagslífi lands í fordæmalausum þrengingum. Engin Evrópuþjóð myndi fallast á það athugasemdalaust að dómstóll gæti dæmt af henni rétt til aðgerða til að verja efnahagslegt sjálfstæði hennar. Það eigum við ekki heldur að gera.

11. 04 2012

- veikleikar núverandi stefnu um afnám hafta -

Við höfum nú búið við gjaldeyrishöft frá nóvemberlokum 2008. Í upphafi bundum við vonir við að hægt væri að leysa úr þeim vanda á 3 til 12 mánuðum. Nú þremur og hálfu ári síðar er ekkert sem bendir til að það takist að losna við höftin í fyrirsjáanlegri framtíð.

Mikil krónueign erlendra aðila hefur frá upphafi staðið afnámsferlinu fyrir þrifum. Í aðdraganda hruns sóttu erlendir aðilar í að kaupa krónur til að njóta þeirra ofurvaxta sem Seðlabankinn bauð í vanhugsaðri tilraun til að halda aftur af innlendri verðbólgu með því að halda gengi krónunnar uppi. Eftir fall Lehman-bankans í september 2008 vildu útlendingarnir allir skipta krónunum sínum til baka. Flóttinn var svo hraður að gengi krónunnar féll ekki aðeins heldur hrundi gjaldeyrismarkaðurinn og viðskiptin námu staðar, því enginn mótaðili var til staðar á hinni hliðinni til þess að kaupa krónur. Þannig hrundi krónan á undan bönkunum og hundruð milljarða af fé erlendra spákaupmanna frusu inni. Það fé er hér enn. Aflandskrónueignin var metin um 470 milljarðar íslenskra króna fyrir um ári síðan. Þjóðin hefur ekki þann gjaldeyri handbæran sem þarf til þess að leysa þessa fjármuni út. Og sú staðreynd var meginástæðan til þess að höftin voru sett. 

 

Stefna um afnám í öngstræti

Til að leysa úr aflandskrónuvandanum var í stefnumörkun stjórnvalda og Seðlabanka lögð höfuðáhersla á leið gjaldeyrisútboða, til að leiða saman þá sem mögulega gætu viljað koma með gjaldeyri inn og þá sem vildu losna út með krónueignir. Útboðin hafa á undanförnum mánuðum verið réttilega gagnrýnd fyrir að vera seinvirk leið til lausnar á vandanum. Þrátt fyrir margar tilraunir, hefur einungis náðst að minnka aflandskrónustöðuna um einhverja tugi milljarða í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans.

Þrýst hefur verið á lífeyrissjóði um þátttöku í útboðunum, en þeir haft á því lítinn áhuga, enda erlendar eignir þeirra verðmætar og fáir fjárfestingarkostir í boði fyrir þá hér á landi. Þvert á móti er þörf á því fyrir lífeyrissjóðina að auka á fjárfestingar þeirra erlendis til að dreifa áhættu sjóðanna. Það er því alltaf skammgóður vermir að ætla lífeyrissjóðunum að flytja mikla peninga heim, því þeir munu sækja fljótt í að koma því fé aftur í ávöxtun utan landssteinanna. Það er þeirra hlutverk að ávaxta lífeyri landsmanna með eins góðum hætti og kostur er í raunverulegum handbærum verðmætum, en ekki kasta því fé í æfingar til að bjarga veikburða gjaldmiðli sem gætu hæglega rýrt greiðslugetu lífeyrissjóðanna þegar til lengri tíma er litið.

Léleg þátttaka í síðasta gjaldeyrisútboði Seðlabankans sýnir þennan vanda í hnotskurn. Þátttakan í útboðinu var nær engin og tilboð lífeyrissjóðanna bera þess merki að þeir hafa ekki raunverulegan vilja til þátttöku í verkefninu á þessum forsendum, þótt þeir taki þátt að nafninu til.

 

Vandinn hefur vaxið

En eins og það væri ekki nóg, bætist við sú staðreynd að magn þeirra krónueigna sem leysa þarf út hefur farið vaxandi þar sem komið hefur í ljós að þrotabú gömlu bankanna eiga verulega krónueignir sem hinir erlendu kröfuhafar þeirra vilja gjarnan leysa til sín. Þessar eignir gætu orðið á bilinu 500-700 milljarðar. Með nýlegum lagabreytingum voru þessar eignir felldar undir höftin. Í stað þess að við séum að fást við vanda sem nemur tæpum 30% af þjóðarframleiðslu getur vandinn því orðið í kringum 60% af þjóðarframleiðslu.

Það má því halda því fram með nokkrum rétti að stefna Seðlabankans um afnám hafta sé komin í algerar ógöngur. Lítill árangur hefur verið af gjaldeyrisútboðunum og á sama tíma hefur heildarvandinn vegna krónueignar erlendra aðila meira en tvöfaldast. Sérfræðingar eru sammála um að Seðlabankastefnan muni ekki geta leitt til afnáms hafta innan ásættanlegs tíma. Þetta er bara eins og ausa lekan togara með fingurbjörg. Það er fræðilega mögulegt, en tekur afskaplega langan tíma og árangur er háður því að lekinn inn sé minni en austursgeta fingurbjargarinnar.

 

Á meðan bíða allir …

Að öðru óbreyttu stefnir í að þjóðin þrasi um óraunhæf ævintýri á borð við einhliða upptöku kanadadollars enn um sinn og engin raunhæf lausn verði til. Við getum þá beðið og vonað að einhvern hvalreka beri á fjörurnar, s.s. að olía finnist á Drekasvæðinu, sæstrengur til Bretlands skili gríðarmiklum arði af orkuauðlindum landsins eða eitthvað annað verði til sem skili þeim gjaldeyri sem nauðsynlegur er til þess að kaupa út hina erlendu spákaupmenn. Sú bið gæti tekið ár og áratugi. Á meðan myndi íslenskt atvinnulíf bíða hrikalegt tjón, eins og ég rakti í fyrstu grein minni um þessi mál.

Það liggur fyrir að einfaldasta leiðin til afnáms hafta er með aðild að ESB og undirbúningi upptöku evru. Vandinn við þá leið er annars vegar sá að ekki hefur náðst að byggja nægilega góða samstöðu um hana og að afnámsferli á þeim grunni getur heldur ekki hafist fyrir en eftir að aðild að ESB hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæði. Þjóðaratkvæðagreiðslan getur fyrst farið fram eftir tvö ár. Að óbreyttu verður því ekkert gert sem máli skiptir í afnámi hafta, fyrr en í fyrsta lagi seint á árinu 2014. Ef aðild verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, höfum við engin svör.

Það er algerlega óásættanlegt að halda fleyinu stefnulausu svo lengi. Þetta er slæmt fyrir okkur sem viljum aðild að ESB, en enn verra fyrir áhugamenn um framtíð Íslands utan ESB. Þeir geta ekki verið þekktir að því að hafa enga trúverðuga stefnu um gengis- og peningamál til næstu ára, sem gerir afnám hafta mögulegt. Er okkur sama þótt við töpum samkeppnishæfum fyrirtækjum, íslenskt atvinnulíf molni og við fáum enga erlenda fjárfestingu?

Það er óhjákvæmilegt að hugsa stefnu um afnám hafta upp á nýtt. Um hugmyndir í þá veru fjalla ég í síðustu greininni í þessum flokki.

Birt í Fréttablaðinu, 11. apríl 2012.

10. 04 2012

- um stórskaðleg og gagnslítil gjaldeyrishöft -

Hert gjaldeyrishöft, meint brot Samherja á gjaldeyrislöggjöfinni og misheppnað gjaldeyrisútboð Seðlabankans nú nýlega eru atburðir sem kalla á endurmat á þeirri umgjörð sem við höfum búið íslensku atvinnulífi með gjaldeyrishöftum. Undan því endurmati getur enginn vikist.

Gjaldeyrishöft eru hörmuleg. Það vitum við af áratuga reynslu og það sjáum við nú sífellt skýrar með hverjum degi sem líður í viðjum hafta.Sá ágæti hagfræðingur Dr. Benjamín J. Eiríksson kallaði höft „stíflugarða á floti“ og það var réttnefni. Fé finnur sér farveg. Höft breyta þeim farvegi, gera hagkvæma hluti óhagkvæma og öfugt.Krónan fellur, þrátt fyrir að höft séu hert og tekið á undanskotum.Í höftum verða til spéspeglar viðskiptalífsins – þeir sem hafa hag af höftum og spila á það skakka gangverk sem höftin skapa. Menn sem hafa arð af viðskiptum sem bara eru arðbær vegna haftanna – viðskiptum á borð við þau skuldabréfaviðskipti sem gerð voru ólögmæt með síðustu lagabreytingum. 

Höft hafa annan stóran ókost: Þau skekkja alla sýn okkar á hvað er mikilvægast í efnahags- og atvinnuþróun. Skyndilega fer að skipta allra mestu máli að höftin „leki ekki“ og að þau „virki“. Þau kalla auðvitað á gjaldeyriseftirlit, sem síðan verður sífellt viðameira ef það á að eiga einhverja von um að takast ætlunarverk sitt. Það tekst hins vegar aldrei. Reynsla allra þjóða er sú að það sé óframkvæmanlegt að viðhalda höftum til lengdar nema með efnahagslegri einangrun og óbætanlegu tjóni á innviðum samfélagsins. Þess vegna eru höft aðeins nothæf sem skammtímaaðgerð. Þversögnin er samt sú að þar sem þau eru sett á, standa þau yfirleitt í áratugi.

Gott og vel – höftin voru sannarlega óhjákvæmileg til að stöðva stjórnlaust fall krónunnar í árslok 2008. Og gjaldeyriseftirlit er óumflýjanlegt meðan höft eru við lýði. Og öllum ber að fylgja lögum og virða. Hinn siðferðilegi og heimspekilegi vandi við höft er hins vegar sá að með þeim er athæfi, sem áður var fullkomlega löglegt og er samkvæmt almennri réttlætisvitund okkar siðlegt, gert ólögmætt.  Athæfi sem er sjálfsagt og eðlilegt í öllum nágrannaríkjum okkar verður skyndilega glæpsamlegt á Íslandi einu. Og það sem meira er: EES-samningurinn kveður beinlínis á um rétt til einstaklinga og fyrirtækja til óheftra milliríkjaviðskipta með fjármagn. Höftin eru ósamrýmanleg EES-samningnum, nema sem neyðaraðgerð. Við erum því annars vegar með alþjóðlegt regluverk sem hefur lagagildi á Íslandi sem veitir rétt til að gera eitthvað og svo önnur innlend lög sem gera sama hlut glæpsamlegan.

Sniðganga eða raunveruleg viðskipti?

Það eru margvísleg tilvik brota á gjaldeyrislöggjöfinni, sem upp geta komið. Augljóst er að hafa þarf virkt eftirlit með viðskiptum sem beinlínis er ætlað að koma peningum út úr landinu í bága við gjaldeyrishöftin og reyna að uppræta þau. Nýlegasta dæmið um slíka sniðgöngu eru snúningar með kaup og sölu á skuldabréfum til skamms tíma, þar sem menn nýta sér höftin til að skapa sér tekjur af þvætti peninga inn og út úr landinu. Gjaldeyriseftirlitið hefur unnið að því að koma upp um slík mál.  Fyrir einn kerfislægan leka af þessu tagi var lokað með lagabreytingum fyrir nokkrum vikum, þegar stöðvuð var svikamylla með stutt íbúðabréf, sem nýtt höfðu verið til að koma milljörðum króna út fyrir höft. Lokað var fyrir þann möguleika að erlendir aðilar gætu keypt gjaldeyri til að flytja úr landi verðbætur af höfuðstól verðtryggðra skuldabréfa sem koma á gjalddaga. Þessi lagabreyting var auðvitað óhjákvæmileg, en hana hefði mátt gera fyrr. Áfram er eðlilega fylgst með ýmiss konar hreyfingum fjár milli landa, til að reyna að tryggja að um raunveruleg viðskipti sé að ræða.

Meint brot Samherja á gjaldeyrislöggjöfinni virðast hins vegar nokkuð annars eðlis, ef marka má fréttir fjölmiðla. Það virðist snúast um hvernig verðlagningu fisks er hagað milli veiða og vinnslu. Verðlagning milli veiða og vinnslu er áratugagamalt þrætuepli hér í samfélaginu og þar takast á tvö sjónarmið, sem bæði byggja á sterkum rökum. Til að mæta ólíkum sjónarmiðum í því efni hefur verið heimilt að reka saman veiðar og vinnslu en líka mælt fyrir um að meta skuli upp verð við þær aðstæður, eftir tilteknum leikreglum, til að tryggja sjómönnum eðlilegan skiptahlut. Töluvert mikið rekstrarhagræði og verðmætasköpun fylgir samrekstri veiða og vinnslu og fiskvinnsla á stórum landsvæðum byggir algerlega á því að samrekstur sé mögulegur. Innri verðlagning milli veiða og vinnslu í eigu eins aðila er þannig óhjákvæmilegur fylgifiskur þessa rekstrarforms í sjávarútvegi.

Það er verulegt áhyggjuefni ef hefðbundin innri verðlagning milli veiða og vinnslu er orðin glæpur vegna gjaldeyrishaftanna einna. Það þýðir í reynd að höftin eru farin að breyta í grundvallaratriðum rekstrarumhverfi venjulegra fyrirtækja í hefðbundnum rekstri og breyta þeim forsendum sem efnahagslífið hefur unnið eftir áratugum saman.

Höftin valda ómældum skaða

Ef sú er raunin verða höftin fljótt enn meiri viðskiptahindrun en hingað til og hætt er við að þau auki enn á efnahagslega einangrun landsins.  Samherji er til dæmis alþjóðlegt fyrirtæki sem stundar sjávarútveg á heimsvísu og hefur umtalsvert val um hvar þunginn í starfseminni liggur. Fyrir liggur sú afstaða forsvarsmanna Marels og Össurar að langlundargeð þeirra gagnvart höftunum sé á þrotum. Flest alþjóðleg fyrirtæki okkar vaxa nú um stundir erlendir, meðal annars vegna haftanna. Sú hætta er því raunveruleg að við missum ekki bara úr landi vöxt þessara fyrirtækja heldur líka höfuðstöðvar þeirra og skatttekjur sem þeim fylgja. Það að alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi hafi ama af höftunum er ekki það versta. Mun verra er að engin ný alþjóðleg fyrirtæki munu ná að vaxa frá íslenskum rótum þegar litið er til framtíðar í skjóli svona hafta. Þess í stað munu nýir sprotar aðeins ná því að vaxa kyrkingslega á bakvið við múra.  

Höftin hafa margvísleg önnur neikvæð áhrif. Þau koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu, því erlendir aðilar treysta ekki innlendu rekstrarumhverfi. Verðbólga hefur verið þrálát undanfarin misseri. Ýmislegt bendir til að það megi að einhverju leyti rekja til þess að innflutningsfyrirtæki séu að einhverju leyti farin að safna gjaldeyriseign erlendis, meðal annars með því að láta veitta afslætti ekki skila sér í innflutningsverði. Útflutningsfyrirtæki geta líka farið í kringum höftin með viðskiptum við dótturfyrirtæki erlendis. Höft skaða þannig almennt viðskiptasiðferði. Á árum áður ollu höftin því að áhersla eigenda fyrirtækja var meiri á að hagnast á höftunum – eða að minnsta kosti að tapa ekki á þeim – en að á rekstrarafkomu fyrirtækjanna.

Þessi hörmungarsaga ætti að valda því að lausn á þeim vanda sem gjaldeyrishöftin skapa væri höfuðverkefni íslenskra stjórnmála. Í öllum löndum ættu stjórnmál að snúast um lausn á þessum bráðavanda sem læsir landið í þriðjaheimsviðskiptaumhverfi, eyðileggur tækifæri til verðmætasköpunar og brýtur niður heilbrigt viðskiptasiðferði. En svo er ekki. Enn má treysta Íslendingum til að hunsa þau verkefni sem mestu skipta en eyða þess í stað orku sinni í þras um tittlingaskít, eins og Kiljan benti á að væri þjóðarlöstur forðum. Það er þvert á móti svo afkáralegt að enginn stjórnmálaflokkur hefur sérstaka skýra sýn um lausn á haftavandanum sem pólitísku úrlausnarefni. Sumir benda að vísu á að vandann megi leysa í tengslum við upptöku annars gjaldmiðils – meðal annars í mínum flokki – en útfærð og trúverðug stefna í þá veru hefur ekki verið sett fram vegna þeirrar pólitísku lömunarveiki í Evrópumálum, sem leiðir af núverandi stjórnarsamstarfi. Fyrir vikið geta allir sameinast um að slá morgundeginum á frest.

Staðreyndin er samt sú að enginn sem nær máli – hvort heldur er innanlands eða utan – hefur lengur trú á að höftum verði aflétt í fyrirsjáanlegri framtíð með þeim meðölum sem tiltæk eru.

Þessi staða kallar á nýjar lausnir. Um þær fjalla ég í næstu grein.

Birt í Fréttablaðinu, 10. apríl 2012.