31. 07 2012

Ég var á tólfta ári þegar ég kom á kosningaskrifstofu Alþýðubandalagsins í Kópavogi og bauð fram liðsinni. Það var upphaf á pólitískri vegferð sem ekki sér enn fyrir endann á. Það sem heillaði mig allt frá byrjun var óeigingjarnt og fórnfúst starf þess hugsjónafólks sem þarna kom saman og sá mikli einhugur sem var um verkefnin í hinni pólitísku baráttu. Alþýðubandalagsmenn í Kópavogi spönnuðu rétt eins og annars staðar allt litróf ólíkra skoðana, en þeir voru ekki kreddukommar. Þeir höfðu um langt árabil haft lykiláhrif á stjórn og rekstur bæjarfélagsins og höfðu næman skilning á því hvernig ætti að tengja hugsjónir um jöfnuð og félagslegt réttlæti eðlilegum löngunum venjulegs fólks um betri kjör og aðstæður fyrir sig og sína.

Hallvarður Guðlaugsson var einn tryggasti liðsmaðurinn í þessum hópi. Hann var eindreginn sósíalisti frá unga aldri. Ófáar eru sögurnar af fórnfýsi hans í þágu hreyfingarinnar – ef eitthvað þurfti að smíða eða gera var hann fyrstur á vettvang. Þáttur hans í byggingarsögu húss yfir Þjóðviljann er margfrægur. Hann varð liðsmaður Samfylkingarinnar þegar við stofnun hennar og tók virkan þátt í starfi okkar allt til loka. Hann var almennt talinn til vinstri í Alþýðubandalaginu og því voru margir hissa á að hann skyldi taka þátt í Samfylkingunni. Afstaða hans var hins vegar skýr: Flokkurinn hafði tekið ákvörðun um að taka þátt í þessari tilraun og hann var hluti af þeirri ákvörðun. Það er þetta jákvæða flokksholla viðhorf fólks eins og Hallvarðar sem skýrir stærð og fjölbreytileika Samfylkingarinnar. Við njótum þess að eiga rætur víða, hjá ólíku fólki með fjölbreyttar skoðanir, sem á það sameiginlegt að hafa ákveðið að leggja meiri áherslu á það sem sameinar það, en hitt sem skilur að.

Ég fékk byggingarvinnu hjá Hallvarði í einu jólafríi á menntaskólaárum og endurnýjaði þá við hann kynnin úr æsku. Þegar í pólitík var komið varð hann einn minn dyggasti stuðningsmaður og veitti mér liðsinni í hvert sinn sem óskað var. Sá stuðningur var jafnt í blíðu sem stríðu, enda Hallvarður hvorki huglaus maður né maður málalenginga. Þegar ég varð ráðherra kom í minn hlut það óvinsæla og erfiða verkefni að draga saman í útgjöldum til viðkvæmra málaflokka velferðarmála. Þá var Hallvarður fullur stuðnings, sýndi skilning á nauðsyn þessa erfiða verkefnis og hrósaði mér í bak og fyrir.

Fyrir allt starf Hallvarðar í þágu hreyfingar jafnaðarmanna í kjördæminu um áratugi er vert að þakka. Sjálfur þakka ég að leiðarlokum stuðning, uppörvun og skemmtilega samfylgd. Fjölskyldu Hallvarðar sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

26. 07 2012

Mikil umræða hefur að undanförnu spunnist um stöðu áforma Huang Nubo um uppbyggingu ferðaþjónustu á Fjöllum. Ýmis sérkennileg teikn eru á lofti um það verkefni og misvísandi upplýsingar um eðli þess og hvort verkefnið feli í sér raunverulega viðskiptahugmynd í ferðaþjónustu. Á þessu stigi er erfitt að kveða upp úr um slíkt. Við erum ung þjóð og þurfum nauðsynlega erlenda fjárfestingu, en þörf okkar fyrir hana má ekki leiða til vanhugsaðra ákvarðana. Við ættum öll að vera sammála um að mikilvægt sé að sveitarfélög bindi sér ekki bagga með fjárhagslegum skuldbindingum vegna kaupa á Grímsstöðum, ef ekki er ljóst að áformin gangi eftir, því ekki viljum við flytja á íslenskan almenning áhættu vegna óvissra fjárfestingaráforma einstaklinga. Með sama hætti verður að vera ljóst að áformin falli að innlendri skipulagslöggjöf og vinnulöggjöf, en feli ekki í sér að byggt verði kínverskt fríríki á Fjöllum þar sem kínverskir starfsmenn vinni og búi án tengsla við íslenskt samfélag. Og það verður að vera algerlega ljóst hver aðkoma kínverskra stjórnvalda er að verkefninu.

Hitt er sérstakt áhyggjuefni hversu vanbúin við erum sem þjóð til að taka á málum sem þessu af nauðsynlegri yfirvegun og vandvirkni. Allir engjast í fári yfirlýsinga, jafnt ráðherrar og álitsgjafar, þar sem sífellt kröftugri flökkusögur og samsæriskenningar fá vængi. Þetta er óboðlegt ástand.

Við þurfum að taka hagvarnir okkar alvarlega. Við viljum opið og frjálst hagkerfi, en það frelsi má hvorki valda íslenskum almenningi tjóni, né gera okkur undirseld dyntum erlends stórveldis. Þess vegna þarf faglega og vitræna greiningu á fjárfestingaráformum út frá þjóðaröryggi. Engin stofnun fer með slíkt verkefni í dag.

Við þurfum sjálf enga heimavinnu unnið. Hver er stefna Íslands varðandi uppbyggingu umskipunarhafnar vegna opnunar siglingaleiðar um Norðurskautið, spurðu þýskir blaðamenn mig fyrir nokkrum misserum. Ég gat engu svarað og get ekki enn. Við erum algerlega berskjölduð og bíðum þess bara að einhver John frá Bandaríkjunum, einhver Helmut frá Þýskalandi eða einhver Deng frá Kína banki hér upp á og leggi fram eitthvað ómótstæðilegt tilboð sem svara þarf með hraði.

Við þurfum sjálfstraust og raunsæi til að halda úti opnu hagkerfi og huga að landvörnum í víðum skilningi. Í því samhengi er umhugsunarefni að við höfum miklar áhyggjur af áformum Kínverja á Norðurskautinu, en tökum okkur sífellt stöðu í klappliði Norðmanna, sem líklega hafa mest og skýrust yfirráðaáform á þessu svæði og eru okkar harðdrægustu keppinautar á helstu útflutningsmörkuðum. Slík bernsk kynþáttahyggja sæmir ekki alvöru þjóð. Við þurfum alltaf – gagnvart öllum – að haga efnahagsþróun okkar í samræmi við íslenska hagsmuni og verja hagkerfi okkar gegn spákaupmennsku og sókn í glópagull.

Birt í Fréttablaðinu, 26. júlí 2012.