27. 08 2012

Í fyrri greinum hef ég rakið þann mikla ávinning sem varð af opnun íslensks efnahagslífs með EES-samningnum, en jafnframt hversu viðkvæmt hagkerfið reyndist vera fyrir frjálsum fjármagnshreyfingum. Ég hef líka rakið að evruríkin glíma í dag við afleiðingar misvægis sem er eðlislíkt því sem við höfum þurft við að etja. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvernig við getum áfram verið hluti af hinu evrópska viðskiptaumhverfi og hvort EES-samningurinn dugi okkur til þess eða hvort aðild að ESB færi okkur betri tæki til að verjast og sækja fram fyrir íslenska hagsmuni.

En fyrst þurfum við að meta raunsætt stöðu okkar í dag. Við búum vissulega enn við marga kosti EES-samningsins. Íslensk fyrirtæki njóta aðgangs að evrópskum markaði fyrir vöru sína og þjónustu og við getum frjáls tekið okkur búsetu hvar sem er á hinu evrópska efnahagssvæði og fengið þar vinnu. En við höfum ekki getað lifað við frjálsar fjármagnshreyfingar og neyðst til þess að setja á gjaldeyrishöft. Þau verja okkur í dag fyrir afleiðingum þess misvægis sem fyrr var vikið að, en valda því líka að fjármagn streymir ekki til landsins til að þjónusta íslenskt efnahagslíf og fólk og fyrirtæki í milliríkjaviðskiptum lenda daglega í vandræðum vegna hafta. Samkeppnishæfustu fyrirtæki okkar kjósa að vaxa í útlöndum, fremur en á Íslandi, eins og ég rakti í þriggja greina flokki hér í vor.

Eftir að greinarnar birtust spratt allmikil umræða um höftin, skaðsemi þeirra og leiðina út úr þeim. Það sem mér þótti standa upp úr eftir þá umræðu var að erfiðasta hindrunin í vegi afnáms hafta væri hin fullkomna óvissa sem væri um hvað það væri sem tæki við eftir höft. Mun krónan einungis taka dýfu í nokkra mánuði og ná svo aftur eðlilegu jafnvægisgengi eða getum við búist við langvinnu tímabili veiks gengis krónunnar með gósentíð útflutningsgreina en hörmulegum afleiðingum fyrir innlenda verslun, þjónustugreinar og skuldsett heimili?

Allir þekkja aflandskrónuvandann og óþarfi að fjölyrða um hann. Aflandskrónurnar þurfa út og við verðum að geta losað þær út á kjörum sem við stöndum undir. Hitt gleymist oft í umræðunni að íslenskt efnahagslíf er nú þegar mjög skuldsett í erlendum gjaldeyri. Ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og einstök fyrirtæki eru með erlendar skuldir. Til að greiða af þessum skuldum þarf að afla gjaldeyris. Nýir bankar eru í erlendri eigu og munu greiða arð til eigenda sinna úr landi á næstu árum. Til þess þarf líka gjaldeyri. Stærsti óvissuþátturinn sem háir okkur nú við afnám hafta er hvert raunverulegt heildarumfang þessara skuldbindinga er og hvort geta þjóðarinnar til að afla gjaldeyris mun standa undir því útflæði sem fyrirsjáanlegt er vegna þeirra á næstu áratugum. Er Ísland, með öðrum orðum, of skuldsett í erlendum gjaldeyri?

Mikilvægasta verkefni næstu mánaða er að kortleggja þessa stöðu til fulls. Við það mat er mikilvægt að velta við hverjum steini, taka alla þætti með í reikninginn og vanmeta ekki útflæðisþrýstinginn. Við höfum til dæmis séð erlendar eignir lífeyrissjóðanna rýrna hlutfallslega á undanförnum árum og það er óumflýjanlegt að þeir verji miklum hluta handbærs fjár til fjárfestinga erlendis um leið og höftum verður aflétt, ef þeir eiga að ná að dreifa áhættu sinni og standa undir því hlutverki sem þeim hefur verið falið. Við verðum að gera ráð fyrir öllu slíku í þessu reikningsdæmi. Það borgar sig ekki að nálgast þetta verkefni með „þetta reddast“ hugarfarinu. Þvert á móti er staðan sú að ef við tökum ekki allt með í reikninginn og vanmetum heildarumfang skuldbindinganna eru allar líkur á að krónan súnki við afnám gjaldeyrishafta og haldist veik um langa hríð, með hörmulegum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

En hvað er til ráða ef aflandskrónur og erlendar afborganir opinberra aðila og einkaaðila – allra hér á Íslandi – reynast meiri en sem nemur getu landsins til að skapa gjaldeyri? Þá bíður okkar mikilvægt verkefni, sem eru samningar við erlenda kröfuhafa um lækkun þessara skulda. Erlendir kröfuhafar hafa hag af því að Íslandi gangi vel og þeim getur ekki hugnast sú framtíðarsýn að íslenskt efnahagslíf læsist í doða vegna ofskuldsetningar. Við höfum í tvígang áður gripið til aðgerða sem greiddu fyrir skynsamlegum skuldaskilum við erlenda kröfuhafa. Fyrst settum við Neyðarlögin, sem vörðu hagkerfið. Næst var samið um skiptingu bankanna í gamla og nýja og svigrúm skapað fyrir úrvinnslu skulda heimila og fyrirtækja. Nú er síðasta verkefnið eftir: Að tryggja að Ísland í heild – ríkisrekstur sem einkarekstur – geti staðið undir erlendum skuldum.

Ef þetta verkefni tekst vel er mögulegt að setja meiri kraft í afnám gjaldeyrishafta. Þá tekst líka að draga verulega úr hættunni á því að krónan nái sér ekki aftur á strik í kjölfar afnáms hafta. En eftir stendur þá spurningin um hvort krónan muni geta spjarað sig í eðlilegum viðskiptum á gjaldeyrismarkaði eftir að höft hafa verið afnumin. Getur krónan virkað án sérstakra stuðningsaðgerða og verður verðmyndun hennar eðlileg? Getum við lifað við þá umgjörð sem EES-samningurinn skapar um frjálst fjármagnsflæði? Ég leita áfram svara við því í næstu greinum.

Birt í Fréttablaðinu, 27. ágúst 2012.

21. 08 2012

- um Ísland í Evrópu.

Í fyrri greinum hef ég rakið þann mikla ávinning sem við höfum haft af opnun hagkerfisins með EES-samningnum en líka rætt hversu berskjölduð við urðum þá fyrir hræringum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Markmið okkar hlýtur nú að vera að koma Íslandi aftur í full tengsl við hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi, en tryggja okkur líka fullnægjandi hagvarnir svo að við verðum ekki aftur jafn berskjölduð og við höfum verið síðustu ár. Og stóra spurningin er hvort það sé mögulegt innan EES eða hvort það verði auðveldara með aðild að ESB?

Fyrst af öllu þurfum við þá að greina rétt þann vanda sem nú steðjar að mörgum Evrópuríkjum. Sumir kenna evrunni um stöðuna og aðrir segja vandamálið einungis vera skuldavanda sumra aðildarríkja evrunnar. Málið er hins vegar flóknara er svo.

Fjármálakreppan frá 2008 hefur nú þróast í torleysta skuldakreppu. Heimili á Vesturlöndum hafa um áratugi gengið á eigið fé og aukið skuldsetningu sína. Þetta á við um Bandaríkin, Bretland, ýmis evruríki og svo Ísland, en í misríku mæli. Skuldsetning í atvinnulífi hefur líka aukist í kjölfar sífellt fjölbreyttara framboðs á fjármálaþjónustu. Sama má svo segja um hið opinbera – ríki og sveitarfélög – í ýmsum ríkjum. Evran greiddi að mörgu leyti fyrir þessari þróun, því með henni fengu flest aðildarríkin og bankar þeirra aðgang að lánsfé á mun lægri kjörum en þeim hefðu ella boðist. Fleiri og fleiri gátu því tekið hærri og hærri lán. En það þurfti ekki evruna til – þar er reynsla Íslendinga ólygnust. Bætt lánshæfismat íslenska ríkisins nýttist íslenskum bönkum til útþenslu með sama hætti.  

Grunnurinn að vandanum er því skuldsetning heimila, fyrirtækja og opinberra aðila. Þeim mun fleiri þættir efnahagslífsins sem eru skuldsettir upp í rjáfur, því minna svigrúm er til að takast á við óvænt áföll. Þess vegna er enginn eðlismunur á orsökum vanda evruríkjanna Spánar, Írlands og Portúgals og svo Lettlands, Ungverjalands og Bretlands. Eini munurinn felst í því hversu víðtæk skuldsetningin var og hvort það voru ríkið sjálft, sveitarfélögin, bankakerfið, heimilin eða fyrirtækin sem stofnuðu til skuldanna. Sú staðreynd að reglur innri markaðarins byggja á því að hvert ríki um sig styðji við og regli eigið fjármálakerfi veldur því hins vegar að vandi banka verður fljótt vandi þjóða á hinum evrópska markaði. Þar gildir einu hvort við eigum í hlut eða evruríki. Spurningin er bara hversu vel eða illa gengur að komast hjá því að bankakerfi í vanda verði viðkomandi þjóð að fótakefli.

Þegar harðnar á dalnum hætta bankar að geta lánað og lánsfé verður torfengnara og hækkar í verði. Bankar vilja að lán séu greidd upp eða vextir hækki.

Afleiðingarnar verða ólíkar eftir því hvaða land á í hlut, en þær eru alltaf erfiðar. Ísland byggði allt sitt á erlendum lánum. Fyrir vikið komu áhrif versnandi skilyrða að fullu og öllu fram á gjaldeyrismarkaðnum. Erlendir bankar heimtuðu að íslenskir skuldarar borguðu lánin sín. Spákaupmenn vildu líka breyta krónunum sínum í evrur. Enginn gjaldeyrir var til og krónan hrundi.

Evran veldur því að kreppan hefur annars konar áhrif á evruríkin. Innan evrusvæðisins er ekki um gjaldeyrisyfirfærslur að ræða. Þar koma afleiðingar fram á skuldabréfamarkaði, þar sem áhættuálag á skuldug ríki og skulduga banka eykst. Ríkin þurfa að verja meira fé til að styðja við fjármálakerfi sín. Hóflegar ríkisskuldir geta fljótt orðið algerlega óviðráðanlegar þegar vaxtastigið fer upp úr öllu valdi.Vandinn er sá sami, en afleiðingarnar verða aðrar.

Hið öfugsnúna er að við núverandi aðstæður ýkir evran aðstöðumun aðildarríkjanna. Lántökukostnaður Þjóðverja hefur þannig lækkað stórlega á meðan kostnaður annarra hefur hækkað. Spánverjar og Ítalir hafa undanfarið þurft að borga 6-7% vexti á 10 ára skuldabréfum, en Þjóðverjar borga nú rétt rúmt prósent og njóta neikvæðra vaxta á bréfum til tveggja ára - fjárfestar borga semsé fyrir að fá að lána Þjóðverjum peninga til skamms tíma. Fjármögnunarkjör þessara þjóða voru hins vegar áþekk fyrir 2008. Þjóðverjar hafa þannig sparað sér tugi milljarða evra í vaxtagjöld á þessu ári einu, á meðan að öll önnur lönd þurfa að skuldsetja sig - og almenning - til að standa skil á vaxtagreiðslum, sem oftar en ekki renna á endanum til þýskra banka.

Þetta ójafnvægi  hefur sífellt víðtækari áhrif. Vaxtastig það sem ríkið borgar er það gólf sem vaxtastig allra annarra miðast við. Þannig mun vaxtakostnaður ítalskra og spænskra fyrirtækja rjúka upp að óbreyttu þegar þarlendir bankar munu hækka vexti. Augljóst virðist því að þessi staða muni að óbreyttu valda vaxandi misvægi á evrusvæðinu, sem birtist í lakari samkeppnisstöðu banka í ríkjum í erfiðleikum, hættu á fjármagnsflótta og mismun í fjármögnunarkjörum ríkja sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Evran hafði þannig áhrif til að auka skuldsetningu sumra evruríkja og hún ýtir – við núverandi aðstæður – undir misvægi milli aðildarríkja, en hún er sem slík hvorki orsök vanda allra evruríkja né hindrun í vegi skynsamlegra lausna á vandanum. Ekki má gleyma því að evran kemur líka í veg fyrir að menn geti beitt hefðbundnum lausnum sem ríki hafa gripið til í alvarlegum fjármálakreppum hingað til – stórfelldum gengisfellingum, höftum á fjármagnsútstreymi og einangrunarstefnu í milliríkjaviðskiptum. Það er auðvelt að mæla með hinni „íslensku leið“ stórfelldrar gengisfellingar – sem felur í sér launalækkun um tugi prósenta – en við vitum líka að slík leið skapar engin verðmæti heldur einfaldlega flytur þau til. Ef allir færu hana, væru allir á sama stað.

Ef evran á að lifa, þurfa aðildarríkin til að takast á við hið raunverulega misvægi sem er að baki kreppunni og þá veikleika sem þegar hafa komið fram í evrusamstarfinu. Á sama tíma er það misvægi sem olli hér bankahruni og haftabúskap óleyst. Þetta misvægi ógnar ekki bara stöðugleika evrusamstarfsins heldur líka umgjörð frjálsra fjármagnshreyfinga á hinum samevrópska markaði. Ef ekki tekst vel til kann innri markaðurinn og sá stöðugleiki sem honum hefur fylgt um áratugi að vera í hættu. Það er jafn mikið áhyggjuefni fyrir okkur og önnur Evrópuríki.

En hvað er þá til ráða? Við þá spurningu held ég áfram að glíma í næstu greinum.

Birt í Fréttablaðinu, 21. ágúst 2012.

18. 08 2012

- Um Ísland í Evrópu.

Í síðustu greinum hef ég rakið ávinninginn af þátttöku Íslands í evrópskri efnahagssamvinnu, frá aðild okkar að EES-samningnum, en líka fjallað um hversu vanbúið íslenskt efnahagslíf var til að ganga inn í fullkomlega frjálst viðskiptaumhverfi þegar EES-samningurinn tók gildi. En til að bæta gráu ofan á svart var fjármálakerfi heimsins að taka stakkaskiptum á sama tíma. Reglur um fjármálakerfið voru rýmkaðar um allan heim og tækniframfarir gerðu viðskipti miklu auðveldari og einfaldari. Fullt frelsi til fjármagnsflutninga á hinum evrópska markaði skapaði óteljandi ný tækifæri. Fyrir vikið margfölduðust viðskiptin milli ára, hvort sem talið var í fjölda samninga eða í fjármunum sem skiptu um hendur. Þessi nýja veröld hrundi með fjármálakreppunni 2008. Ísland varð harkalegar úti í fyrstu hrinu þeirra hamfara en flest önnur  ríki, en enn sér ekki fyrir endann á því tjóni sem fjármálakreppan mun valda. Stjórnmálamenn um öll lönd játa að þeir hafi ekki skilið til fulls eðli fjármálamarkaða eða gereyðingarmátt þeirra. Eitt er þó ljóst: Okkur mistókst að geyma okkar dýra land og halda því fjarri vígaslóð er þessi jarðarstríð dundu yfir, svo vísað sé til þjóðhátíðarljóðs Huldu eins og í heiti þessarar greinar.

Hið opna hagkerfi Evrópu gerði okkur varnarlaus í aðdraganda fjármálakreppunnar. Ég hef í síðustu grein rakið hversu vanbúin við vorum til að leggja sjálfstætt mat á íslenskar þarfir á alþjóðlegum markaði, enda með enga reynslu af frjálsu markaðshagkerfi. Áherslan meðal aðildarríkja ESB var á opið hagkerfi og hugmyndir um einhvers konar hagvarnir voru almennt litnar hornauga og tengdar einangrunarhyggju og tollmúrum fyrri áratuga. Allar sérlausnir hefðu þurft að byggja á efnislegri og rökstuddri greiningu á séreðli íslenskra markaða og það er augljóst að henni gat aldrei verið fyrir að fara þegar hvorki voru til íslenskir markaðir né greining á hegðun á þeim. Líklega höfðum við því hvorki sjálfstraust eða né efnislegar forsendur til að útbúa hugmyndir um séríslenskar lausnir á þeim tíma.

Almennt má segja að í hinu evrópska fjórfrelsi hafi falist djúpstætt vanmat á þeim hættum sem gætu skapast af samspili frjáls innri markaðar með fjármálaþjónustu yfir landamæri og áframhaldandi tilvist sjálfstæðra gjaldmiðla og þess að stuðningur við banka og eftirlit með þeim  og umgjörð innstæðutrygginga væri á ábyrgð hvers ríkis um sig. Í þessum veikleikum lágu orsakir Hrunsins að stóru leyti og sumir þessara veikleika hafa valdið Írum og nú Spánverjum gríðarlegum erfiðleikum. Íslenska hrunið var því ekkert séríslenskt, þótt smæð íslenska hagkerfisins og veikleiki krónunnar hafi valdið því að þessar hættur ollu fyrr tjóni og meira tjóni hér á landi en annars staðar.

Með innri markaðinum urðu gjaldmiðlar vörur – rétt eins og korn eða olía eða hvað annað sem gengur kaupum og sölum á markaði. Skyndilega varð almenningi mögulegt, án vandkvæða, að kaupa gjaldmiðil – ekki til að nota til kaupa á vöru eða þjónustu, heldur til að veðja á verðþróun hans eða njóta vaxtakjara viðkomandi ríkis. Við supum seyðið af þessu á árunum fyrir hrun, þegar vaxtastig hér var hærra en í Evrópu og fjármálafyrirtæki um alla Evrópu buðu viðskiptavinum að njóta íslenskra vaxtakjara með kaupum á krónueignum. Þessi viðskipti voru jafnvel á færi einstaklinga sem gátu keypt krónur eða eignir í krónum með íslenskum vöxtum í heimabankanum sínum. Afleiðingin varð gríðarlegt innflæði erlends gjaldeyris sem styrkti gengi krónunnar, bjó til innistæðulausan kaupmátt og lækkaði verðbólgutölur. Vandinn var bara að þegar harðnaði á dalnum vildu allir út á sama tíma og gjaldeyrismarkaðurinn hrundi. Þess vegna eru hér gjaldeyrishöft og þess vegna eru hér fastar aflandskrónur.

Við þennan vanda bættist annar alvarlegur ágalli. Vegna smæðar hagkerfisins, sveiflna gjaldmiðilsins og líklega líka rótgróinna efasemda Íslendinga um ágæti erlendrar fjárfestingar var lítið um beina erlenda fjárfestingu hér á landi í kjölfar EES-samningsins, nema í áliðnaði. Þess í stað nýtti íslenskt atvinnulíf hið nýfengna frelsi til öflunar fjármagns til að taka lán. En þá liggur áhættan öll hjá Íslendingum: Ef gengi krónunnar fellur hækka erlendu lánin og vaxa innlendum fyrirtækjum hratt yfir höfuð. Ef harðnar á dalnum hækka vextir. Hrunið sýnir betur en nokkuð annað hversu varhugavert það er að byggja efnahagsuppbyggingu alfarið á lánsfé. Umsvifameiri bein erlend fjárfesting hér á landi hefði aukið á efnahagslegan stöðugleika, greitt frekar fyrir tækniþróun í íslensku atvinnulífi og ekki farið svo glatt úr landi. Hækkun fjármagnskostnaðar vegna gengisbreytinga eða ytri aðstæðna hefði lent á hinum erlendu fjárfestum.

Öll vitum við svo hvernig aðdragandi hrunsins leiddi í ljós miklar veilur á því regluverki sem gilti um fjármálastarfsemi á innri markaðnum. Íslensku bankarnir höfðu engan lánveitanda til þrautavara sem gat séð þeim fyrir alþjóðlega nothæfum gjaldmiðli og því voru engin bjargráð möguleg eftir að fyrsti stóri íslenski bankinn féll. Innstæðutryggingakerfið reyndist of veikburða fyrir banka með starfsemi víða um lönd, jafnvel þótt það hefði verið útbúið í fullu samræmi við hið evrópska regluverk.

Allir þessir áhættuþættir eru enn hluti af innri markaðnum og ekki hafa verið útbúnar leiðir til að takast á við þá nema að litlu leyti. Við erum nú í vari fyrir þeim, vegna gjaldeyrishaftanna, en verðum á ný berskjölduð fyrir þeim þegar höftum verður aflétt. Sú staðreynd kallar á að við metum upp á nýtt hvort og þá hvernig við getum lifað með þessum ágöllum og útbúið annað hvort fjölþjóðlegar eða innlendar hagvarnir sem gera okkur kleift að skapa opið, en varið, hagkerfi. Getum við það með áframhaldandi veru í EES eða færir aðild að ESB okkur ríkari möguleika til að reka hér opið og varið hagkerfi? Um það ræði ég í næstu grein.

 Birt í Fréttablaðinu, 18. ágúst 2012.

17. 08 2012

- um Ísland í Evrópu

Í síðustu grein rakti ég hinn mikla ávinning sem orðið hefur af þátttöku Íslands í evrópskri efnahagssamvinnu, frá aðild okkar að EES-samningnum. Til að uppfylla skyldur okkar samkvæmt samningnum þurftum við að tileinka okkur þær grunnreglur markaðshagkerfis sem nágrannalönd okkar hafa lengi byggt á: Frjálsa samkeppni og bann við hringamyndun, samkeppnishömlum og ríkisstyrkjum í atvinnulífi. Við afnámum ofurvald innlends klíkuveldis og sköpuðum landsmönnum aukið vald til að móta eigin örlög. Án EES-samningsins er alls óvíst að okkur hefði miðað að ráði í rétta átt að þessu leyti. Innlend hagsmunaöfl höfðu áratugum – og jafnvel öldum – saman náð að standa gegn viðskiptafrelsi í landinu. EES-samningurinn hjálpaði okkur með öðrum orðum að nálgast þá draumsýn sem Hulda sá fyrir sér í þjóðhátíðarljóðinu sem vísað er til í heiti þessarar greinar, að við værum þjóð sem yndi frjáls - við ysta haf.

En opnun hagkerfisins og aukið frelsi til athafna hafði líka í för með sér vandamál, sem enginn sá fyrir. Frelsið er nefnilega vandmeðfarið.

EES-samningurinn tók gildi um það leyti sem innri markaður ESB með vörur, þjónustu, frjálsa för vinnuafls og fjármagns varð loksins til. Aðildarríki ESB höfðu unnið að því markmiði að afnema allar hindranir í viðskiptum sín á milli um áratugi. Allt frá upphafi níunda áratugarins höfðu vestræn ríki líka stefnt að auknu frelsi í fjármagnsflutningum milli landa. Markmiðið var að fjármagnið ætti greiða leið yfir landamæri og allir áttu að njóta ávinnings af því fullkomna frelsi, þegar hagkvæmnin ein réði því hvar fjármagnið lenti á endanum.

Það varð því hlutskipti Íslands að gera hvort tveggja í senn: Að gera grundvallarbreytingar á innlendu viðskiptaumhverfi í frjálsræðisátt og opna þetta viðskiptaumhverfi fullkomlega fyrir alþjóðlegum hræringum. Við stukkum því í einu vetfangi úr einangruðu haftasamfélagi og yfir í opið, fjölþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Eftir á að hyggja var alltaf óhjákvæmilegt að slík stökkbreyting myndi valda togstreitu af einhverjum toga og að einhverjir vaxtarverkir myndu gera vart við sig á þessari vegferð.

Ein afleiðing þessara hröðu umskipta var sú að íslenskt stjórnkerfi var algerlega óreynt og vanbúið til að regla frjálsa markaði. Í nágrannalöndum okkar var löng hefð fyrir frjálsum viðskiptum og eðlilegri verðmyndun á frjálsum markaði. Hér varð ekki einu sinni til Kauphöll og markaðsviðskipti með hlutabréf fyrr en upp úr 1990. Á Íslandi var engin þekking eða reynsla til að greina íslenska markaði og sérkenni þeirra. Slík greining hefði átt að vera nauðsynleg forsenda skynsamlegs regluverks. Reynslan kenndi mönnum líka fljótt að vísan til evrópskra reglna kom í veg fyrir að stjórnsýsla eða stjórnmálamenn þyrftu sérstaklega að rökstyðja val á stefnumörkun, enda vissi þjóðin almennt að í EES-samningnum fælist skuldbinding um upptöku samevrópskra reglna. Fyrir vikið reiddi íslensk stjórnsýsla og stjórnmálalíf sig alfarið á hið samevrópska regluverk, sem barst okkur með EES-samningnum. Af því leiddi svo að við lögðum aldrei sérstakt mat á séríslenska áhættuþætti, eins og náin tengsl og klíkumyndanir í viðskiptalífi, sem gerðu skuldsett viðskiptalíf jafn viðkvæmt og spilaborg í aðdraganda hrunsins 2008. Við lögðum heldur aldrei mat á hverjar væru eðlilegar starfsheimildir banka á alþjóðlegum markaði út frá íslenskum hagsmunum og þeirri áhættu sem ofvaxið bankakerfi skapaði fyrir íslenskt efnahagslíf.

Sú langvinna fjármálakreppa sem gekk yfir heiminn árið 2008 stendur enn. Hún hefur fært okkur heim sanninn um það að engir gerðu sér til fulls grein fyrir því hver áhrif fullt frelsi til fjármagnshreyfinga gæti haft á efnahagslegt öryggi almennings í hinum vestræna heimi. Þvert á móti var almenn samstaða um mikilvægi aukins markaðsfrelsis. Hægri menn studdu markaðsfrelsið því það myndi auka hagnað og arðsemi. Jafnaðarmenn studdu það því þeir voru sannfærðir um að frjálst heimshagkerfi myndi draga úr aðstöðumun milli ríkari ríkja og fátækari, brjóta niður forréttindi innlendra valdastétta og skapa jafnari tækifæri til verðmætasköpunar.

Alþjóðasinnar, jafnt til hægri og vinstri, vissu líka hversu skaðleg efnahagsleg þjóðernisstefna hafði reynst, allt frá því að ríki heims reistu tollmúra í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar og gerðu þannig alvarlega niðursveiflu að langvinnri heimskreppu og bjuggu í haginn fyrir ofbeldisöfl. Allir höfðu líka séð að samkeppni ríkja um að fella gengi til að bæta stöðu sína hvert gagnvart öðru hafði engu skilað öðru en verðbólgu, óstöðugleika og skertri samkeppnishæfni ríkja. Það var því almennt álitinn mikill fengur af auknum milliríkjaviðskiptum og auknu frelsi í fjármagnshreyfingum.

Ávinningur okkar af EES veldur því að verkefni okkar hlýtur að vera að finna leiðir til að við getum þróað áfram samkeppnishæft og opið hagkerfi, en án þess að efnahagslegum stöðugleika sé ógnað. Við þurfum að greina hinn íslenska markað og regla hann innan marka hins alþjóðlega regluverks, svo við getum áfram tekið þátt í hinu alþjóðlega markaðskerfi en án óbærilegrar áhættu fyrir íslenskan almenning. Þátttaka okkar í evrópsku samstarfi verður að styðja við þetta takmark. Um þau verkefni sem bíða okkar mun ég fjalla í næstu grein.

Birt í Fréttablaðinu, 17. ágúst 2012.

16. 08 2012

- um Ísland í Evrópu

Við lifum mikla umbrotatíma. Óþarfi er að fjölyrða um íslenskt banka- og gjaldeyrishrun og afleiðingar þess. Um alla Evrópu hafa afleiðingar fjármálakreppunnar árið 2008 líka verið miklar og langvarandi. Allar þessar hræringar vekja spurningar um evrópskt efnahagssamstarf og gildi þess.

Þess vegna er óhjákvæmilegt að allir hugi að stöðu Íslands í evrópsku samstarfi og hvernig hún verði best tryggð. Sjálfsagt er til dæmis í þessu samhengi að spyrja hvort aðildarumsóknin sé tímaskekkja og hvort EES-samningurinn dugi okkur. En við verðum að mæta þessa stöðu af raunsæi. Aðild leysir ekki sjálfkrafa úr öllum erfiðleikum sem að löndum steðja eftir fjármálakreppuna, en staða utan evrusamstarfsins gerir það ekki heldur. Þátttaka í Evrópusamstarfi hefur í för með sér hættur, rétt eins og ávinning. Fyrsta skrefið er því að greina þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi frá því EES-samningurinn var gerður og hvaða jákvæðar og neikvæðar afleiðingar þessi opnun hagkerfisins hefur haft.

Ísland varð með EES-samningnum árið 1993 aðili að mikilvægasta þætti Evrópusamstarfsins, innri markaði sem tryggir hindrunarlaus viðskipti með vörur, þjónustu, frjálsa för vinnuafls og fjármagnshreyfingar. Ástæðan fyrir aðild okkar að innri markaðnum þá var augljós, en þó langt í frá óumdeild. Íslenskt efnahagslíf var komið í ógöngur einangrunar, hringamyndunar og pólitískra flokkadrátta undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Fyrir ungu fólki í dag hljómar það fjarstæðukennt að pólitískar skoðanir en ekki vörugæði hafi ráðið kaupum á bifreiðum, tækjum, olíu, tryggingum og frakt, en sú var engu að síður raunin. Hægt var að aka um sveitir landsins og sjá á bíla- og vélakosti hvort viðkomandi bóndi kysi Framsókn eða Sjálfstæðisflokk. Frægt er tilsvar Framsóknarmannsins: „Frekar keyri ég bensínlaus en á bensíni frá Skeljungi“.

Þetta einhæfa atvinnulíf var komið í þrot af súrefnisleysi undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Það var óhagkvæmt, varið fyrir samkeppni og naut hvorki fullnægjandi aðgangs að fjármagni á arðsemisforsendum né erlendum mörkuðum. Hið lokaða Ísland forréttindahópa Kolkrabba og Sambandsins gekk vel á meðan sjávarafli jókst ár frá ári, en um leið og gjöfular auðlindir hættu að niðurgreiða kostnað þjóðarinnar af fákeppni og klíkuveldi hætti hagkerfið að vaxa. 

EES-samningurinn leysti þetta vandamál í einu vetfangi og var alger forsenda efnahagsuppgangs sem hófst strax upp úr miðjum tíunda áratug tuttugustu aldar. Íslenskar útflutningsgreinar fengu fullan og hindrunarlausan markaðsaðgang og tollar á flestar sjávarafurðir féllu niður. Íslenskar samkeppnisgreinar fengu ný vaxtartækifæri sem þær nýttu vel – Össur, Marel, Actavis, CCP eru bara nokkur dæmi um fyrirtæki sem uxu í skjóli frjálsra markaðsviðskipta og aðgangs að fjármagni og mörkuðum og hefðu ekki getað vaxið með sama hætti fyrir tilkomu EES-samningsins. Samkeppnislöggjöf var sett í fyrsta sinn að evrópskri fyrirmynd og þannig var bundinn endir á víðtækt og landlægt samráð um verð og framboð á vöru og þjónustu, sem hafði takmarkað getu samfélagsins til verðmætasköpunar um áratugi og jafnvel aldir. EES-samningurinn opnaði einnig fyrir erlent fjármagnsstreymi til Íslands, sem var burðarstoð í uppbyggingu atvinnulífsins. Nágrannalönd okkar búa við aldalanga reynslu af frjálsum mörkuðum, þar sem ólíkir hagsmunir leikast á og aðferðir við eftirlit með markaðshegðun hefur þróast á löngum tíma. Reynsla Íslands af frjálsum og valddreifðum markaði nær ekki einu sinni tveimur tugum ára.

EES-samningnum fylgdi líka fjölþjóðlegt eftirlit og dómsvald, sem var ekki síður mikilvægt. Eftirlitsstofnun EFTA var sett á fót til að tryggja að íslensk stjórnvöld færu að samningnum og EFTA-dómstólnum var falið dómsvald um réttindi og skyldur. EES gaf Íslendingum þannig kærkomið og langþráð frelsi til athafna í eigin rétti, braut niður pólitískt skömmtunarvald og kom böndum á rótgróið ofríki íslenskra stjórnvalda gagnvart eigin borgurum. „Með EES fengum við frelsi til að vera við sjálf“ sagði ein góð kona.

Hannes Pétursson orðaði í frægu kvæði tilvistarspurningu Íslendingsins með þeim hætti sem vísað er til í heiti þessarar greinar: „Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar“. Hinn augljósi ávinningur af aðild Íslands að hinu evrópska viðskiptaumhverfi ætti að leiða okkur að þeirri niðurstöðu að við eigum augljóslega heima í Evrópu og Ísland sé ekki handan endimarka Evrópu. En þrátt fyrir þennan mikla ávinning hefur alþjóðavæðing efnahagslífsins og aðild okkar að EES líka haft í för með sér ýmsa neikvæða fylgikvilla og gert okkur berskjölduð gagnvart stórviðrum í hinu alþjóðlega fjármálaumhverfi. Um það mun ég fjalla í næstu grein.

Birt í Fréttablaðinu, 16. ágúst 2012.

13. 08 2012

Í fyrri greinum hef ég fjallað um þann góða árangur sem við höfum nú náð í efnahagsmálum og skýrt hvernig efnahagsstefna okkar og AGS bjó í haginn fyrir þann góða árangur. Lykilatriði var að við nálguðumst það erfiða verkefni að laga útgjöld að tekjum eftir Hrun á forsendum jafnaðarmanna: Við vildum sýna hagsýni húsmóðurinnar. Við vildum draga úr kostnaði eins og mögulegt væri, en ekki þannig að mikilvæg verkefni yrðu sett í hættu eða þjónusta skert umfram það sem ásættanlegt gæti talist.

Aðhald í ríkisrekstri verður auðvitað áfram nauðsynlegt. Við, sem viljum búa í réttlátu samfélagi þar sem ríkið tryggir jöfn tækifæri og félagslegt réttlæti, berum ábyrgð á því að reka ríkið með eins hagkvæmum hætti og kostur er. Ef við gerum það ekki, færum við andstæðingunum mikilvæg vopn til að grafa undan samneyslunni og veikja velferðarþjónustuna. Nýverið stakk einn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins upp á því að ríkisútgjöld yrðu færð aftur til þess sem þau voru árið 1980. Sjálfstæðisflokkurinn kann því enn einn ganginn að vera að elta ranghugmyndir breskra íhaldsmanna, rétt eins og þegar þangað voru sóttar fyrirmyndir að markaðsvæðingu án samfélagslegrar ábyrgðar á fyrri tíð.

Við sem viljum verja félagslegt réttlæti og skynsamleg útgjöld til velferðarmála getum því ekki talað eins og að við höfum nú höndlað hinn eilífa sannleik og að útgjöld til ríkisrekstrarins og umgjörð hans þurfi ekki framar endurmats við. Þvert á móti þurfum við að nýta öll tækifæri til að fara betur með og fá meiri og betri þjónustu fyrir minna verð. Þar eru mörg tækifæri. Sem dæmi má nefna að notendur kalla eftir sífellt meira frelsi í að ákveða hvernig þjónustu þeir fá, frá hverjum og hvenær. Hagsmunasamtök fatlaðra hafa gengið fram fyrir skjöldu í þessu efni. Aldraðir munu líka vilja ráða meiru um þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Í slíkum breytingum felast ný tækifæri til að gera hvort tveggja í senn: Auka vald fólks yfir eigin lífi og draga úr kostnaði við umgjörðina við þjónustuna, á sama tíma og þjónustan er bætt. Með þessum hætti þurfum við að að halda áfram að endurmeta allan ríkisreksturinn, til að tryggja að þjónustan sé ávallt veitt með eins hagkvæmum og skynsamlegum hætti og kostur er.

Efnahagsbatinn frá Hruni er staðreynd, en hann byggir á viðkvæmum grunni. Vöxtur okkar hvílir á missterkum stoðum. Afgangur af viðskiptum við útlönd frá Hruni hefur ekki byggst á aukningu á útflutningi okkar heldur á minni innflutningi. Þegar hægði á hagkerfinu drógum við úr kaupum á erlendri neysluvöru og við hættum að kaupa erlend tæki og tól í sama mæli og áður. Þegar hagkerfið kemst á fullt skrið má búast við aukningu á innflutningi. Þá skiptir miklu að útflutningur okkar aukist, ef áfram á að vera afgangur af viðskiptum við útlönd. Helstu útflutningsvörur okkar eru sjávarafurðir og ál. Magn þeirra verður ekki aukið svo auðveldlega á einni nóttu. Við veiðum ekki meira en ráðgjöf vísindamanna leyfir og það tekur langan tíma að reisa ný stóriðjuver og erfitt er orðið að finna orku sem hentar til slíkrar stóruppbyggingar. Ferðaþjónustan skilar miklu, en það eru líka takmörk fyrir því hversu hratt sú grein getur vaxið. Því skiptir miklu að við reisum traustari stoðir undir  fjölbreyttari útflutningsgreinar. Fleiri þurfa að geta flutt út. Við getum ekki öll farið að framleiða ál, en við getum flutt út þjónustu og þekkingu. Efnahagslegur stöðugleiki, með lágum vöxtum og stöðugu gengi, er forsenda þess að okkur takist það verkefni.

En stöðugleika er vandasamt að ná, þegar íslenskt efnahagslíf er í viðjum hafta og lánsfé verður landinu og atvinnulífi dýrt og torsótt um mörg ókomin ár. Þá skiptir mestu að reisa sjálfbæra umgjörð um íslenskt efnahagslíf. Við getum ekki áfram byggt allt á lánum. Við verðum að búa okkur undir að nýta betur landkosti og hæfileika okkar sjálfra, auka á nýsköpun í hverri grein og fjölga þannig tækifærum til verðmætasköpunar.

Í þessu samhengi er mikilvægt að horfa til þess hvernig grannar okkar, Norðmenn og Finnar, tóku á veikleikum í efnahagsþróun sinni eftir kreppuna í upphafi tíunda áratugarins. Norðmenn reistu skynsamlega umgjörð um nýtingu náttúruauðlinda sinna og veittu einkafyrirtækjum aðkomu að þeirri nýtingu undir opinberu forræði og þannig að arður af nýtingu félli til samfélagsins. Ávinningurinn er ekki síst sá að draga úr áhættu ríkisins af atvinnurekstri og nýta betur það fé sem er bundið í opinberu eignarhaldi en nýtist að óbreyttu illa til verðmætasköpunar. Við þurfum líka að nýta okkur betur afl okkar ágætu lífeyrissjóða og finna þeim fjárfestingartækifæri í arðsamri uppbyggingu innviða. Af hverju á ríkið að flytja eigið fé frá heilbrigðiskerfinu til að byggja flugstöðvar eða skuldsetja almenning til að byggja rafmagnslínur til einkafyrirtækja? Af hverju geta ekki lífeyrissjóðir landsmanna fengið þessi verkefni?

Finnar nýttu sér aðgang að evrópskum mörkuðum til að byggja upp nýja útflutningsatvinnuvegi, þar sem höfuðáhersla var lögð á sköpunarkraft og þekkingu. Við höfum fjárfest í þekkingu ungs atvinnulauss fólks og þannig forðast stærstu mistök Finna, sem misstu heila kynslóð af vinnumarkaði. En ungt fólk, með þekkingu og burði, sem vill hasla sér völl í skapandi greinum og tæknigreinum þarf pláss. Lítil skapandi fyrirtæki þurfa ekki skjall og innblásnar lofræður, heldur pláss til að vaxa og stækka. Ríkið getur stutt við slíka þróun með með því að haga innkaupastefnu sinni þannig að upplýsingatækni, hönnun og ýmis stoðþjónusta sé aðkeypt í vaxandi mæli. Af hverju rekur ríkið fjölmörg mötuneyti í miðbænum, mitt í þyrpingu helstu matsölustaða landsins sem glíma við þann stærsta vanda að lifa af vetrarmánuðina? Öflugar útflutningsgreinar verða ekki til nema við styðjum við þær hér heimafyrir. Og þær þurfa markaðsaðgang. Þannig eigum við ónýtt gríðarleg sóknarfæri í landbúnaði, sem aldrei verða að veruleika nema við fáum hindrunarlausan markaðsaðgang að Evrópumarkaði.

Á þessu hangir margt. Fyrirsjáanlegt er að vaxandi útgjaldaþrýstingur verður á næstu áratugum, eftir því sem þjóðin eldist, enda enn ekki búið að koma öllum lífeyrisskuldbindingum ríkisins í það horf að við eigum fyrir þeim. Við þurfum að létta á þeim þrýstingi. Ef við náum að að sýna afgang af rekstri ríkisins um mörg ókomin ár dafnar atvinnulíf í landinu, vaxtastig lækkar og dregur úr skattbyrði. Við flýtum því líka að gjaldeyrishöft verði afnumin. Við drögum úr erlendri lánsfjárþörf og þar með vaxtagreiðslum úr landi. Aukinn kraftur í fjölbreyttari útflutningsstarfsemi fjölgar þeim stoðum sem hagkerfið hvílir á. Við þurfum að koma íslensku efnahagslífi aftur í samband við hið alþjóðlega efnahagsumhverfi og nýta aðgang að mikilvægum mörkuðum til að fjölga tækifærum.

Það er hin sjálfbæra sóknarstefna nýrra tíma.

Birt í Fréttablaðinu, 13. ágúst 2012.

10. 08 2012

Í síðustu grein rakti ég þann mikla árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum á þessu kjörtímabili. Forsenda þessa bata er skynsamleg efnahagsstefna sem mörkuð var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þessi ríkisstjórn hefur unnið eftir allt kjörtímabilið. Samfylkingin ber lykilábyrgð á þessari stefnu, jafnt í fyrri ríkisstjórn og þeirri sem nú situr. Hún fól í sér blandaða leið skattahækkana, tímabundins hallarekstrar, skuldaúrvinnslu og niðurskurðar í ríkisútgjöldum, til að koma á jöfnuði í ríkisrekstri og leggja grunn að heilbrigðri endurreisn. Við nýttum okkur samvinnuna við AGS til að milda höggið af Hruninu.

Um allan hinn vestræna heim glíma ríki nú við afleiðingar fjármálakreppunnar og að laga útgjöld að tekjum. Í mörgum löndum hefur ríkið axlað svo miklar byrðar vegna fjármálakerfisins að rekstur ríkisins til lengri tíma er í hættu. Tvær leiðir eru einkum boðaðar til lausnar: Í Bretlandi hafa stjórnvöld boðað mikinn niðurskurð ríkisútgjalda. Víða annars staðar hafna stjórnvöld lækkun ríkisútgjalda og vilja halda áfram hallarekstri og skuldasöfnun til að standa vörð um samneysluna í anda hugmynda Keynes frá fjórða áratugnum. Báðar leiðirnar eru stórgallaðar og duga ekki til að glíma við þá erfiðu stöðu sem uppi er.

Breska leiðin lækkar vissulega útgjöld, en hún hefur margvísleg neikvæð áhrif. Niðurskurðurinn beinist í ríkum mæli að millifærslum úr opinberum sjóðum – greiðslum til atvinnulausra, lífeyrisþega og barnafólks. Af því leiðir að allir þessir hópar hafa minna milli handanna og halda að sér höndum í neyslu. Fyrir vikið dregst hagkerfið saman meira og fyrr en ella. Bresk stjórnvöld fara nú þessa leið, þrátt fyrir ókosti hennar, vegna þess að hægri menn hafa þar það pólitíska markmið að brjóta niður þá umgjörð félagslegrar samstöðu sem vinstri stjórn Verkamannaflokksins tókst að byggja upp allt frá 1997. Stefna sem þessi brýtur niður félagslega samstöðu, eykur misskiptingu og fækkar þeim tækifærum sem við þurfum öll á að halda.

Leið hallareksturs er hins vegar enginn raunverulegur valkostur við niðurskurð. Hún er vissulega skynsamleg til skamms tíma og getur þá forðað því að kreppa dýpki um of, en við getum aldrei komist undan þeim gömlu sannindum að enginn getur eytt um efni fram. Mörg Evrópuríki eru nú komin í öngstræti vegna þess að þau hafa forðast að taka á sóun í ríkisrekstri og treyst á að þau gætu fjármagnað hallarekstur á meðan á kreppunni stæði. Þau standa núna frammi fyrir því að þurfa að skera meira niður en þau hefðu ella þurft, til að koma ríkisrekstrinum í horf. Fjármálakreppa ársins 2008 hefur þróast í alvarlega skuldakreppu, sem gerir ósjálfbæran hallarekstur ómögulegan. Keynes myndi varla ráðleggja nokkru ríki í hættu vegna ofskuldsetningar að auka á hana, væri hann á lífi í dag.

Við núverandi aðstæður er óhjákvæmilegt að taka á skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Ef ríkið getur ekki stutt við kaupgetu fólks eða umsvif í hagkerfinu með hallarekstri, liggur beinast við að þvinga fjármálakerfið til að horfast í augu við að kröfur þess á fyrirtæki og heimili eru óraunsæjar og þurfa lækkunar við. Um alla Evrópu blasir við að allur kraftur verði að óbreyttu soginn úr efnahagslífinu, því fyrirtæki og heimili eru læst í skuldaviðjum. Hin íslenska leið er sérstök að því leyti að skuldaúrvinnsla var lykilþáttur í hinni íslensku efnahagsáætlun og skuldastaða heimila og fyrirtækja er færð að greiðslugetu og raunvirði rekstrar og eigna.

Við fórum þessa blönduðu leið, enda kreppan núna er ekki sú sama og sú sem Keynes glímdi við á fjórða áratugnum og ekki heldur nein venjuleg fjármálakreppa, sem kenningar Hayeks geta leyst.

Við nýttum okkur leið hallarekstursins í upphafi efnahagsáætlunar okkar. Ríkissjóðshallinn var á þriðja hundrað milljarða árið 2008, en stærstur hluti niðurskurðar ríkisútgjalda kom ekki til fyrr en á fjárlögum ársins 2011. Þannig gátum við – með aðstoð og lánafyrirgreiðslu AGS – haldið ríkisútgjöldum háum lengur en ella. Það olli því að kreppan varð ekki eins djúp hér og hún hefði ella verið og atvinnuleysið komst aldrei í þær hæðir sem spáð var í upphafi. Millifærslukerfið – greiðslur til atvinnulausra, lífeyrisþega og barnafólks – hélst lítt skert og gegndi þannig hlutverki til sjálfvirkrar sveiflujöfnunar. Fólk hafði meira milli handanna fyrst eftir Hrun en ef strax hefði verið ráðist í niðurskurð. Fyrir vikið dróst hagkerfið ekki eins mikið saman og ella hefði verið

Við tókum líka á í ríkisrekstrinum. Velferðarþjónustunni var hlíft við niðurskurði. Verkefnið var alltaf það að freista þess að veita jafn góða þjónustu með minni tilkostnaði. Þessi forgangsröðun sást meðal annars í því að á árunum 2009 og 2010 var algengt að uppsafnaður sparnaður í almennri stjórnsýslu væri 17-19%, en á sama tíma drógust framlög til þjónustu við fatlaða saman um 2,6%. Óhjákvæmilegt var að draga úr útgjöldum til almannatrygginga. Þar var líka forgangsraðað og sparnaði náð með því að lækka greiðslur til þeirra sem mest höfðu milli handanna en grunnfjárhæð bóta ekki snert. Með sama hætti voru hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi lækkaðar, en ekki snert að neinu leyti við tímalengd fæðingarorlofs eða greiðslum til tekjulægri foreldra. Þessi forgangsröðun var auðvitað erfið, en hún er skýr vitnisburður um að það skiptir máli hverjir stjórna.

Við hækkuðum svo skatta, því það var óhjákvæmilegt. Í efnahagsóstjórninni á árunum 2003-2007 hafði verið gengið svo langt í skattalækkunum að ríkissjóður þoldi ekki eitt einasta venjulegt ár. Stöðug uppsveifla var forsenda þess að skattaumhverfi Sjálfstæðisflokksins gengi upp. Það var engin leið að reka norrænt velferðarkerfi með þeim skatttekjum sem til ráðstöfunar voru. Þess vegna var óhjákvæmilegt að hækka skatta, en þeir voru hækkaðir meira á þá sem voru betur í færum til að borga þá.

Þessi blandaða leið skilaði miklum árangri. En verkefninu er ekki lokið. Við þurfum að treysta í sessi þann efnahagslega árangur sem þegar hefur náðst, þótt við búum við erfið ytri skilyrði – mikla skuldsetningu, versnandi lánskjör og gjaldeyrishöft. Um það verkefni fjalla ég í næstu grein.

Birt í Fréttablaðinu, 10. ágúst 2012.

09. 08 2012

Við höfum öll heyrt jákvæðar fréttir af stöðu efnahagsmála upp á síðkastið. Þessi mynd er mjög ólík þeirri sem blasti við fljótlega eftir Hrun, þegar halli á ríkissjóði var á þriðja hundrað milljarða, hagkerfið dróst stöðugt saman, fjöldagjaldþrot fyrirtækja vofðu yfir og atvinnuleysi jókst frá mánuði til mánaðar.

Hagvaxtarspá fyrir næsta og þarnæsta ár hljóðar upp á 2-3% hjá hinum ýmsu greiningaraðilum og aukið gjaldeyrisinnflæði styrkir gengi krónunnar þessa mánuði. Afgangur hefur verið á viðskiptum við útlönd frá hruni. Sérstakt ánægjuefni er að atvinnuleysi er að lækka hraðar en spár gerðu ráð fyrir og nýjustu tölur Hagstofunnar benda til að dregið hafi umtalsvert úr langtímaatvinnuleysi. Vanskil fyrirtækja hafa minnkað hratt og gjaldþrotum fyrirtækja fækkar milli ára. Ríkissjóðshallinn, sem var í upphafi kjörtímabils yfir 200 milljarða króna, stefnir nú í að verða minni en tveir tugir milljarða og að jöfnuður náist á árinu 2014.

Sumir tortryggja tölur um hagvöxt og telja hann að of miklu leyti byggðan á einkaneyslu og að fjárfesting sé of lítil. Staðreyndin er þó sú að öll lönd telja það mikilvægasta verkefni efnahagsstjórnar að almenningur finni til slíkrar öryggistilfinningar að fólk treysti sér til að eyða peningunum sínum. Við þekkjum sjálf hvernig einkaneysla féll algerlega saman í kjölfar Hrunsins þegar afkomuóttinn varð öllu öðru yfirsterkari. Það er því beinlínis fagnaðarefni að einkaneysla sé hér nú svo mikil að hún hafi jákvæð hagvaxtaráhrif, ekki síst í ljósi þess að þótt yfirdráttarskuldir séu að hækka bendir enn fátt til að þessi aukna einkaneysla sé drifin áfram af aukinni skuldsetningu heimila. Þvert á móti eru skuldsetning heimila í heild að minnka. Tölur um fjárfestingu eru vissulega lágar, en hafa verður í huga að fjárfesting var með mesta móti hér í aðdraganda Hrunsins og því er umtalsverð fjárfesting líklega vannýtt í hagkerfinu. Sú offjárfesting er væntanlega að nýtast nú og dregur úr fjárfestingarþörf í hagkerfinu.

Það heyrast líka áhyggjur af því að minnkað atvinnuleysi endurspegli ekki aukin umsvif í hagkerfinu og fjölgun starfa, heldur stafi frekar af því að fækkað hafi á vinnumarkaði samfara því að fleiri hafi leitað í nám eða flutt af landi brott. Þetta eru réttmætar efasemdir, en minnkun atvinnuleysis samkvæmt nýjustu mælingum er samt mun meiri en svo að skýrst geti af brottflutningi eða brotthvarfi fólks af vinnumarkaði.

Við óttuðumst í upphafi niðursveiflunnar að langtímaatvinnuleysi myndi valda þeim sem fyrir því yrðu miklum erfiðleikum og skerða starfshæfni þeirra til langframa. Reynslan af kreppu Finna í upphafi níunda áratugarins gaf til kynna að 90% langtímaatvinnulausra ættu ekki afturkvæmt á vinnumarkað. Þeirra biði líf án starfsgetu á örorkubótum. Ungt fólk án menntunar væri í sérstakri hættu. Allar okkar aðgerðir hafa því miðað að því að fjárfesta í fólki og draga úr líkunum á því að við myndum lenda í sömu stöðu. Sérstakt ánægjuefni er því fækkun í hópi langtímaatvinnulausra samkvæmt nýjustu tölum, sem er ekki hægt að skýra með því að þeir hafi horfið af vinnumarkaði í nám eða glatað starfshæfni.

Allar þær aðgerðir sem við höfum staðið fyrir til að auka menntunarstig atvinnulauss fólks eru að skila tvíþættum árangri: Þær draga úr framboði á vinnumarkaði á tímum þegar offramboð er af vinnuafli án starfsmenntunar og skila betra samfélagi, virðismeiri störfum og ánægðari einstaklingum þegar upp er staðið. Allar þjóðir með skýra sýn um samkeppnishæfni sína freista þess að nýta erfiðleikatíma á vinnumarkaði til að bæta starfsmenntun þeirra sem missa vinnuna og leggja þannig grunn fyrir betri framtíð. Við höfum fjárfest í fólki og munum uppskera árangur af því.

Með sama hætti má sjá árangurinn af áherslu stjórnvalda á lækkun skulda heimila og fyrirtækja í lækkandi skuldum heimilanna og því að kúfur í gjaldþrotahrinu fyrirtækja virðist að baki. Mikill fjöldi fyrirtækja fór í þrot, en það voru að stærstum hluta eignarhaldsfyrirtæki án eiginlegs rekstrar eða bólufyrirtæki með fallnar forsendur. Það var engin sérstök ástæða til að gráta að verslunarfyrirtæki með lúxusvörur, svo dæmi sé tekið, færu í þrot. Við því var einfaldlega ekkert að gera. Eftirspurnin var horfin.  Hitt skipti meira máli að koma í veg fyrir að fyrirtæki með heilbrigðar rekstrarforsendur þyrftu að fara í þrot. Þess vegna réðumst við í stórátak til að lækka skuldir heimila og fyrirtækja, án þess að tugþúsundir einstaklinga og fyrirtækja þyrftu að fara hina hefðbundnu gjaldþrotaleið. Nú þegar eru þúsundir einstaklinga búnar að fá skuldir lækkaðar að greiðslugetu og enn bíður fjöldi úrlausnar hjá umboðsmanni skuldara. Þegar er búið að lækka skuldastöðu þúsunda rekstrarhæfra fyrirtækja og gera þeim þannig kleift að halda áfram rekstri. Ef þetta hefði ekki verið gert hefði afleiðingin orðið enn meira atvinnuleysi, enn dýpri kreppa, enn fleiri gjaldþrot og langvinnt samfélagstjón.

Þessi árangur hefur ekki komið af sjálfu sér. Efnahagsstefna sú sem núverandi ríkisstjórn hefur fylgt og mótuð var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn strax eftir hrun, hefur verið forsenda þessa árangurs. Um þá stefnu og sérkenni hennar, fjalla ég betur í næstu grein.

Birt í Fréttablaðinu, 9. ágúst 2012.